[Mynd 1]

Handritakort Íslands

 

Í tilefni af því að 13. nóvember 2013 verða liðin 350 ár frá fæðingu Árna Magnússonar handritasafnara hefur Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gefið út Handritakort Íslands. Kortið er gefið út í samvinnu við Mál og menningu (Forlagið). Texti kortsins er á íslensku, dönsku, ensku og þýsku.

Handritakortið lýsir á skýran og aðgengilegan hátt 43 völdum handritum og tengslum þeirra við ákveðna staði á landinu. Handrit tengjast öllum landshlutum og handritin 43 á kortinu dreifast nokkuð jafnt um landið en einnig var lögð áhersla á fjölbreytni þeirra í efni og útliti. Tengsl handritanna við einstaka bæi geta verið af ýmsum toga. Sem dæmi má nefna að Kvæðabók úr Vigur er kennd við Vigur á Ísafjarðardjúpi og hefur verið skrifuð þar og bréfabók Gissurar Einarssonar Skálholtsbiskups hefur að miklu leyti verið skrifuð á biskupsstólnum. Talið er að handrit með biblíuþýðingum, sem kallaðar eru Stjórn, hafi að öllum líkindum verið skrifað í klaustrinu á Helgafelli og Lögmannsannáll hefur að verið skrifaður á Breiðabólstað í Vesturhópi en þar bjó höfundurinn og skrifarinn Einar Hafliðason á 14. öld. Jón Hákonarson í Víðidalstungu lét skrifa Flateyjarbók en lögbókarhandritið Reykjabók er kennd við Reyki í Mosfellssveit. Magnús Eiríksson í Njarðvík á Suðurnesjum skrifaði nafn sitt í Konungsbók eddukvæða og Árni Magnússon fékk handrit með Margrétar sögu á Skriðuklaustri, en Melabók Landnámu er kennd við Mela í Melasveit. Mynd er af hverju handriti og þeim er lýst stuttlega, auk þess sem heimkynni þeirra eru merkt inn á kort.

Árni safnaði hátt í 3000 handritum, auk fornbréfa, og átti þar fyrir utan mörg þúsund bréfauppskriftir. Stærsti hluti handritanna er íslenskur en Árni átti líka norsk, dönsk, sænsk, þýsk og spænsk handrit og jafnvel handrit víðar að. U.þ.b. 65% af handritasafni Árna voru flutt til Reykjavíkur á síðustu öld og eru  varðveitt í Árnastofnun. Öll íslensk bréf í safninu voru einnig flutt til landsins sem og uppskriftir íslenskra bréfa. Það er því aðeins lítið brot af handritasafni Árna sem er sett á kortið, eða 36 handrit (7 handrit á kortinu eru ekki úr safni Árna).

Handritakort Íslands er nauðsynlegt öllum þeim sem unna sögu og menningu þjóðarinnar.