Heimsókn í grunnskóla á landsbyggðinni

 

Í tilefni tímamótanna mun safnfræðslan, sem skólahópum hefur staðið til boða á handritasýningum stofnunarinnar, verða flutt 'út úr húsi' og inn í skólastofur grunnskólanema á landsbyggðinni. Þannig gefst fleiri börnum kostur á að kynnast handritaarfinum og söfnunarstarfi Árna Magnússonar, en börn sem búa á landsbyggðinni geta ekki eins auðveldlega nýtt sér þetta boð og þau sem eiga heima á höfuðborgarsvæðinu.

Verkefnið er hluti af Handritin alla leið heim og felst í því að fara á sex valda staði á landinu og með hækkandi sól er stefnt að því að heimsækja grunnskólanemendur á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austfjörðum og Suðurlandi.

Stofnunin leggur mikinn metnað í að kynna handritin fyrir ungu kynslóðinni og hafa nemendur verið sérlegir aufúsugestir safnkennslunnar á handritasýningum stofnunarinnar sem fyrst var starfrækt í Árnagarði við Suðurgötu í Reykjavík, þá um ellefu ára skeið í Þjóðmenningarhúsi við Hverfisgötu í Reykjavík og frá 23. nóvember 2013 til 9. febrúar 2014 í Gerðarsafni í Kópavogi. Myndir frá safnfræðslunni og listasmiðjunni í Gerðarsafni.

Safnkennari Árnastofnunar, Svanhildur María Gunnarsdóttir, hefur á sautján ára starfsferli skipulagt safnkennsluna og tekið á móti skólahópum og boðið upp á fræðslu um handritin og efni þeim tengt. Að þessu sinni snýst dæmið við og land lagt undir fót með safnfræðsluna.