350 years of Árni Magnússon (1663–1730)


Teiknibókin

Stækka má myndina með því að smella á hana. Úr Teiknibókinni. Á neðri myndunum tveimur vinstra megin er sköpun ferfættra dýra og sköpun Evu úr rifi Adams. Ofan við þær situr skaparinn í sporöskjulaga baug á sjöunda degi sköpunarsögunnar. Í hornunum umhverfis hann eru merki guðspjallamannanna: örn Jóhannesar, engill Matteusar, naut Lúkasar og ljón Markúsar. Sýning í tengslum við útgáfu á Teiknibókinni
13. nóvember
Gerðarsafni

Oft er haft á orði að Íslandi eigi sér litla sem enga hefð í myndlist.  Myndskreytingar í íslenskum miðaldahandritum og myndum Teiknibókar taka af öll tvímæli um að slíkar fullyrðingar standast engan veginn. Sýning á Teiknibókinni ásamt skyldum handritalýsingum og öðru samanburðarefni, jafnt innlendu sem erlendu, mun varpa óvæntu ljósi á íslenska miðaldamyndlist. Með nútímasýningartækni verður almenningi kynnt þessi menningararfleifð okkar á skilvirkan og áhugaverðan hátt.

Íslenska teiknibókin í Árnasafni (AM 673a III 4to) er safn fjölda fyrirmynda frá 14. og 15 öld sem ætlaðar voru til nota við gerða ýmisskonar listaverka af kristilegum toga. Meðal efnis í bókinni eru myndraðir um sköpunina, úr ævi Maríu og píslarsögu Krists. Þar eru einnig allmargar Maríu- og dýrlingamyndir og ýmis önnur minni sem hvergi eru varðveitt annars staðar í íslenskri miðaldalist.

Handritið er skert, 22 blöð eru varðveitt. Teiknibókin er einstæð meðal íslenskra miðaldahandrita. Hún er ein af fáum teiknibókum frá miðöldum sem varðveist hafa í Evrópu og sú eina á Norðurlöndum. Fyrirmyndir Teiknibókar varpa einstæðu ljósi á íslenska trúarlist og hugarheim miðalda og óhætt að fullyrða að hvergi sé samankomið efni á einum stað sem veiti jafn ríkulega innsýn í trúar- og kirkjulist hins kaþólska siðar  á Íslandi.

Bókin hefur alþjóðlega skírskotun og menningargildi vegna þess hversu fágætar miðaldateiknibækur eru. Útgáfa hennar mun vekja áhuga utan Íslands og niðurstöður rannsóknar Guðbjargar Kristjánsdóttur listfræðings eru þýðingamikið innlegg í alþjóðlega umræðu um fyrirmyndabækur á miðöldum.