Stutt ágrip af ársfundi stofnunarinnar 21. apríl 2010

Mennta- og menningarmálaráðherra opnaði www.handrit.is á ársfundi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á Hótel Sögu, 21. apríl 2010. Á vefnum eru handritasöfn Árnastofnananna tveggja og Landsbókasafns sameinuð á Netinu. Vefurinn veitir aðgang að sögulegum handritum sem ná hundruð ára aftur í tímann.

 
Ingibjörg Sverrisdóttir landsbókavörður, Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar við vígslu handritavefsins

 

 

 


Ársfundur stofnunarinnar sem haldinn var á Hótel Sögu í morgun hófst með innleggi frá Guðrúnu Nordal forstöðumanni. Guðrún lagði áherslu á fjóra vegvísa; opinn aðgang, samstarf, rannsóknir og nýsköpun og samhent átak.

Úlfar Bragason kynnti Icelandic Online - Íslenskukennslu á Netinu. Í erindi hans kom m.a. fram að könnun sem gerð var 2008 nefna flestir íslenskunemar í háskólum erlendis að áhuginn þeirra beinist að tungumálinu sjálfu sem þeim þykir merkilegt en áður var hvatinn til íslenskunáms oftar löngun þeirra til að lesa fornbókmenntir á íslensku.

Jónína Hafsteinsdóttir svaraði spurningunni um hvaðan örnefnin koma m.a. þannig að sjaldnast verði örnefni til í kjölfar skipulagðra ákvarðana innan stofnana eins og raunin verður með nýja fjallið á Fimmvörðuhálsi. Algengast er að örnefni verði til manna á milli, til sjávar og sveita og er þá hlutverk stofnana að varðveita þau.

Kristín Bjarnadóttir kynnti meðal annars verðlaunahafa í samkeppni um hugvitssamlega nýtingu á gögnum úr Beygingarlýsingu íslensks máls. Fyrstu verðlaun hlaut Borgar Þorsteinsson fyrir tölvuleikinn Orðavinda.

Ari Páll Kristinsson kynnti niðurstöður úr könnun sem gerð var á málfarsráðgjöf í mars síðastliðnum og að hluta til í apríl. Um 100 manns sem leituðu ráðgjafar á þessu tímabili svöruðu könnuninni. Helmingur svarenda leitaði ráðgjafar vegna texta sem átti að birta í auglýsingu/kynningu, skýrslu eða sem fræðitexti. Yfir níutíu svarenda ætluðu að fara að ráðunum sem þeir fengu.

Rósa Þorsteinsdóttir ræddi þjóðfræðisafn stofnunarinnar og sérstaklega gjafir Kvæðamannafélags Iðunnar. Rósa lauk erindi sínu með því að kveða rímur.

Sigurgeir Steingrímsson og Örn Hrafnkelsson kynntu nýjan vef handrita, www.handrit.is. Vefurinn er merkilegur fyrir þær sakir að hann veitir aðgang að sögulegum handritum sem ná hundruð ára aftur í tímann og þar eru sameinuð handritasöfn stofnunarinnar, Árnastofnunar í Danmörku og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Á síðasta ári var handritasafn Árna Magnússonar tilnefnt á sérstaka varðveisluskrá UNESCO, Minni heimsins (Memory of the World Register) svo ekki verður um villst að íslensk handrit vekja athygli á alþjóðavettvangi. Efniviður handritanna á vefnum samanstendur af íslenskum fornbókmenntum, m.a. heildstæðu safni Íslendingasagna og -þátta. Einnig er þar drjúgur hluti norrænar goðafræði, biskupasagna, fornaldarsagna og riddarasagna auk þess sem fjöldi handrita geymir ýmist kvæði, rímur eða lausavísur. Á vefnum er veittur aðgangur að stafrænum myndum handrita.

Ársfundinum lauk með ávarpi Katrínar Jakobsdóttur mennta og menningarmálaráðherra og vígslu handritavefsins www.handrit.is.