Bækur og geisladiskar

8. Sögur úr vesturheimi

Sögur úr Vesturheimi.
Árnastofnun hefur gefið út bókina Sögur úr Vesturheimi með þjóðfræðaefni sem hjónin Hallfreður Örn Eiríksson og Olga María Franzdóttir hljóðrituðu meðal Vesturíslendinga í Norður Ameríku veturinn 1972-73. Hljóðritanir Hallfreðar og Olgu eru nú einstök heimild um mál og líf fólksins í nýju landi. Hlusta má á hljóðritanirnar á vefnum.

Ritst./Ed.: Gísli Sigurðsson sá um útgáfuna. 2012, 556 s. / pp.
ISBN: 978–9979–654–22-3
Verð/Price: 4.900

Háskólaútgáfan sér um dreifingu bókarinnar http://haskolautgafan.hi.is/.

 

7. Sagan upp á hvern mann

Sagan upp á hvern mann. Átta íslenskir sagnamenn og ævintýrin þeirra.
Bókin er brautryðjendaverk í íslenskri þjóðsagnafræði en í henni er fjallað um heimssýn í ævintýrum og sagnasjóðum. Úrval sagnanna er prentað í bókinni en einnig er hægt að hlusta á sögurnar á heimasíðu stofnunarinnar.

Ritst./Ed.: Rósa Þorsteinsdóttir. 2011, 400 s. / pp.
ISBN: 978-9979-654-19
Verð/Price: 5.400 kr.


 

6. Vappaðu með mér Vala. Ása Ketilsdóttir kveður, syngur og segir sögur

Út er kominn geisladiskurinn Vappaðu með mér Vala, þar sem Ása Ketilsdóttir (f. 1935) fer með ýmsan fróðleik. Ása fæddist á Ytra-Fjalli í Aðaldal en hefur verið búsett á Laugalandi við Ísafjarðardjúp í rúmlega hálfa öld. Á diskinum flytur Ása fjölbreytilegan kveðskap, vísur, þulur, rímur og kvæði, og segir nokkrar sögur. Strandagaldur á Hólmavík gefur diskinn út í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, en auk þess höfðu Rósa Þorsteinsdóttir þjóðfræðingur og Skúli Gautason, sem sá um upptökur og hljóðvinnslu, umsjón með útgáfunni. Með diskinum fylgir veglegur bæklingur skreyttur teikningum sem eru æskuverk Ásu sjálfrar, en Ásta Þórisdóttir hannaði útlitið.

Diskurinn er fáanlegur á skrifstofu stofnunarinnar en einnig er hægt að kaupa hann í vefbúð og verslun Strandagaldurs, sem sér einnig um dreifingu. Slóðin inn á heimasíðu útgáfunnar er www.galdrasyning.is/asudiskur Þar er hægt að skoða bæklinginn sem fylgir útgáfunni í vefformi og panta diskinn.

Verð: 3.200 kr.

Diskurinn á facebook síðu.
 

5. Heyrði ég í hamrinum

Á geisladisknum Heyrði ég í hamrinum heyrast raddir sjö kvenna af Snæfjallaströnd, en þær kveða og segja huldufólkssögur. Upptökurnar voru gerðar af Hallfreði Erni Eiríkssyni og hjónunum Helgu Jóhannsdóttur og Jóni Samsonarsyni á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar og eru varðveittar í safni stofnunarinnar.

Ólafur J. Engilbertsson og Rósa Þorsteinsdóttir sáu um útgáfuna. Snjáfjallasetur gefur diskinn út í samvinnu við stofnunina og sér um dreifingu.


4. Vel trúi ég þessu! Tólf munnmælasögur með myndum eftir tólf teiknara.

Bók og geisladiskur með sögum úr þjóðfræðasafni stofnunarinnar. Þarna er að finna huldufólkssögur, draugasögur, stutt ævintýri og kímnisögur. Hver sagnamaður segir söguna eins og hann kann hana, hver með sínu nefi og með sínum sérstöku útúrdúrum. Eins og sögumennirnir hafa teiknararnir einnig sín sérkenni. Sumir kjósa að draga fram hið hlýja og mannlega í sögunum en aðrir velja að sýna gamansemina, hryllinginn eða groddalega afþreyinguna sem margar sögurnar bera með sér. Útgáfan er gerð þannig úr garði að annað hvort er hægt að lesa sögurnar eða hlusta á þær sagðar um leið og myndirnar eru skoðaðar.

Umsjón með útgáfunni höfðu Áslaug Jónsdóttir, Halla Sólveig Þorgeirsdóttir, Halldór Baldursson og Rósa Þorsteinsdóttir.

Eftirtaldir listamenn myndskreyttu sögurnar: Anna Cynthia Leplar, Áslaug Jónsdóttir, Brian Pilkington, Freydís Kristjánsdóttir, Gunnar Karlsson, Halla Sólveig Þorgeirsdóttir, Halldór Baldursson, Kristín Ragna Gunnarsdóttir, Margrét E. Laxness, Ragnheiður Gestsdóttir, Sigrún Eldjárn og Þórarinn Böðvar Leifsson.

Sagnafólkið er: Andrea Jónsdóttir, Elísabet Friðriksdóttir, Friðfinnur Runólfsson, Guðrún Stefánsdóttir, Herdís Jónasdóttir, Hinrik Þórðarson, Indíana Sigurðsson, Kristbjörg Vigfúsdóttir, Kristrún Matthíasdóttir og Þorbjörg R. Pálsdóttir.

Bókaútgáfan Æskan og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (2007).
 

3. " Einu sinni átti ég gott" .  Myndskreytt barnabók með gömlum vísum auk tveggja geisladiska með hljóðritun vísnanna. 

Efnið sem hér er gefið út á bók og tveimur geisladiskum er varðveitt á segulböndum í þjóðfræðasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og er flutt af fólki alls staðar að af landinu. Hér er að finna allt frá bænum og fallegum vögguvísum til kveðskapar um Grýlu og hennar hyski ásamt öðrum barnafælum. Ekki er víst að sá kveðskapur hafi alltaf átt að hræða börnin til þess að vera góð, hann getur einnig vakið spennandi hrylling, sem krökkum þykir enn skemmtilegur. Og strákum og stelpum fyrri alda var, ekkert síður en nútímabörnum, dillað yfir ýmsum kveðlingum sem víkja að líkamlegum þörfum. Þannig vísur er hér einnig að finna en inn á milli eru síðan sungnar eða mæltar fram sérkennilegar þulur, skemmtilegir kveðlingar og stuttar sögur sem hægt er að hafa gaman af, auk vísna sem notaðar hafa verið til að kenna börnum og leika við þau.

Rósa Þorsteinsdóttir, þjóðfræðingur á Árnastofnun, hafði umsjón með útgáfunni, Halldór Baldursson myndskreytti bókina og um hljóðvinnslu sá Sigurður Rúnar Jónsson í Stemmu. Smekkleysa ehf og Stofnun Árna Magnússona í íslenskum fræðum (2006).
 

2. Hlýði menn fræði mínu

Gamlar upptökur af sögum, rímum og kveðskap úr fórum Hallfreðar Arnar Eiríkssonar.
Um áratuga skeið var Hallfreður Örn Eiríksson einn ötulasti safnari íslenskra þjóðfræða, og í hljóðritasafni Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi er varðveittur á böndum ómetanlegur fjársjóður efnis sem hann hefur safnað víða um land og meðal fólks af íslenskum ættum í Vesturheimi, samtals meira en 1000 klst.
Til að heiðra Hallfreð á sjötugsafmæli hans hafa samstarfsmenn hans á Árnastofnun gefið út á hljómdiski dálítið sýnishorn af því efni sem hann hefur bjargað frá gleymsku. Þar er að finna sagnir og ævintýri, rímur, þulur og sálma. Leitast er við að láta diskinn endurspegla eftir því sem hægt er fjölbreytni og landfræðilega dreifingu efnis í safni Hallfreðar, en varpa um leið ljósi á hans eigin rannsóknir. Efnið af diskinum fylgir í prentuðum bæklingi.
Rósa Þorsteinsdóttir sá um útgáfuna. 2002.
Verð: 2.570 kr.
 

1. Raddir

Ómennskukvæði, Ókindarkvæði, Grýlukvæði, rímur, sagnadansar, drykkjuvísur, þulur, barnagælur og önnur íslensk þjóðlög. Safnað af vörum Íslendinga á árunum 1903-1973 og er nú varðveitt í segulbandasafni Árnastofnunar. Andri Snær Magnason og Rósa Þorsteinsdóttir sáu um útgáfuna. Smekkleysa ehf og Stofnun Árna Magnússonar 1998. (Smekkleysa dreifir.)