Barokkmeistarinn Hallgrímur Pétursson

Barokkmeistarinn Hallgrímur Pétursson er rannsókn á kveðskap Hallgríms Péturssonar út frá hugtökunum barokk og barokktexti.

Í upphafi er reynt er að veita lesendum nokkra innsýn í barokkrannsóknir í Þýskalandi og á Norðurlöndunum og loks á Íslandi; þá er leitast við að skilgreina hvað einkenni hinn svokallaða barokktexta. Aðrir inngangskaflar eru lýsing á íslensku samfélagi á sautjándu öld og umfjöllun um menntun í orðsins list á sama tíma. Þá er fjallað um kveðskap Magnúsar Ólafssonar í Laufási og reynt að sýna fram á að hann hafi verið endurreisnarmaður í íslenskri bókmenntasögu, síðan er fjallað um kveðskap Stefáns Ólafssonar samtímamanns Hallgríms, í senn hliðstæðu hans og andstæðu.

Annar hluti bókarinnar er umfjöllun um Hallgrím Pétursson; fyrst eru raktar heimildir um hann og helstu æviatriði og reynt að varpa ljósi á stöðu hans í íslensku samfélagi. Þá kemur yfirlit yfir höfundarverk skáldsins en að því búnu er fjallað um þann kveðskap hans sem flokka má til eftirtalinna bókmenntagreina: andlegur kveðskapur, hverfulleikakvæði, ádeilukvæði, passíusálmar, tækifæriskvæði og huggunarljóð.

Í þriðja og síðasta hluta er fjallað um rit Hallgríms í lausu máli en þau eru kristileg íhugun sem ber þekkingu höfundar á mælskufræðum glöggt vitni. Þá er fjallað um þau viðhorf til skáldskapar sem fram koma í skrifum Jóns Ólafssonar úr Grunnavík og reynt að sýna fram á hvernig hugmyndir hans eru lýsandi fyrir barokktímann. Loks er fjallað um lofkvæði nokkurra skálda um Hallgrím Pétursson og barokkáhrif sem þar koma fram. Lokakaflinn er samantekt þar sem raktar eru helstu niðurstöður rannsóknarinnar