kafli5

Blómaskeið á miðöldum

Mikil gróska var í íslenskri sagnaritun á 13. öld. Þá voru Íslendingasögurnar skrifaðar, en þær eru án efa þekktastar og vinsælastar allra íslenskra fornsagna. Þær gerast á tímabilinu frá landnámi og fram um miðbik 11. aldar en eru færðar í letur löngu síðar, á 13. og 14. öld.
    Íslendingasögurnar fjalla um Íslendinga og gerast að mestu leyti á Íslandi. Þær lýsa illdeilum og átökum manna á milli þar sem mannleg reisn og sæmd var það sem öllu máli skipti. Stíll þeirra, frásagnarlist og mannlýsingar hafa aflað þeim vinsælda um aldir, ekki einungis meðal Íslendinga, heldur um víða veröld. Frægust þeirra er Brennu-Njáls saga eða Njála, eins og hún er einnig nefnd. Njála er rituð á kálfsskinn eins og önnur íslensk fornhandrit.

Úr Njálu


„Gunnar Hámundarson bjó að Hlíðarenda í Fljótshlíð. Hann var mikill maður vexti og sterkur og allra manna best vígur. Hann hjó báðum höndum og skaut ef hann vildi og hann vó svo skjótt með sverði að þrjú þóttu á lofti að sjá. Hann skaut manna best af boga og hæfði allt það er hann skaut til. Hann hljóp meir en hæð sína með öllum herklæðum og eigi skemmra aftur en fram fyrir sig. Hann var syndur sem selur. Og eigi var sá leikur að nokkur þyrfti við hann að keppa og hefir svo verið sagt að engi væri hans jafningi. Hann var vænn að yfirliti og ljóslitaður, rétt nefið og hafið upp í framanvert, bláeygur og snareygur og rjóður í kinnum, hárið mikið, gult og fór vel. Manna var hann kurteisastur, harðger í öllu, ráðhollur og góðgjarn, mildur og stilltur vel, vinfastur og vinavandur. Hann var vel auðigur að fé.“

       Þannig er Gunnari Hámundarsyni, einni mestu hetju Íslendingasagnanna,
       lýst í Brennu-Njáls sögu.