Listir og fjölmiðlar

Blindur er bóklaus maður, segir íslenskt máltæki. Íslendingar hafa löngum verið taldir mikil bókaþjóð. Mikið er gefið út af bókum í landinu, ekki hvað síst fyrir jólin og er þá stundum talað um jólabókaflóð. Fjöldi útgefinna bóka á mann er meiri en í nokkru öðru landi. Þó eru uppi efasemdarraddir um þennan mikla bóklestur og margir telja að dregið hafi úr honum meðal barna og unglinga, enda sé afþreyingarefni orðið mjög fjölbreytt. Aðrir benda á að útgáfa barna - og unglingabóka fari vaxandi sem ætti að vera vísbending um að bókin haldi enn velli meðal unga fólksins.


Rómantík og raunsæi
Bókmenntir 19. aldarinnar einkenndust af rómantísku stefnunni, sem barst til landsins frá Danmörku, og sterkri þjóðernisstefnu sem mótaðist mjög af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Mörg dáðustu skáld þjóðarinnar eru frá þeim tíma og er jafnan vitnað til þeirra sem þjóðskáldanna. Þekktast og ástsælast þessara skálda er án efa Jónas Hallgrímsson (1807 - 1845) sem orti mörg hin fegurstu ljóð sem til eru á íslenska tungu. Hann var ötull baráttumaður í sjálfstæðisbaráttu íslendinga og lagði þeirri baráttu lið með ljóðum eins og Gunnarshólma og Íslandi sem enn þann dag í dag stuðla að þjóðernisvitund Íslendinga.
    Raunsæisstefnan gerði fyrst vart við sig í íslenskum bókmenntum 1882 þegar fjórir íslenskir stúdentar í Kaupmannahöfn hófu útgáfu tímaritsins Verðandi undir áhrifum frá danska bókmenntagagnrýnandanum Georg Brandes. Þrír þeirra eru taldir meðal merkustu rithöfunda raunsæistímans: Gestur Pálsson (1852 - 1891) var brautryðjandi í íslenskri smásagnagerð; Einar Kvaran (1859 - 1938) var áhrifamikill höfundur í upphafi 20. aldarinnar en féll í skugga yngri höfunda; þriðji höfundurinn var Hannes Hafstein (1861 - 1922) sem var aðeins tuttugu og eins árs er hann birti sín fyrstu ljóð í Verðandi. Hannesi fylgdi ferskur andblær inn í íslenska ljóðagerð og mörg ljóða hans eru sívinsæl. Hannes var glæsimenni og dáður af mörgum, ekki aðeins fyrir ljóð sín heldur og fyrir þátttöku sína í stjórnmálum. Hann varð fyrsti ráðherra Íslendinga eftir að þeir hlutu heimastjórn árið 1904. Af sömu kynslóð skálda var Stephan G. Stephansson (1853 - 1927). Hann fluttist ungur vestur um haf en er eitt af virtustu skáldum á íslenska tungu.Fyrstu áratugir 20. aldarinnar
1900 - 1930 er tímabil nýrómantísku stefnunnar á Íslandi.

Um aldamótin 1900 voru Íslendingar um 80.000 talsins. Reykjavík var stærsti bærinn með um 6.000 íbúa. Árið 1925 voru íbúarnir orðnir yfir 20.000. Örar þjóðfélagsbreytingar áttu sér stað á þessum tíma og stjórnmálabaráttan snerist sem fyrr um þjóðfrelsismál. Skáldin lögðu sitt af mörkum til að efla þjóðerniskennd landsmanna. M.a. voru ort fjölmörg aldamótaljóð þar sem áhersla var lögð á einingu þjóðarinnar og bjartsýna framfaratrú.
   

Bókamarkaður á Íslandi var lítill í fámennu landi. Á fyrsta áratug aldarinnar voru gefin út 46 frumsamin rit í lausu máli, eða um fimm á ári. Ljóðabækur voru fleiri, en árlega komu út um tíu ljóðabækur. Þess var ekki að vænta við slíkar aðstæður að rithöfundar sæju sér fært að helga sig ritstörfum. Margir leituðu því út fyrir landsteinana með list sína, einkum til Norðurlandanna. Þekktastur þessara rithöfunda er Gunnar Gunnarsson (1889-1975). Hann bjó í Danmörku og skrifaði verk sín á dönsku. Meðal verka hans er Saga Borgarættarinnar (1912 - 14).
    Þórbergur Þórðarson var samtímamaður Gunnars en bjó á Íslandi. Hann hefur haft mikil áhrif á íslenskar bókmenntir en einungis fá verka hans eru til í erlendum þýðingum. Meðal verka hans eru Ofvitinn, Bréf til Láru, Íslenskur aðall og Suðursveit.

Fyrsta konan sem gerir ritstörf að atvinnu sinni var Torfhildur Hólm (1845 - 1918). Konur fetuðu þó hægt í fótspor hennar, enda ekki talið á sviði kvenna að fást við slíkt. Í Mánaðarriti Lestrarfélags kvenna Reykjavíkur (1913 ) farast Theodoru Thoroddsen(1863-1954), skáldkonu, svo orð um konur og skáldskap:
Því er svo farið með skáldgáfuna, sem flest annað andlegt atgervi, að vér konurnar erum þar að jafnaði eftirbátar karlmannanna. Skal hér ósagt látið hvort heldur það stafar af því, að heilinn í okkur sé léttari í voginni heldur en þeirra, eins og haldið er fram af sumum eða það á rót sína í margra alda andlegri og líkamlegri kúgun.

Teodora var einkum kunn fyrir þulur, en eftir hana liggur ýmiss kveðskapur auk þýðinga.
    Eitt listfengasta skáld tímabilsins, einkum í ljóðagerð, var kona. Hún hét Unnur Benediktsdóttir Bjarklind (1881 - 1946) en tók sér skáldaheitið Hulda. Hún gaf út mörg ljóðasöfn, smásögur og skáldsöguna Dalafólk (1936 - 39), þroskasögu með stúlku í aðalhlutverki.
 Félagslegt raunsæi 1930-50
Halldór Kiljan Laxness
Á tímabilinu 1920 - 30 var þjóðernisstefnan enn nokkuð ríkjandi í bókmenntum en á næsta áratug breyttist það til mikilla muna. Flestir mikilvægustu höfundar áratugarins voru fylgismenn sósíalisma. Höfundar gerðu sér far um að skrifa raunsæislegar samtíðarsögur. Áhersla var lögð á að láta uppruna og félagslegar aðstæður varpa ljósi á persónur sagnanna og samfélagið gjarnan gert ábyrgt fyrir afdrifum þegna sinna sem gjarnan eru sýndir í uppreisn gegn aðstæðum sínum. Bókmenntir þessa tímabils ollu oft miklu pólitísku fjaðrafoki í þjóðfélaginu vegna þess hve kjör lágstéttarfólks og þeirra sem minna máttu sín í þjóðfélaginu voru gagnrýnd í verkunum.
    Fremsti rithöfundur Íslendinga á tuttugustu öld, Nóbelsverðlaunahafinn Halldór Kiljan Laxness, er atkvæðamesti höfundur þessa tímabils. Tímabilið hefst um það leyti sem skáldsaga hans Salka Valka kemur út og lýkur u.þ.b. sem Atómstöð hans kemur út (1948). Á tímabilinu þarna á milli sendi höfundur frá sér Sjálfstætt fólk (1934 - 35), en það verk olli miklu umróti í hugum fólks. Margir reiddust þeirri mynd sem skáldið dró upp af einyrkjanum og öreiganum Bjarti í Sumarhúsum og lífskjörum hans. Þótti skáldið vega óvægilega að íslenskri bændamenningu. Næst sendi hann frá sér Heimsljós (1937 - 40) og Íslandsklukkuna (1943 - 46). Auk þessa gaf hann út fjölmargt annað á tímabilinu, svo sem ljóð, leikrit og ritgerðir. Sá sem hefur áhuga á að kynna sér íslenskar bókmenntir ætti að lesa verk eftir Halldór. Skáldsögur hans hafa verið þýddar á fjölda tungumála. Halldór Kiljan Laxness hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1955.Blómaskeið skáldsögunnar
Tímabil hins félagslega raunsæis (1930 - 50) var mikið blómaskeið skáldsögunnar. Róttækir höfundar fylgdu svipuðu efnisvali og Halldór Kiljan Laxness gerði og fjölluðu um smælingja samfélagsins og ranglát kjör þeirra. Þar má nefna Halldór Stefánsson (1892 - 1979) og Ólaf Jóhann Sigurðsson (1918 - 1988) en hann hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1976 fyrir ljóð, fyrstur Íslendinga.
    Árið 1938 kom út skáldsagan Sturla í Vogum eftir Guðmund G. Hagalín. Litið var á söguna sem andsvar við Sjálfstæðu fólki Halldórs Kiljan Laxness. Sturla, aðalpersóna sögunnar, er stórbrotin hetja í nýrómantískum anda og alger andstæða Bjarts í Sumarhúsum. 
  Guðrún Árnadóttir frá Lundi (1887 - 1975) er einn vinsælasti rithöfundur Íslendinga. Hún skrifaði á þessum árum fjölmargar skáldsögur um lífið í sveitinni sem nutu fádæma vinsælda, m.a. Dalalíf I-IV (1946 - 51). Hún gaf út sína síðustu skáldsögu Utan frá sjó I-III, 1970 - 72. Annar vinsæll rithöfundur var Ragnheiður Jónsdóttir (1895 - 1967) sem er kunnust fyrir bækur sínar fyrir börn og unglinga og bækur hennar um Dóru og Völu nutu mikilla vinsælda. En hún skrifaði einnig níu skáldsögur fyrir fullorðna á árunum 1941 - 1967. Þær fjalla um konur í innri og ytri átökum á miklu breytingatímabili í sögu þjóðarinnar. Dr. Dagný Kristjánsdóttir skrifaði doktorsritgerð, Kona verður til, um þessar sögur. Það er fyrsta doktorsritgerð sem skrifuð er um íslenskar kvennabókmenntir.
Fleiri höfundar settu svip sinn á tímabilið. Þar má nefna Guðmund Daníelsson (1910 - 1990) sem var afkastamikið sagnaskáld og Kristmann Guðmundsson (1901 - 1983) sem bjó lengi í Noregi og samdi þá sögur sínar á norsku. Eftir að hann fluttist til Íslands varð hann umdeildur höfundur. Meðal verka hans er Félagi kona (1947) og hann samdi vísindaskáldsögu einn fyrstur mann á Íslandi: Ferðin til stjarnanna (1959). Guðmundur Kamban (1888-1945) var búsettur í Danmörku. Hans þekktasta verk er sögulega skáldsagan Skálholt I-IV sem hann gaf út á dönsku og íslensku (1930 - 1935).
Auk þess skrifaði Elínborg Lárusdóttir (1891 - 1976), margar skáldsögur auk bóka um miðla og dulræn efni og Þórunn Elfa Magnúsdóttir (1910 - 1995) skrifaði Dætur Reykjavíkur (1933 - 38) sem er brautryðjendaverk meðal Reykjavíkursagna.
  Módernismi 1950-70
Tímabilið um og upp úr 1950 er kennt við módernisma í íslenskum bókmenntum. Þá varð mikil ólga í íslenskri ljóðagerð sem leiddi til uppgjörs við forna kveðskaparhefð Íslendinga og nokkru síðar kenndi svipaðrar ólgu í sagnagerð. Smásagnahöfundar leyfðu sér frjálsara form en áður hafði tíðkast og færðu sér í nyt ýmsa eiginleika ljóðsins. Stíll sagnanna varð ljóðrænni en minna var lagt upp úr spennandi söguþræði sem áður var aðalsmerki smásögunnar.
    Thor Vilhjálmsson (1925-2011) er einn helsti brautryðjandi hins móderníska prósa í íslenskum bókmenntum. Hann skrifaði bækur á sjöunda og áttunda áratugnum um nútímamanninn á mjög ljóðrænan og myndrænan hátt. Módernískar skáldsögur hans eru Fljótt, fljótt sagði fuglinn (1968) og Óp bjöllunnar 1970. Hann sendi frá sér skáldsöguna Foldu 1972 en hún naut mikilla vinsælda. Í sögulegu skáldsögunni Grámosinn glóir (1986) nýtur stílgáfa Thors sín til fulls með glæsilegum árangri og hann fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bókina. 
    Ásta Sigurðardóttir (1930 - 1971) var rithöfundur og myndlistarmaður. Hún hafði mikil áhrif í átt til módernisma með smásögunni „Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns“ (1951) sem bæði hreif fólk og hneykslaði.
    Heldur dró úr skáldsagnagerð á milli 1950 og 1960 en merkasta skáldsaga áratugarins er vafalaust Gerpla (1952) eftir Halldór Kiljan Laxness. Gerpla er nk. skopstæling á Íslendingasögunni Fóstbræðra sögu. Í sögunni felst m.a uppgjör skáldsins við fortíðina. Næsta skáldsaga Halldórs, Brekkukotsannáll, kom út 1957, Paradísarheimt 1960, Kristnihald undir jökli 1968 og Innansveitarkronika 1970.
    Indriði G. Þorsteinsson (1926-2000) lýsti vel örlögum þeirrar kynslóðar sem flutti sig úr sveitinni á mölina í skáldsögunum 79 af stöðinni (1955) og Landi og sonum (1963).
    Jakobína Sigurðardóttir (1918 - 94) vakti athygli fyrir nýstárlega frásagnartækni í sögunum Dægurvísu (1965), sem var fyrsta hópsaga á Íslandi, og Snörunni (1968).
    Svava Jakobsdóttir (1930-2004) hefur getið sér gott orð, einkum fyrir smásögur sínar. Þekktasta saga hennar Leigjandinn(1969) hefur gjarnan verið túlkuð sem táknræn lýsing á sambúð íslensku þjóðarinnar og bandaríska setuliðsins. En hún hefur einnig verið túlkuð út frá sjónarhóli kvenfrelsis.
    Guðbergur Bergsson (f.1932) sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu, Músina sem læðist 1961 og árið 1966 gaf hann út athyglisverðustu bók áratugarins, Tómas Jónsson. Metsölubók. Gjarnan er litið á sögur Guðbergs sem uppreisn gegn hefðbundnu skáldsöguformi þar sem m.a tíminn er leystur upp og persónur klofnar. Líflegar umræður um bókmenntir og jafnvel deilur urðu með sögum Guðbergs.Nútíminn eftir 1970 
Stúdentaóeirðir kenndar við 68 kynslóðina og þær efasemdir um borgaraleg gildi og samfélagsmál sem einkenndu þá kynslóð höfðu sín áhrif á bókmenntirnar. Mikið var rætt um friðar - og umhverfismál á þessum árum og átti Víetnam-stríðið sinn þátt í því. Barátta fyrir jafnrétti kynjanna efldist og birtist m.a. í umræðu um stöðu konunnar. Mikilvægar greinar um það efni birtust um miðjan áttunda áratuginn m.a. eftir Helgu Kress, bókmenntafræðing. Í greinasafni hennar sem gefið var út undir heitinu Speglanir (2000) má lesa margar þessara greina.
    Eftir 1970 kom fram ný kynslóð rithöfunda sem voru fæddir í landi sem var sjálfstætt lýðveldi þar sem þjóðfélagsbreytingar voru örar. Verk höfunda voru raunsæ til að byrja með en síðar fóru þeir að leggja áherslu á stíl og eru mörg verk íslenskra nútímahöfunda mjög ljóðræn. Sérstaklega má þar nefna höfunda eins og:

 • Vigdísi Grímsdóttur (f. 1953) sem hefur vakið athygli fyrir einkar ljóðrænan stíl. Skáldsaga hennar Kaldaljós (1987) er gott dæmi um töfraraunsæi í íslenskum bókmenntum;
 • Einar Má Guðmundsson (f. 1954) en hann er einn afkastamesti skáldsagnahöfundrinn á níunda áratugnum. Hann hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1995 fyrir skáldsögu sína Engla alheimsins. Kvikmynd var gerð eftir þeirri sögu sem Friðrik Þór Friðriksson leikstýrði (2000) og;
 • Steinunni Sigurðardóttur (f. 1950) sem einkum er þekkt fyrir smásögur og skáldsögur í módernískum og póstmódernískum anda. Meðal verka eftir hana eru Tímaþjófurinn (1986) og Hjartastaður (1995).

Aðrir þekktir nútímahöfundar eru;

 • Pétur Gunnarsson (f. 1947) en hann sló í gegn með fyrstu skáldsögu sinni Punktur punktur komma strik (1976) og hlaut mikið lof lesenda. Framhald sögunnar kom út í þrem bindum á árunum 1978 - 1985;
 • Fríða Á. Sigurðardóttir (1940-2010) hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1992 fyrir skáldsögu sína Meðan nóttin líður.
 • Ólafur Jóhann Ólafsson (f. 1962) sem hefur skrifað bæði smásögur og skáldsögur í anda raunsæishefðarinnar. Seinasta skáldsaga hans Endurkoman kom út 2015;
 • Þórarinn Eldjárn (f. 1949) er ljóðskáld og rithöfundur. Hann hefur notið mikilla vinsælda fyrir ljóð sín og m.a. gefið út skemmtilegar ljóðabækur fyrir börn. Hann hefur skrifað nokkrar sögulegar skáldsögur, sú nýjasta er Hér liggur skáld (2012);
 • Einar Kárason (f. 1955) er kunnur fyrir skáldsögur um lífið í braggahverfi í Reykjavík. Braggar frá hernámsárunum voru nýttir sem íbúðarhúsnæði á árunum eftir stríð þegar mikil húsnæðisekla var í borginni. Einar gerir lífið í þessum sérkennilegu hverfum að yrkisefni sínu í þriggja sagna flokki: Þar sem djöflaeyjan rís (1983), Gulleyjan (1985), og Fyrirheitna landið (1989). Kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar Djöflaeyjan (Devil's Island) (1996) byggir á þessum sögum;
 • Kristín Ómarsdóttir (f. 1962) er sagna - og leikritaskáld. Hún er talin í hópi djörfustu tilraunamanna í íslenskum bókmenntum síðustu ára. Meðal verka eftir hana er skáldsagan Elskan mín ég dey (1997);
 • Gyrðir Elíasson (f.1961) er ljóðskáld og rithöfundur. Hann hefur vakið athygli fyrir fágaðan stíl og sérstakt myndmál. Hann fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 fyrir smásagnasafnið Milli trjánna (2011);
 • Guðrún Helgadóttir (f.1935) hefur skrifað fjölda vinsælla barnabóka og fékk Norrænu barnabókaverðlaunin fyrir skáldsöguna Undan illgresinu (1992).
 • Hallgrímur Helgason (f. 1959) er rithöfundur og ljóðskáld. Meðal verka hans er 101 Reykjavík, skáldsaga um nútímafólk í Reykjavík. Gerð hefur verið kvikmynd eftir þeirri sögu í leikstjórn Baltasars Kormáks undir sama heiti.
 • Auður Ava Ólafsdóttir (f.1958) er rithöfundur og lektor í listfræði við Háskóla Íslands.  Meðal verka Auðar eru Rigning í nóvember (2004) og Ör (2016).
 • Arnaldur Indriðason (f.1961) er líklegast einn mest lesni rithöfundur þjóðarinnar.  Arnaldur hefur í tvígang hlotið Glerlykilinn, norrænu glæpasagnaverðlaunin og árið  2005  fékk bók hans Grafarþögn Gullrýtinginn. Auk þessa hafa bækur hans hlotið ýmsar aðrar viðurkenningar og þekkt verðlaun erlendis og hefur útgáfuréttur á bókum hans verið seldur til fjölmargra landa í fimm heimsálfum.
 • Sigurjón Birgir Sigurðsson, Sjón (f. 1962) er rithöfundur og ljóðskáld. Árið 2005 hlaut Sjón bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna Skugga-Baldur. 


    Þá eru sífellt fleiri höfundar að stíga fram á sjónarsviðið eins og Andri Snær Magnason, Gerður Kristný GuðjónsdóttirGuðrún Eva Mínervudóttir, Stefán Máni og Auður Jónsdóttir.Ljóðlist
Tímabil þjóðskáldanna
19. öldin var blómaskeið rómantísku stefnunnar í íslenskum bókmenntum. Sérkennandi fyrir bókmenntir tímabilsins, ekki hvað síst ljóðlistina, var sjálfstæðisbarátta Íslendinga. Ljóðskáldin tóku virkan þátt í þeirri baráttu með því að yrkja ljóð þrungin ættjarðarást. Þekktasta og ástsælasta skáld þjóðarinnar Jónas Hallgrímsson ( 1807-1845) var uppi á þessum tíma. Ljóð hans lifa með þjóðinni enn þann dag í dag og falleg sönglög hafa verið samin við mörg þeirra. Úrval verka hans er að finna á sérstökum vef sem Dick Ringler við Háskólann í Wisconsin-Madison í Bandaríkjunum hefur gert.
    Nokkur vöxtur hljóp í ættjarðarljóð við lýðveldisstofnunina 1944 og á árunum þar á undan. Þess sér vel stað hjá Snorra Hjartarsyni (1906 - 1986) sem orti eitt þekktasta ættjarðarljóð tímabilsins en það hefst með þessu erindi:

Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein,
þér var ég gefinn barn á móðurkné;
ég lék hjá þér við læk og blóm og stein,
þú leiddir mig í orðs þíns háu vé.

Módernismi í íslenskri ljóðagerð
Íslensk ljóðlist hafði einkennst af stuðlum og höfuðstöfum ásamt rími allt frá upphafi og fram undir miðja 20. öldina. Á árunum 1945-1965 bar það helst til tíðinda í íslenskri ljóðlist að skáld köstuðu fyrir róða hinu hefðbundna ljóðformi og fóru að yrkja óhefðbundin ljóð. Meðal helstu ljóðskálda þessa tíma eru Steinn Steinarr, Jón úr Vör, Hannes Sigfússon og Snorri Hjartarson. Steinn Steinarr gerðist einn helsti frumkvöðull módernisma í íslenskri ljóðagerð með ljóðabókinni Tímanum og vatninu sem birtist fyrst 1948. Þar er fyrsta ljóðið svona:

Tíminn er eins og vatnið,
og vatnið er kalt og djúpt
eins og vitund míns sjálfs.

Og tíminn er eins og mynd,
sem er máluð af vatninu
og mér til hálfs.

Og tíminn og vatnið
renna veglaust til þurrðar
inn í vitund mín sjálfs.

Bragarhátturinn er óvenjulegur en þó er ort með hefðbundinni hrynjandi, jafnvel rími. En mynd ljóðsins er óræð og fyrir þá sem voru vanir því að ljóð „væru um eitthvað" reyndist erfitt að ráða í merkinguna. Smám saman ávann módernisminn sér sess í íslenskri ljóðagerð og má segja að undir lok sjöunda áratugarins hafi hann verið kominn til fullrar virðingar í íslenskum bókmenntum.Upphaf leikritunar
Herranótt
Það hefur verið venja að líta svo á að saga íslenskrar leikritunar hefjist í Skálholti um miðja 18. öld með svokallaðri Herranótt. Herranótt var eins konar sjónleikur sem skólapiltar sýndu einu sinni á vetri. Efni sýningarinnar er krýningarathöfn þar sem efsti nemandinn árlega er krýndur til konungs. Aðrir leika biskup, presta, lögmenn og aðra embættismenn. Um leið og kórónan er sett á höfuð kóngi er flutt ræða á latínu, svokölluð Skraparotsræða. Því næst ganga tignustu menn fyrir kóng og flytja honum heillaóskakvæði á latínu. Þessi siður fluttist með skólanum frá Skálholti til Reykjavíkur 1785 en í nokkuð breyttri mynd. Hátíðin var bönnuð 1798 eftir að kóngurinn í sýningunni tók upp á því að leggja niður völd því hann vildi ekki vera öðrum fremri heldur stuðla að heillum ríkisins í samfélagi við aðra. Þetta þótti yfirvöldum varhugavert og óttuðust að í uppsiglingu væri bylting líkt og átt hafði sér stað í Frakklandi.

Fyrstu leikritin
Elsta leikrit skrifað á íslensku er jafnan talið Sperðill eftir sr. Snorra Björnsson á Húsafelli, samið um 1760. Menn eru þó ekki á eitt sáttir um hvort það leikrit hafi nokkurn tíma verið ætlað til flutnings. Fyrsta íslenska leikritið sem talið er samið fyrir áhorfendur er Bjarglaunin eða Brandur (1790) eftir Geir Vídalín (1761 - 1823) síðar biskup yfir Íslandi.

Faðir íslenskrar leikritunar
Sigurður Pétursson (1759 - 1827) hefur verið nefndur faðir íslenskrar leikritunar en hann varð fyrstur til að setja saman leikrit á íslensku sem talist getur þroskað listrænt verk. Hann var því brautryðjandi í íslenskri leikritun þótt hann hafi aðeins skrifað tvö leikrit. Það voru skopádeilur í anda Holbergs. Þau voru sýnd af skólapiltum í Reykjavíkurskóla 28. janúar 1799, árið eftir að Herranótt var bönnuð. Fyrra leikritið nefnist Hrólfur eða Slaður og trúgirni og hið síðara Narfi eða Sá narragtugi biðill. Það var gleðispil í þremur flokkum. Það segir frá Narfa sem skýtur upp kollinum á heimili Guttorms lögréttumanns. Narfi segist vera „assistent“ hjá dönskum kaupmanni. Hann gerir hosur sínar grænar fyrir dóttur lögmannsins og telur vænlegast til árangurs að halda sig sem mest upp á dönsku. Útkoman er hlægilegt hrognamál og hann lýtur í lægra haldi fyrir keppinauti sínum, Nikulási vinnumanni. Í leikritinu er höfundur að deila á uppskafningshátt Íslendinga sem telja allt betra sem útlenskt er og gera um leið lítið úr þeim verðmætum sem löngum hafa verið þjóðinni kærust; tungu og menningu. Með þessu verki er litið svo á að Íslendingi hafi í fyrsta sinn tekist að skapa listrænt leikverk.Fyrstu skrefin á leiklistarbrautinni
Í bændasamfélagi fyrri alda var byggðin dreifð og samgöngur oft erfiðar. Leiklistin var bundin skólastarfi enda þarf hún áhorfendur til að þrífast. Í lok 18. aldar hafði þéttbýli tekið að myndast á Íslandi og Reykjavík og nokkrir bæir aðrir fengið kaupstaðarréttindi. Fyrstu áratugi 19. aldar bjuggu aðeins um 300 - 400 manns í Reykjavík en smám saman var farið að líta á Reykjavík sem höfuðstað. Þangað voru flutt helstu embætti, m.a. í stjórnsýslu landsins. Með þéttbýlismyndun og tilkomu borgarastéttar myndaðist grundvöllur fyrir leikhúslíf.

Fyrsta opinbera leiksýningin
Veturinn 1853 - 4 var haldin fyrsta opinbera leiksýning á Íslandi sem miðar voru seldir að. Fyrir valinu varð danskt leikrit, Pak, eftir Thomas Overskous. Leikritið var þýtt á íslensku og konur tóku í fyrsta sinn þátt í leiknum.

Útilegumennirnir
Árið 1862 urðu tímamót í íslensku leikhúslífi. Sett var upp leikritið Útilegumennirnir eða Skugga-Sveinn eftir þjóðskáldið Matthías Jochumsson (1835 - 1920). Sigurður Guðmundsson (1833 - 1874) málari, sem var mikill áhrifavaldur í íslensku menningarlífi á sinni stuttu ævi (er m.a. þekktur fyrir að hafa teiknað íslenska þjóðbúninginn), setti upp verkið. Efni Útilegumannanna er sótt í íslenskt þjóðlíf á 17. öld. Leikritið naut gríðarlegra vinsælda og hefur verið tekið til sýningar oftar en nokkurt annað leikrit á Íslandi bæði í leikhúsum og af áhugaleikhópum í íþróttahúsum, pakkhúsum eða skemmum vítt og breitt um landið.

Nýársnótt
Nýársnótt Indriða Einarssonar (1851-1939) boðaði blómaskeið í íslenskri leikritun er það var sýnt 1907 í endurgerðri útgáfu, en það hafði verið frumsýnt 1872, tíu árum á eftir Útilegumönnum Matthíasar. Nýársnótt gekk næst Útilegumönnunum að vinsældum. Þar eru í fyrsta sinn skapaðar leikpersónur úr álfum (á Íslandi hefur verið og er enn mikil trú á álfa). Leikritið þótti bera vott um yfirburðahæfileika hins unga höfundar í meðferð leikformsins.

Galdra-Loftur og Fjalla-Eyvindur
Í kjölfar Nýársnætur 1907 komu m.a. leikrit Jóhanns Sigurjónssonar (1880 - 1919): Galdra-Loftur (1914) og Fjalla-Eyvindur (1911), sem bæði eru byggð á íslenskum þjóðsögum. Þessi leikrit eru einhver glæsilegustu listaverk meðal íslenskra leikverka.

Guðmundur Kamban (1888 - 1945) skrifaði Vi mordere 1920: Guðmundur skrifaði skáldverk sín á dönsku en þetta leikrit kom út í íslenskri þýðingu Vér morðingjar 1969.

Þjóðleikhús 1950
Íslendingar eignuðust atvinnuleikhús árið 1950 er Þjóðleikhúsið var stofnað. Leikfélag Reykjavíkur hafði starfað frá 1897 í Iðnó og með stofnun Þjóðleikhússins var álitið að starfsemi Leikfélags Reykjavíkur legðist af en sú varð ekki raunin og tvö atvinnuleikhús urðu staðreynd. Þar með var hafið mikið blómaskeið í íslensku leiklistarlífi og mikið líf fór að færast í íslenska leikritun. Þegar á sjötta áratugnum voru frumsýnd 13 ný íslensk leikrit.

Afkastamiklir leikritahöfundar
Meðal afkastamestu leikritahöfunda er Jónas Árnason (1923 - 1998). Meðal leikrita hans eru söngleikir við tónlist bróður hans, Jóns Múla, sem notið hafa mikilla vinsælda.
    Jökull Jakobsson (1933 - 1978) var afkastamesti leikritahöfundur á fyrstu árum atvinnuleikhússins. Hann skrifaði jafnframt mörg athygliverð útvarpsleikrit. Meðal leikrita hans er Hart í bak (1962) sem sýnt var meira en 200 sinnum.
    Ólafur Haukur Símonarson (f. 1947) er afkastamesta leikskáld hin síðari ár. Hann skrifar raunsæisleg leikrit þar sem hann reynir að varpa ljósi á líf venjulegs fólk.Upplýsingar um þýðingar
Upplýsingar um verk íslenskra höfunda sem til eru í erlendum þýðingum er að finna hér og  í eftirtöldum ritum:

Knüppel, Christine. Isländische Literatur 1850-1990 in deutscher Übersetzung. Bibliographie anlässlich der Ausstellung Isländische Literatur und Kunst aus Island in der Württembergischen Landesbibliothek Stuttgart 10.-31.10. 1990. Stuttgart: Deutsch-Isländisches Kulturforum, 1990.

Mitchell, P. M. and Ober, Kenneth H. Bibliography of Modern Literature in Translation. Islandica XL. Cornell University Press. 1975.

Ober, Kenneth H. Bibliography of Modern Literature in Translation.: Supplement 1971 - 1980. Islandica XLVII. Ithaca: Cornell University Press. 1990

Ober, Kenneth H.  Bibliography of Modern Icelandic Literature in Translation 1981-1992. Scandinavica. 1997.