Bósa saga í kvennahöndum — AM 510 4to

Út er komin bókin Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar. Bókmenning íslenskra kvenna frá miðöldum fram á 18. öld eftir dr. Guðrúnu Ingólfsdóttur bókmenntafræðing. Bókin er hin 20. í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar. Af þessu tilefni var Guðrún fengin til að skrifa um handrit í eigu konu.

Smellið á mynd til að stækka. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir. Ingibjörg, eiginkona Jóns Magnússonar bónda á Eyri við Seyðisfjörð, átti merkilegt skinnhandrit sem skrifað var um miðja 16. öld (AM 510 4to). Ingibjörg var dóttir séra Páls Björnssonar í Selárdal, þess merka fræðimanns. Handritið geymir sögur sem allar voru vinsælar hér á landi enda fjalla margar þeirra um ástir og örlög. Hér eru t.d. Víglundar saga, Jarlmanns saga og Hermanns, Friðþjófs saga, Drauma-Jóns saga, Þorsteins þáttur bæjarmagns og Finnboga saga ramma. Í handritinu eru einnig sögur sem einkennast af gamansemi og erótík eins og Jómsvíkinga saga og eldri gerð Bósa sögu, sem er mun berorðari en yngri gerðin sem skrifuð var á 17. öld.[1] Höfundur Jómsvíkinga sögu lítur „á mannlíf það sem hann segir frá með prakkaralegu glotti“ og segir gleggra „frá sérkennilegum mönnum en hinum, sem kallast mega venjulegir menn“.[2] Ingibjörg og ættmenn hennar gátu sannarlega ekki talist venjulegt fólk. Handritið gefur vísbendingu um hvað eigendunum þótti skemmtilegt og merkileg er sú staðreynd að prófastsdóttirin gat verið þekkt fyrir að eiga Bósa sögu.

Á bókaeign Ingibjargar má þó finna annan flöt. Sigríður Jónsdóttir, Prjóna-Sigga, sem flæktist um Vesturland á síðari helmingi 19. aldar, bar ætíð með sér tvær bækur, Bósa sögu og Nýja testamentið. Sigga missti manninn eftir aðeins tveggja ára hjónaband og setti það ævarandi mark á hana. Hún virðist hafa verið af stöndugu fólki og á móðir hennar að hafa gefið henni Nýja testamentið fyrir brúðkaupið en faðir hennar Bósa sögu. Ef Sigga komst á snoðir um væntanlegt brúðkaup gerði hún sér ferð til brúðarinnar og færði henni rósaleppa eða fingravettlinga. Með í för var ætíð Bósa saga, því Sigga vildi uppfræða verðandi brúði hvers vænta mætti í hjónasænginni.[3] Bósa saga í kvennahöndum var kannski ekki svo fráleit eftir allt saman.

Á spássíu á blaði 23v stendur: „löt að læra Steinunn“. Með sömu hendi er skrifað á 33v: „þessa bók ljæ ég þér litla stund frændi því hún er komin af h“. Talið er að þetta sé skrifað af eiganda bókarinnar á 17. öld.[4] Jón eldri Magnússon prúða Jónssonar, langafi Jóns bónda á Eyri, átti dóttur sem hét Steinunn (f. 1620). Hún var gift Jóni yngra Marteinssyni bónda á Vogalæk í Álftaneshreppi en dó barnlaus. Þegar athugasemdin um Steinunni er skrifuð hefur mæðufull lestrarstund með henni verið nýafstaðin. Sól hefur skinið í heiði og hún fremur haft hugann við leik en lestur. Hafi Steinunn lært að lesa af AM 510 4to hefur Bósa saga trauðla verið brúkuð. Af framansögðu má draga þá ályktun að handritið hafi fyrst verið í eigu Jóns bónda áður en það barst til Ingibjargar. Hún var því fjarri augum hins hálærða föður síns þegar hún eignaðist Bósa sögu.

Guðrún Ingólfsdóttir
Desember 2016

 

[1] Sverrir Tómasson, „Bósa saga og Herrauðs: skemmtun allra tíma. Eftirmáli við nýja útgáfu“, í Bósa saga og Herrauðs, útg. Sverrir Tómasson (Reykjavík, 1996), s. 47–67, s. 65.

[2] Ólafur Halldórsson, „Inngangur“, í Jómsvíkinga saga, útg. Ólafur Halldórsson (Reykjavík, 1969), s. 5–55, s. 51, 54.

[3] Halldóra Kristinsdóttir og Sigríður Hjördís Jörundsdóttir, Utangarðs? Ferðalag til fortíðar (Reykjavík, 2015), s. 76–77.

[4] Jón Helgason, „Nokkur íslenzk handrit frá 16. öld“, Skírnir (1932), s. 143–168, s. 164.