Carry on Icelandic

Margmiðlunarefni í íslensku fyrir útlendinga

Stofnunin hefur gefið út margmiðlunarefnið Carry on Icelandic: Learn Icelandic and enjoy it! Þetta er byrjendaefni í íslensku og einkum ætlað skiptinemum á háskólastigi.

Nýstárleg kennslufræði

Mikil vinna var lögð í kennslufræði námsefnisins. Þetta margmiðlunarefni býður þann möguleika að tileinka sér tungumálið með því að hlusta, horfa, lesa og endurtaka, allt eftir því sem hverjum hentar. Það má fylgjast með myndbandinu og skoða annað myndefni og fylgja þannig aðalpersónunum að leik og störfum en líka er hægt að kafa dýpra í efnið og athuga merkingu einstakra orða og fá útskýringar á málfræðiatriðum með því að sækja sér upplýsingar í upplýsingabankann á margmiðlunardisknum. Þar er einnig að finna upplýsingar um hljóðfræði málsins og framburð, málaðgerðir og land, þjóð og menningu.

Þetta er í fyrsta skipti sem útbúið er margmiðlunarefni í íslensku fyrir erlenda stúdenta. Það er sérstaklega sniðið að þörfum þeirra sem koma hingað til náms um lengri eða skemmri tíma svo að þeir geti undirbúið sig áður með því að læra undirstöður daglegs máls og fræðast um land og þjóð.

Úlfar Bragason, forstöðumaður Stofnunar Sigurðar Nordals, og Guðrún Theodórsdóttir, adjúnkt í íslensku, höfðu yfirumsjón með verkinu í samvinnu við verkefnisstjórnina í Hull. Baldur A. Sigurvinsson mannfræðingur var starfsmaður verkefnisins og vann tölvuvinnuna að mestu leyti. Ýmsir aðrir komu að verkinu. M.a. skrifaði Nína Leósdóttir íslenskukennari menningarefnið. Menningarefnið er birt á heimasíðu stofnunarinnar.

Stúdentaskipti milli Íslands og annarra Evrópulanda hafa stóraukist á undanförnum árum, ekki síst vegna aðildar íslenskra skóla á háskólastigi að Nordplus- og Sókratesáætlununum. Margir erlendu stúdentanna koma ekki hingað til lands til að leggja stund á íslensku heldur aðrar greinar. En því miður hafa ekki allir átt þess kost að þjálfa sig í íslensku til undirbúnings dvölinni hér, enda koma þeir oft frá skólum sem bjóða ekki upp á íslenskukennslu

Sjálfsnámsefni á geisladiski

Stofnuninni bauðst árið 1997 að taka þátt í þriggja ára verkefni fimmtán háskólastofnana á Norðurlöndum, í Bretlandi, Hollandi, Belgíu, Grikklandi, Ítalíu og Portúgal, sem hafði það að markmiði að búa til margmiðlunarefni fyrir byrjendur í Norðurlandamálum, hollensku, grísku, ítölsku og portúgölsku. Um var að ræða sjálfsnámsefni og því yrði, a.m.k. fyrst um sinn, dreift á geisladiski til að mynd- og hljóðgæði yrðu sem best. Verkefnið, kallaðist á ensku „Small is Beautiful - Language Mobility: A Pilot for Multimedia Package for Academic Purpose” og var stjórnað frá háskólanum í Hull. Það naut velvildar Linguaáætlunar Evrópusambandsins og hlaut styrki frá áætluninni í þrígang. Margmiðlunardiskurinn í íslensku er sá þriðji sem er árangur verkefnisins. Áður hafa komið út diskar í hollensku og finnsku.

Styrktaraðilar

Auk Evrópusambandsins hafa menntamálaráðuneytið, Kennslumálasjóður Háskóla Íslands, Aðstoðarmannasjóður, Menningarsjóður Íslandsbanka, Þjóðhátíðarsjóður og Málræktarsjóður styrkt gerð margmiðlunarefnisins í íslensku fyrir byrjendur.

Búnaður sem þörf er á:

Multimedia PC Pentium 500
64MB RAM
Windows 98/ME/NT/2000/XP
24-speed CD-ROM drive
16MB free memory

Háskólaútgáfan sér um dreifingu á margmiðlunarefninu Carry on Icelandic. Leiðbeinandi verð er 4.900 kr.