Efnahagsmál

kafli6_peningar

 

Efnahagur Íslands byggist einkum á auðugum náttúruauðlindum eins og fiskimiðunum umhverfis landið, vatnsafli og jarðvarma. Landið er velferðarríki með blandað hagkerfi þar sem einkaframtakið blómstrar.
    Hagvöxtur á Íslandi var um 4,3% að meðaltali á árunum 1997 til og með 2005. Þetta er nær tvöfalt örari hagvöxtur en sá sem að jafnaði hefur verið í iðnríkjum heims á sama tíma. Kaupmáttur jókst um rúm 27% frá árinu 1995 til 2003 sem er mun meira en sú aukning sem orðið hefur í viðmiðunarlöndum Íslendinga. Hagvöxtur jókst hratt fram til ársins 2008 og fór  yfir 7% á árunum 2004 og 2005.
    Mikill viðsnúningur varð haustið 2008 þegar bankakerfið riðaði til falls og árið 2009 var hagvöxtur neikvæður um 6,8% en hefur legið upp á við síðan. Kaupmáttur launa náði hámarki í janúar 2008 en frá þeim tíma og til ársloka 2009 rýrnaði kaupmáttur um rúm 12%.
    Íslenska hagkerfið er mjög háð sjávarútvegi, enda eru sjávarafurðir mikilvægasta útflutningsvara þjóðarinnar og skapa um 40% allra útflutningstekna hennar.
    Einungis tæp 3% þjóðarinnar lifa á landbúnaði. Helsta grein hans er kvikfjárrækt. Nýjar búgreinar hafa komið fram á undanförnum árum, eins og loðdýrarækt, fiskeldi og ræktun nytjaskóga. Atvinnuþátttaka í iðnaði jókst jafnt og þétt alla 20. öldina einkum í matvælaiðnaði, byggingariðnaði og stóriðju. Þá hefur, ferðaþjónustu og lyfja- og hugbúnaðarfyrirtækjum vaxið mjög fiskur um hrygg. Reynt hefur verið að stuðla að fjölbreyttari atvinnuháttum, meðal annars með aukinni stóriðju sem hart er deilt um en afurðir orkufreks iðnaðar skila um 40% af útflutningstekjum þjóðarinnar.
    Verðbólga hefur lengi verið vandamál á Íslandi. Um 1990 var sérstök áhersla lögð á að stuðla að stöðugleika í efnahagsmálum. Árangur þeirra aðgerða var góður um tíma og verðbólga hélst á bilinu 1,0 til 2,5% í nokkur ár en fór svo vaxandi í 4,6% árið 2006 og náði hámarki eftir bankahrunið í tæpum 19% í janúar 2009. Síðan þá hefur verðbólgan hjaðnað og var aðeins 1,0% að meðaltali árið 2014 og 1,6% árið 2015. Fólk finnur sérstaklega fyrir aukinni verðbólgu í hækkandi húsnæðislánum og afborgun þeirra þar sem nær öll íslensk húsnæðislán eru verðtryggð og hækka því í takt við hækkandi verðbólgu.
    Atvinnutækifæri eru fjölbreytt. Atvinnuástand var lengi vel gott og atvinnuleysi  um 3-3,5%, árið 2007 fór það niður í 1% á meðan  meðaltalsatvinnuleysi í Evrópu var um 7%. Í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 jókst atvinnuleysi hratt og náði hámarki í febrúar 2010 þegar það fór yfir 9% en hefur síðan farið stöðugt niður á við og var um 4% árið 2015. 
    Þó Ísland sé velferðarríki eru margir þeirrar skoðunar að ekki njóti allir jafngóðs af. Þjóðarkökunni sé misskipt og fái þeir sem minna mega sín á einhvern hátt, eins og margir aldraðir og öryrkjar, lítið í sinn hlut. Það sé margt í þjóðfélaginu sem bendi til að bilið milli ríkra og fátækra sé að aukast.

Gjaldmiðill: Íslensk króna, ISK

 

Bankahrunið haustið 2008

Eftir að bankarnir voru einkavæddir árið 2002 varð vöxtur þeirra hraður og gátu bankarnir auðveldlega fjármagnað sig með erlendu lánsfé. Lítið opinbert eftirlit virðist hafa verið með bönkunum sem þöndust út bæði innanlands og utan og var bankakerfið orðið nær nífalt stærra en íslenska þjóðarbúið þegar mest var. Á hagvaxtartímabilinu fram til 2007 var aðgengi almennings að lánsfé mjög gott. Íslenska krónan var sterk og mikið af erlendum gjaldeyri flæddi inn í landið. Fyrirtæki og heimili skuldsettu sig verulega, meðal annars í erlendri mynt á lágum vöxtum, og dróst þjóðarsparnaður saman á þessu tíma.

Haustið 2008 fór svo að þrír stærstu bankar landsins fóru í þrot hver af öðrum. Þann 29. september tók ríkið yfir Glitni og lokuðust þá lánalínur til hinna bankanna. Þann 6. október voru sett neyðarlög og klukkan fjögur ávarpaði forsætisráðherrann þjóðina og gerði henni grein fyrir stöðu mála, ávarpinu lauk með orðunum Guð blessi Ísland. Daginn eftir, þann 7. október, yfirtók íslenska ríkið rekstur Landsbankans. Lausafé var skammtað og erlendur gjaldeyrir nær ófáanlegur auk þess sem allar kreditkortaheimildir voru lækkaðar. Þann 9. október féll svo síðasti bankinn þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir Kaupþing.

Upphaf þessarar atburðarrásar má rekja til alþjóðlegrar fjármálakreppu. Hins vegar höfðu mörg viðvörunarljós kviknað og þau fyrstu strax snemma árs 2006, fræðimenn og stofnanir jafnt innanlands sem utan höfðu jafnframt bent á ýmsa vankanta í bankakerfinu. Gríðarstórt bankakerfi í litlu hagkerfi, reynsluleysi og vanþekking stjórnenda,krosseignarhald, náin pólitísk tengsl og lítið sem ekkert eftirlit gerðu það að verkum að bankakerfið stóð á afar ótraustum grunni.

Sitjandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar féll í lok janúar 2009 eftir mikil mótmæli frá almenningi og ný stjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna tók við. Um vorið var síðan efnt til kosninga þar sem stjórnin hélt velli.

Rannsóknarnefnd var skipuð í desember 2008 til að rannsaka ástæður hrunsins og voru niðurstöður hennar gefnar út í viðamikilli skýrslu í apríl 2010.

Afleiðingar bankahrunsins voru gjaldþrot fjölda fyrirtækja meðal annars í byggingageiranum, fjöldauppsagnir og greiðsluerfiðleikar skuldsettra heimila, sérstaklega þeirra sem höfðu lán í erlendri mynt. Skuldabyrði ríkisins jókst hratt á sama tíma og tekjurnar drógust saman. Veikburða gjaldmiðill hefur einnig gert Íslendingum erfitt fyrir og kaupmáttur launa og hagvöxtur tóku snarpa dýfu niður á við. Leitað var aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hafa áætlanir hans um uppbyggingu landsins gengið eftir en enn er mikið verk fyrir höndum.

Icesave

Þegar Landsbankinn og síðar Kaupþing stóðu frammi fyrir vaxandi lausafjárskorti opnuðu þeir í Bretlandi og svo víðar um Evrópu innlánsreikninga á netinu sem buðu háa vexti. Icesave reikningar Landsbankans urðu afar vinsælir og lögðu Bretar inn rúmlega 4 milljarða punda. Bresk stjórnvöld höfðu vaxandi áhyggjur af stöðu Landsbankans vegna reikninganna en innistæðurnar voru tryggðar af íslenska ríkinu þar sem reikningarnir voru ekki undir erlendu dótturfyrirtæki eins og Kaupþingsreikningarnir.
    Afleiðingarnar urðu milliríkjadeilur á milli Íslands annars vegar og bresk og hollensk stjórnvöld hins vegar. Bresk yfirvöld beittu hryðjuverkalögum, frystu eignir Landsbankans og tóku svo yfir útibú Kaupþings.
    Í byrjun árs 2010 og aftur í febrúar 2011 synjaði forseti Íslands lögum um skuldbindingu Íslendinga vegna Icesave innistæðureikninganna og var samningunum einnig hafnað í fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum. Í desember 2011 ákvað Eftirlitsstofnun EFTA að stefna íslenskum stjórnvöldum og vísa Icesave deilunni til EFTA dómstólsins. Rúmu ári síðar, í janúar 2013, unnu Íslendingar sigur í málinu þegar dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að Íslandi bæri ekki skylda til að tryggja greiðslur vegna lágmarkstryggingar til innistæðueigenda Icesavereikninga.

Heimild og ítarlegri lesning:
Hagkerfið bíður skipbrot skýrsla Gylfa Zoëga og Jóns Daníelssonar.