Einu sinni átti ég gott

Mynd af forsíðu: Einu sinni átti ég gott.

Ný vísnabók og tveir geisladiskar með gömlum vísum fyrir börn

2. útg. 2009.

Umsjón með útgáfu: Rósa Þorsteinsdóttir. Teikningar: Halldór Baldursson. Hönnun og umbrot: Hunang –Sigrún Sigvaldadóttir. Hljóðvinnsla: Stemma – Sigurður Rúnar Jónsson. Útgefendur: Smekkleysa SM ehf og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Endurskoðuð útgáfa af Einu sinni átti ég gott. Efnið er það sama en upplýsingum um höfunda hefur verið bætt við eða þær leiðréttar. Hér er að finna allt frá bænum og fallegum vögguvísum til kveðskapar um Grýlu og hennar hyski ásamt öðrum barnafælum. Ekki er víst að sá kveðskapur hafi alltaf átt að hræða börnin til þess að vera góð, hann getur einnig vakið spennandi hrylling, sem krökkum þykir enn skemmtilegur. Og strákum og stelpum fyrri alda var, ekkert síður en nútímabörnum, dillað yfir ýmsum kveðlingum sem víkja að líkamlegum þörfum. Þannig vísur er hér einnig að finna en inn á milli eru síðan sungnar eða mæltar fram sérkennilegar þulur, skemmtilegir kveðlingar og stuttar sögur sem hægt er að hafa gaman af, auk vísna sem notaðar hafa verið til að kenna börnum og leika við þau.

Efnið er varðveitt á segulböndum í þjóðfræðisafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og er flutt af fólki alls staðar að af landinu. Upptökurnar eru flestar gerðar á 7. áratug síðustu aldar með konum og körlum, sem fædd eru á fyrstu áratugum 20. aldar eða seint á 19. öld. Öll hafa þau lært það sem þau fara með af foreldrum sínum eða öðrum af þeirra kynslóð eða jafnvel af næstu kynslóð þar á undan.

Allt er þetta efni sem hefur varðveist um langan aldur meðal íslenskrar alþýðu en er nú annaðhvort gleymt eða við það að gleymast. Allt er það þó vel þess virði að því sé haldið til haga, hvort tveggja til fróðleiks og skemmtunar.

Smekkleysa sér um dreifinguna. Smekkleysa SM ehf, Laugavegi 35, 101 Reykjavík, sími: 551 3730, tölvupóstur: kiddi@smekkleysa.net. Bókin kostar 5.690 krónur.