kafli5

Erlend áhrif

Með kristnitökunni árið 1000 kom inn í málið mikill fjöldi erlendra orða úr hinu alþjóðlega kirkjumáli og orðaforði íslenskunnar jókst verulega. Dæmi um orð frá þessum tíma eru prestur, kirkja, biskup. Verulegur fjöldi mannanafna bættist einnig við orðaforðann. Fyrir áhrif erlendra bókmennta á miðöldum komu inn orð eins og kurteis, kurteisi og riddari.
    Frá því um siðbreytingu 1550 og fram eftir 19. öldinni voru samskipti Íslendinga við erlendar þjóðir að verulegu leyti einskorðuð við Dani. Vegna þessa fór danskra áhrifa á íslenskt orðfæri að gæta allnokkuð. Mikið var þýtt af kirkjulegu efni úr dönsku og þýsku, æðsta stjórn landsins var í höndum Dana og verslun sömuleiðis. Allt þetta átti sinn þátt í að auka dönsk áhrif á íslenska tungu. Danski málfræðingurinn Rasmus Christian Rask, sem kom til Íslands árið 1813, taldi kveða svo rammt að dönskum áhrifum að hann áleit að varla myndi nokkur maður skilja íslensku að liðnum 100 - 200 árum ef ekkert yrði að gert.
    En þótt málið yrði dönskuskotið á þessum tíma hélst samt mestur hluti orðaforðans óbreyttur vegna lítilla breytinga á atvinnuháttum og þeirrar staðreyndar að fornar íslenskar bókmenntir og kveðskapur var alla tíð lifandi meðal fólksins í landinu.