Óblíð orð á Stóru Papey árið 1299

Á sumarþingi á Tingwall árið 1299 rituðu lögþingsmenn á Hjaltlandi bréf (nú AM dipl. norv. fasc. C3 a) sem fjallar um deilur varðandi jarðamat á eynni Stóru Papey, nú Papa Stour. Þetta er elsta varðveitta bréf frá Hjaltlandi, svo kunnugt sé. Það fjallar um ásakanir sem bornar voru á Þorvald Þórisson, sýslumann, um að hann hafi ranglega tekið sér hluta af skattgjaldi af eyjunni, sem hann átti að gjalda Hákoni Magnússyni jarli, bróður Eiríks Noregskonungs. Þessar ásakanir voru bornar fram „í dymbildaga viku“ árið 1299 af konu að nafni Ragnhildur Símunardóttir, og eru ummæli hennar tilfærð orðrétt. Um var að ræða tvö aðskilin atvik. Hið fyrra átti sér stað mánudaginn fyrir páska í stofu jarls, þar sem Ragnhildur hélt því fram að hjáleigan Brekasetur (nú Bragaster) – þar sem hún hefur sennilega búið – ætti ekki að gjalda landskuld óháð höfuðbólinu, en auk þess að jarl hefði átt að fá alla landskuldina, og gaf þar með í skyn að svo hafi ekki verið því Þorvaldur hafi haldið hluta hennar fyrir sig. Þorvaldur neitaði sök og sagði að „margir góðir menn“  — og hann nafngreinir nokkra þeirra — hafi þegar fjallað um þetta mál að undirlagi jarls, en það gefur til kynna að þessir menn hafi ef til vill verið tilnefndir sem opinberir nefndarmenn til þess að endurmeta landskuldina á Stóru Papey. Um einn þeirra, „herra Eindriða“ hreytti Ragnhildur út úr sér að hún hefði aldrei tekið neitt mark á „Eindriða ærum, er hann ljóp ustan [þ.e. austan] úr Noregi  og vissi aldrei fagnað“, en hina sem Þorvaldur nefnir sakar hún um að hafa svikið jarlinn. Tveir þeirra sem viðstaddir voru vottuðu þetta. Næsta dag mætti Ragnhildur Þorvaldi í túni jarls og hóf aftur máls að þessu og sagði:  „Þú skalt ekki vera minn Júdas, þótt þú sér [þ.e. sért] hertogans“, sem verða að teljast gífuryrði í dymbilviku, enda kvaddi Þorvaldur sér votta að þessum ummælum.

Fornbréf frá Stóru Papey. Upprunalega hafa verið sjö innsigli á skjalinu, eitt fyrir hvern vott, en aðeins þrjú hafa varðveist, innsigli Eiríks unga, Gunna á Gnípum og Erlends alfeita.

Þetta fornbréf verður meðal handrita sem fjallað verður um á ráðstefnunni Heimur handritanna sem stofnunin gengst fyrir dagana 10.-12. október.

Matthew Driscoll