Forvörsluvinnustofa

Forvörslufræðingur á forvörslustofu annast smærri og stærri viðgerðir á handritum eða finnur önnur forvörsluúrræði og gerir viðeigandi skýrslur um ástand þeirra og viðgerðaframvindu. Hann hefur eftirlit með umhverfisþáttum (handritageymslu) handritanna og er leiðbeinandi og ráðgefandi um meðhöndlun þeirra. Hann hefur tekið að sér fræðslu (kennslu) í gerð handrita á námskeiðum í Handritafræðum á vegum HÍ. Einnig hefur hann eftirlit með handritum stofnunarinnar í Þjóðmenningarhúsinu og heldur árlega björgunar- og viðbragðsæfingar með starfsliði og öryggisvörðum hússins.

Á forvörslustofu eru handrit vandlega yfirfarin og ástands- og lánsskýrsla gerð með öllum handritum sem lánuð eru á sýningar erlendis sem hérlendis. Einnig sér forvörslufræðingur um að búa um þau handrit sem lána á til erlendra aðila í viðeigandi hlífðar- og öryggisumbúðum og vera ráðgefandi og leiðbeinandi um flutninga og uppsetningu þeirra ef þörf krefur. Reynt er að fylgjast með framvindu safna- og forvörslumála erlendis og viða að sér fræðigreinum þeim viðkomandi.