Gripla er alþjóðlegt fræðitímarit Árnastofnunar á sviði íslenskra og norrænna fræða. Hún hefur komið út frá því skömmu eftir að fyrstu handritin komu heim frá Danmörku árið 1971; í fyrstu óreglulega en síðar á hverju ári. Greinar eru ýmist á íslensku, öðrum Norðurlandamálum, þýsku, ensku eða frönsku. Útdrættir á ensku fylgja öllum greinum. Með greinum á öðrum málum en íslensku fylgir einnig íslensk samantekt. Núverandi ritstjóri Griplu er Gísli Sigurðsson.
Erindi sem flutt voru á ráðstefnunni Fra kalveskinn til "tölva" hafa verið gefin út á pdf formi. Ráðstefnuritið má nálgast á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytis. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum var aðili að ráðstefnunni.
ISLEX veforðabókin hlaut 16.000 evru styrk úr Nordplus-áætluninni til að kynna verkefnið á árinu 2011, með því að gert verði kynningarefni og haldnar opnunarathafnir í Reykjavík og Kaupmannahöfn. ISLEX veforðabókin er unnin á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í samstarfi við háskóla- og rannsóknarstofnanir á Norðurlöndum. Orðabókin er fyrst og fremst ætluð til birtingar á vefnum. Það form býður upp á nýjar aðferðir við framsetningu efnisins, má þar nefna hljóðdæmi, myndskýringar og hreyfimyndir.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur hlotið 10.000 evra styrk úr Nordplus-áætluninni til að halda norræna ráðstefnu um málskýrð (klarsprog) í Reykjavík 11.-12. október 2011. Ráðstefnan er haldin í samvinnu við Nordisk Sprogkoordination og þá sem sinna málskýrðarverkefnum í norrænum systurstofnunum Árnastofnunar. Nordisk Sprogkoordination mun jafnframt leggja 50.000 DKK til ráðstefnunnar.
Þau sem hljóta Snorrastyrki árið 2010, til þriggja mánaða hvert, eru: Daisy Neijmann, kennari við University College London, til að rannsaka íslenskar bókmenntir sem fást við seinni heimsstyrjöldina og hernámið hér á landi. Seiichi Suzuki, prófessor við Kansai Gaidai háskóla í Japan, til að fást við rannsóknir á fornnorrænum bragarháttum. Giorgio Vasta, rithöfundur í Torino á Ítalíu, til að vinna að skáldsögu sem að hluta mun gerast á hér á landi.
Kaupmannahafnarháskóli og Árnastofnun í Kaupmannahöfn auglýsa stöðu doktorsnema í tengslum við rannsóknarverkefni um fornaldarsögur. Umsóknarfrestur er til 7. janúar. Þetta er einstakt tækifæri fyrir stúdenta í norrænum fræðum (sem lokið hafa MA-prófi eða sambærilegu námi).
Norðurlöndin og Eystrarsaltslöndin standa að verkefninu en máltæknifyrirtækið Tilde í Riga í Lettlandi leiðir verkefnið sem hefst 1. febrúar 2011 og stendur í tvö ár. Aðrir þátttakendur eru háskólarnir í Kaupmannahöfn, Bergen, Gautaborg, Helsinki, Tartu og Vilnius, auk Máltækniseturs sem er stofa innan Málvísindastofnunar Háskólans rekin í samstarfi við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Stjórnandi íslenska hlutans er Eiríkur Rögnvaldsson prófessor, en verkið verður unnið í nánum tengslum við Árnastofnun. Hlutur Máltækniseturs af styrknum er um 202 þúsund evrur, tæplega 31 milljón íslenskra króna.
Lokið er úthlutun styrkja úr Þjóðhátíðarsjóði 2010 vegna ársins 2011 sem jafnframt er síðasta almenna úthlutun sjóðsins samkvæmt upplýsingum á heimasíðu fjármálaráðuneytis. Fjögur verkefni á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hlutu styrki. * Skanna bréfasafn heimildarmanna Orðabókar Háskólans. Verkefnisstjóri er Jón Hilmar Jónsson rannsóknarprófessor á orðfræðisviði. Styrkurinn er að upphæð 600.000. * Ljúka skráningu handritaflokksins SÁM í vörslu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Verkefnisstjóri er Sigurgeir Steingrímsson rannsóknardósent á handritasviði. Styrkurinn er að upphæð 700.000. * Ljúka við að tölvusetja um 25.000 seðla með orðadæmum úr kveðskaparmáli frá 16. öld og fram á 20. öld. Verkefnisstjórar eru Guðrún Kvaran prófessor og Gunnlaugur Ingólfsson, rannsóknardósent á orðfræðisviði. Styrkurinn er að upphæð 700.000. * Færa örnefni af prentuðum myndum í rafrænan grunn þar sem þau varðveitast og eru aðgengileg þeim sem á þarf að halda. Verkefnisstjóri er Jónína Hafsteinsdótitr deildarstjóri á nafnfræðisviði. Styrkurinn er að upphæð 400.000.
Út er komið ritið Margarítur, hristar Margréti Eggertsdóttur fimmtugri 25. nóvember 2010. Í ritinu eru yfir 30 stuttar en bráðskemmtilegar greinar Margréti til heiðurs.
Alþjóðlegt meistaranám í norrænum miðaldafræðum - Nordic Masters Programme in Viking and Medieval Norse Studies hefst við Háskóla Íslands haustið 2012. Námið er á vegum Háskólans í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Háskólann í Ósló, Háskólann í Árósum og Árnastofnun við Háskólann í Kaupmannahöfn.
Handrit.is - Rannsóknargagnagrunnur og samskrá um íslensk og norræn handrit hlaut Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands á dögunum. Að verkefninu koma Sigurgeir Steingrímsson, rannsóknardósent og stofustjóri á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Örn Hrafnkelsson, forstöðumaður handritadeildar Landsbókasafns og Matthew Driscoll forstöðumaður Árnastofnunar í Kaupmannahöfn(Den Arnamagnæanske Samling).
Hugmyndin www.handrit.is - rannsóknargrunnur og samskrá um íslensk og norræn handrit hefur hlotið 1. verðlaun í Hagnýtingarsamkeppni Háskóla Íslands 2010. Verðlaunin verða afhent á Háskólatorgi föstudaginn 19. nóvember og hefst athöfnin kl 16. Vefurinn www.handrit.is er samskrá yfir íslensk og norræn handrit sem eru varðveitt í handritadeild Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Árnasafni í Kaupmannahöfn (Arnamagnæan Samling).
,,Málnotkun í íslensku háskólasamfélagi hefur breyst á undanförnum árum og sú þróun hefur því miður oft orðið á kostnað íslenskrar tungu. Háskólastarf er í eðli sínu alþjóðlegt og því sjálfsagt að í íslensku háskólasamfélagi séu notuð fleiri tungumál en íslenska. Skylt er þó að tryggja að staða íslenskrar tungu sé sterk í háskólasamfélaginu á Íslandi; þar má hún ekki verða hornreka heldur á hún þvert á móti að eflast þar og dafna. Ástæða er til að gefa þessari þróun gaum og spyrna við fótum áður en í óefni er komið", segir í ályktun Íslenskrar málnefndar. Samkvæmt lögum er nefndinni skylt að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu og að þessu sinni er lögð áhersla á málnotkun í íslensku háskólasamfélagi. ,,Ef þessi þróun heldur áfram næstu áratugi og námskeiðum og heilum námsbrautum á ensku fjölgar blasir við að verulega mun þá þrengt að íslenskri tungu í háskólasamfélaginu á Íslandi. Í ályktun nefndarinnar kemur fram hvernig skuli bregðast við.
Á degi íslenskrar tungu, þriðjudaginn 16. nóvember, verður hátíðardagskrá þar sem mennta- og menningarmálaráðherra afhendir Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2010 auk tveggja sérstakra viðurkenninga fyrir störf í þágu íslensks máls. Dagskráin verður í Landnámssetri Íslands, Brákarbraut 13-15 , Borgarnesi kl. 17-18. Allir eru velkomnir.
Svanhildur Óskarsdóttir rannsóknardósent á stofnuninni hefur hlotið verðlaun úr sjóði Dags Strömbäcks fyrir skrif sín á sviði íslenskrar textafræði. Í rökstuðningi Konunglegu Gústafs Adolfs akademíunnar kemur fram að í verkum sínum takist Svanhildi einstaklega vel að flétta textafræðilegri skarpskyggni saman við bókmenntafræði og hugmyndasögulega nálgun. Viðurkenningin verður veitt laugardaginn 6. nóvember á hátíðarfundi akademíunnar í Uppsalahöll. Verðlaunaféð nemur 40.000 sænskum krónum.
Dagana 7.-9. október verður haldin alþjóðleg ráðstefna um félagsmálvísindi, textasöfn og gagnagrunna. Málvísindastofnun Háskólans stendur að ráðstefnunni í samvinnu við tvö norræn rannsóknane
Ríkisstyrkur Árnastofnunar í Kaupmannahöfn fyrir árið 2011 er laus til umsóknar. Styrkurinn er veittur íslenskum ríkisborgurum til handritarannsókna í Den Arnamagnæanske Samling í Kaupmannahöfn. Det Arnamagnæanske Legat, sem hefur það verkefni að veita íslenskum ríkisborgurum styrk til rannsókna í Den Arnamagnæanske Håndskriftsamling (Árnasafni) eða í öðrum samsvarandi söfnum í Kaupmannahöfn, auglýsir hér með styrk fyrir árið 2011 lausan til umsóknar.
Icelandiconline.is var opnað með pompi og pragt í gær þegar Vígdís Finnbogadóttir fv. forseti Íslands opnaði þrjú ný vefnámskeið í íslensku sem öðru máli við athöfn í Norræna húsinu. Icelandic Online er öllum opið og er aðgangur ókeypis
Fjórða bindið í fræðilegri heildarútgáfu á verkum Hallgríms Péturssonar (1614–1674), Ljóðmæli 4, er komið út hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Það hefur að geyma andlegan kveðskap sem tengist hringrás náttúrunnar, tímaskiptum, svo sem dægra- og árstíðabreytingum, bæði lengri sálma og stök vers, alls 39 talsins.
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað nýja stjórn stofnunarinnar. Stjórnin er þannig skipuð: * Lára Magnúsardóttir, sagnfræðingur, formaður, án tilnefningar * Ásgrímur Angantýsson, málfræðingur, varaformaður, án tilnefningar * Guðrún Þórhallsdóttir, dósent, tilnefnd af háskólaráði Háskóla Íslands * Torfi Tulinius, prófessor, tilnefndur af háskólaráði Háskóla Íslands * Terry A. Gunnell, prófessor, tilnefndur af háskólaráði Háskóla Íslands.
Í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá því að örnefnaskráning hófst verður haldið málþing um örnefni laugardaginn 30. október. Þingið verður haldið í sal Þjóðminjasafns Íslands og hefst að morgni og stendur eitthvað fram eftir degi. Starfsmenn nafnfræðisviðs annast undirbúning þingsins. Dagskrá og nánari tímasetning verður auglýst síðar.
Sagan af Árna yngra ljúfling er ein fyrsta íslenska skáldsagan í nútímaskilningi. Hún hefur ekki áður verið gefin út eftir eiginhandarriti sem höfundurinn, Jón sýslumaður Espólín (1769–1836), ritaði á síðustu æviárum sínum. Í sögunni segir frá flakkaranum Árna sem ferðast um landið, hlýðir á tal manna og skrifar upp. Sagan hefst í Vopnafirði og endar í miðju kafi á Akureyri. Lýst er sérkennum héraða og skoðunum manna á öllu milli himins og jarðar. Sagan er merkileg fyrir mikið þjóðtrúarefni sem auðvelt er að leita uppi með aðstoð efnisskrár sem fylgir textanum. Fróðlegur inngangur er um sérlegan feril handritsins eftir Einar G. Pétursson sem býr bókina til prentunar.
jölbreytt tónlist verður flutt allan daginn og fram á kvöld í Bókasal Þjóðmenningarhússins á Menningarnótt. Dagskráin hefst strax kl. 14 og lýkur á ellefta tímanum um kvöldið. Enginn aðgangseyrir verður að tónleikum eða sýningum og gestir geta nýtt sér barna- og fjölskyldunálgun sem útbúin hefur verið fyrir flestar sýningar í húsinu. Efni yfirstandandi sýninga er fjölbreytt; íslenskar kvikmyndir, ljósmyndasýningin Íslendingar, handritin frá miðöldum, kúla úr þæfðri ull í ýmsum myndum og fleira. Barnahorn er á kvikmyndasýningunni, spæjaraleikur á ljósmyndasýningunni og leiðsagnarhandrit um goðsögulega dreka og fleira á handritasýningunni. Einnig er hægt að leika sér með orðapúsl á ísskápsseglum.
Þrjú ný Icelandic Online námskeið verða opnuð í Norræna húsinu 7. september kl. 16. Vigdís Finnbogadóttir opnar námskeiðin. Icelandic Online er vefnámskeið í íslensku sem öðru máli. Þegar hafa verið útbúin námskeiðin Icelandic Online og Icelandic Online 2. Að verkinu standa Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, íslenskuskor hugvísindadeildar Háskólans og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Icelandic Online er öllum opið og er aðgangur ókeypis.
Þann 23. júní sl. var fyrri hluti þýskrar þýðingar fræðsluvefsins Handritin heima opnaður við hátíðlega athöfn við norrænudeild Christan-Albrechts háskóla í Kíl að viðstöddum Gunnari Snorra Gunnarssyni sendiherra Íslans í Þýskalandi. Vefsíðan, Handritin heima, er fræðsluefni á vef um íslensk handrit og menningarsögu sem verið hefur í smíðum um nokkurt skeið. Höfundar eru Laufey Guðnadóttir og Soffía Guðný Guðmundsdóttir en verkið hefur verið unnið í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Námsgagnastofnun og Hugrúnu Hrönn Kristjánsdóttur vefráðgjafa.
Norrænn ferðastyrkur fyrir rithöfund. Veittar verða kr. 150.000 til að styrkja rithöfund til dvalar á Norðurlöndum
Mánudaginn 5. júlí 2010, hefst fjögurra vikna alþjóðlegt sumarnámskeið í íslensku í Háskóla Íslands. Námskeiðið er ætlað erlendum háskólastúdentum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gengst fyrir námskeiðinu í samvinnu við hugvísindasvið Háskóla Íslands og annast skipulagningu þess. Alþingi hefur veitt styrk til að unnt sé að halda námskeiðið. Þetta er í tuttugasta og fjórða skiptið sem slíkt námskeið er haldið.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum auglýsir styrki Snorra Sturlusonar fyrir árið 2011 lausa til umsóknar. Styrkirnir eru veittir erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum (ekki háskólastúdentum) á sviði hugvísinda til að dveljast á Íslandi í þrjá mánuði hið minnsta í því skyni að kynnast sem best íslenskri tungu, menningu og mannlífi. Styrkirnir miðast að öllu jöfnu við greiðslu á ferðakostnaði styrkþega til og frá Íslandi og dvalarkostnaði innanlands.
Vefurinn Handritin heima hefur verið þýddur á þýsku og verður opnaður formlega í Kíl í dag, 23. júní. Vefurinn var saminn af Laufeyju Guðnadóttur og Soffíu Guðnýju Guðmundsdóttur í samstarfi við Árnastofnun og Námsgagnastofnun.
Mánudaginn 7. júní 2010, hófst fjögurra vikna norrænt sumarnámskeið í íslensku í Háskóla Íslands. Námskeiðið er ætlað háskólastúdentum í norrænum fræðum sem stunda nám á Norðurlöndum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gengst fyrir námskeiðinu í samvinnu við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og annast skipulagningu þess. Norræna ráðherranefndin hefur veitt styrk til að unnt sé að halda námskeiðið.
Við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag, 17. júní, sæmdi forseti Íslands tólf Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Guðrún Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fékk riddarakross fyrir störf í þágu íslenskra fræða.
Handrit eru nú aftur til sýnis á handritasýningu stofnunarinnar í Þjóðmenningarhúsinu. Vegna viðgerða og endurbóta á handritaskáp og sýningarherbergi þurfti að fjarlægja handritin þótt sýningin hafi að öðru leyti verið opin gestum.
Alþjóðasvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur umsjón með kennslu í íslensku við erlenda háskóla af hálfu íslenskra stjórnvalda og skipuleggur fundinn í samráði við íslenskukennarana.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gefur út fréttabréf á ensku til að miðla upplýsingum um kennslu og rannsóknir í fornnorrænum og íslenskum fræðum, ráðstefnur og fundi, bækur og tímarit. Það kemur að jafnaði út tvisvar á ári og flytur fréttir bæði frá Íslandi og öðrum löndum.
Á færeyskri menningarhátíð á Kjarvalsstöðum í Reykjavík í gær var Ólafur Halldórsson, handritafræðingur, heiðraður sérstaklega fyrir starf í þágu menningartengsla frændþjóðanna tveggja, Færeyinga og Íslendinga. Ólafur, sem varð níræður þann 18. apríl sl., hefur um áratugaskeið unnið að rannsóknum á handritum, textum og útgáfum á fornsögum.
Ársskýrsla Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fyrir árið 2009 er komin út á rafrænu formi. Hún hefur að geyma yfirlit yfir starfsemi stofnunarinnar og rekstrarreikning.
Mikill áhugi er hjá landsmönnum á nafngift nýrrar eldstöðvar neðan Fimmvörðuháls. Menntamálaráðherra hefur nú staðfest hver ákveður nafnið á hinu nýja kennileiti. Þrír opinberir aðilar hafa með örnefni að gera samkvæmt lögum: Landmælingar Íslands, nafnfræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og örnefnanefnd. Starfshópur á vegum þeirra fer í sameiningu með ákvörðunarvald á nafngiftinni og hafa þeim borist fjölmargar tillögur. Næstu skref hópsins eru því að fara yfir tillögurnar auk þess að kynna sér þau örnefni sem þekkt eru á svæðinu, en nokkuð vandaverk kann að vera að velja nafn á eldstöð sem enn er í fullri virkni og óljóst er hvernig muni þróast.
Úrslit úr samkeppni Já og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum um hugvitsamlega notkun á gögnum úr Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls liggja nú fyrir. 1. verðlaun Orðavinda, 2. verðlaun Orðaleit, 3. verðlaun bætt gagnasnið fyrir opna útgáfu BÍN, aukaverðlaun Beygingarlýsing for dummies.
Gripla XX sem gefin er út af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er komin út
University College of London auglýsir eftir afleysingakennara í íslensku á tímabilinu frá 15. september 2010 til 14. júní 2011. Kennaranum er ætlað að kenna nútímaíslensku, íslenskar bókmenntir síðari alda og um íslenskt samfélag og menningu. Umsækjendur skulu a.m.k. hafa lokið M.A. prófi í íslensku eða sambærilegu prófi og hafa reynslu af að kenna íslensku á háskólastigi.
Vésteinn Ólason hlýtur Gad Rausings verðlaunin 2010 fyrir framúrskarandi rannsóknir á sviði hugvísinda.
Dagana 2.– 5. mars skipuleggur Samstarfsnefnd um kennslu í Norðurlandafræðum erlendis, sem starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, í samstarfi við Nordic Centre in India, málþing í Delhi og Hyderabad á Indlandi. Yfirskrift málþinganna er: „Nordic perspectives – a common ground for change.“ Þar verður fjallað um sögu norræns samstarfs, velferðarríkið, lýðræði og jafnréttismál, umhverfismál og tungumálastefnu Norðurlanda.
Út er komið ritið Fáum mönnum er Kári líkur. Nítján kárínur gerðar Kára Kaaber sextugum 18. febrúar 2010. Menningar- og minningarsjóður Mette Magnussen.
Vísindanefnd hefur úthlutað styrkjum úr Rannsóknasjóði HÍ. Eftirtaldir starfsmenn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fengu styrk: Ásta Svavarsdóttir: Íslenska við aldahvörf. Erlend máláhrif í lok 19. og 20. aldar, 775 þús. Guðrún Kvaran og Sigrún Helgadóttir: Efling Textasafns OH fyrir orðfræðirannsóknir, 900 þús. Guðrún Nordal: Heildarútgáfa á dróttkvæðum, 1.400 þús.
Alþjóðlegur sumarskóli í handritafræðum á vegum Den Arnamagnæanske Samling í Kaupmannahöfn og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fer fram 12.-20. ágúst 2010. Í sumar fer námið fram í Kaupmannahöfn en annað hvert ár í Reykjavík.