Næstkomandi fimmtudag, 15. september 2011, munu Íslendingar afhenda Norðmönnum Morkinskinnu við hátíðlega athöfn í Oslóarháskóla. Um er að ræða 2. hluta af þremur í þjóðargjöf Íslendinga til Norðmanna í tilefni af 100 ára afmæli endurreists konungsveldis í Noregi árið 2005. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra mun afhenda gjöfina, en við henni tekur Anniken Huitfeldt, menningarmálaráðherra Noregs. Báðir ráðherrar munu flytja stutt ávörp, en að þeim loknum flytja þeir Jon Gunnar Jørgensen, prófessor við Oslóarháskóla og Þórður Ingi Guðjónsson ritstjóri Íslenzkra fornrita erindi. Árið 2007 fengu Norðmenn afhenta Sverris sögu í Norræna húsinu á þjóðhátiðardegi sínum, 17. maí. Á næsta ári fer síðasta afhendingin fram þegar Norðmenn fá í hendur útgáfu á Hákonar sögu og Böglunga sögu.
Í dag er stofnunin fimm ára. Þann 1. september árið 2006 voru Íslensk málstöð, Orðabók Háskólans, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnun Sigurðar Nordals og Örnefnastofnun sameinaðar í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Hin nýja stofnun tók við skyldum stofnananna fimm og þeim verkefnum sem þær sinntu. Dr. Vésteinn Ólason var skipaður í embætti forstöðumanns en Guðrún Nordal prófessor tók við af Vésteini þegar hann lét af störfum sökum aldurs í byrjun árs 2009.
Þann 3. október hefst 8 vikna íslenskunámskeið á vegum Háskóla Íslands sem nefnist: Icelandic Online Plus. Icelandic Online Plus er vefnámskeið í íslensku sem er ætlað erlendum háskólanemum. Umsóknarfrestur rennur út 18. september.
Alþjóðlegur sumarskóli í handritafræðum á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Den Arnamagnæanske Samling í Kaupmannahöfn hófst í gær. Um 60 nemendur lesa handrit að þessu sinni en þetta er áttunda árið sem skólinn starfar. Námið fer fram í Reykjavík í sumar en annað hvert ár í Danmörku.
Á sjötugsafmæli Einars G. Péturssonar 25. júlí 2011 gaf Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum út rit honum til heiðurs. Það ber nafnið Hulin pláss og er úrval ritgerða sem Einar hefur samið á 35 ára ferli sínum við rannsóknir og útgáfur á stofnuninni. Ritið er 366 blaðsíður og skiptast ritgerðirnar í tvo flokka og hafa allar nema sú síðasta birst áður á prenti en eru nú yfirfarnar og auknar. Viðfangsefni í fyrri hluta eru bundin íslenskum fræðum og í síðari hluta er Einar á heimaslóðum í Dölum vestur. Beinir hann einkum sjónum að því sem honum hefir lengi verið hugleikið sem eru eignir kirkna á eyjum og fjalldölum og skilningur á heimildum og hugtökum í þeim efnum.
Von er á heildarútgáfu Íslendingasagna á þýsku í haust og á dönsku, norsku og sænsku á næsta ári. Fimmtán þýðendur koma að þýsku þýðingunni sem kemur út hjá S.Fischer bókaforlaginu. Saga forlag gefur út norrænu útgáfurnar af Íslendingasögunum. Gísli Sigurðsson stofustjóri á Árnastofnun er útgáfustjóri þessara þriggja norrænu heildarútgáfna Íslendingasagnanna. Í ráðgefandi ritnefnd eru auk Gísla Örnólfur Thorsson, Vésteinn Ólason og Jónas Kristjánsson, fyrrum forstöðumenn Árnastofnunar og Viðar Hreinsson ritstjóri ensku útgáfunnar sem kom út árið 1997.
ÍSLEX veforðabókin í Noregi hefur hlotið rúmlega 50 milljóna króna styrk (2,5 milljónir norskra króna) frá menningar- og menntamálaráðuneyti Noregs til að vinna við orðabókina næstu tvö árin. Þetta fé kemur til viðbótar þeim 2 milljónum norskra króna sem verkefnið þar í landi fékk upphaflega í sinn hlut árið 2006.
Lög um íslenska tungu og táknmálið samþykkt
Í tilefni af sjötugsafmæli Jónínu Hafsteinsdóttur 29. mars 2011 ákvað Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að gefa út afmælisrit henni til heiðurs. Með því er stofnunin að þakka Jónínu afar farsælt starf í þágu íslenskra örnefna um langt árabil. Ritið hlaut nafnið Fjöruskeljar. Í Fjöruskeljum eru birtar yfir 20 greinar sem allar fjalla á einn eða annan hátt um örnefni. Höfundar eru allir kunnáttumenn í faginu, hver á sínu sviði. Fjallað er um örnefni frá sjónarhóli málfræði, fornleifafræði, þjóðfræði, jarðfræði og fleiri greina auk þess sem birtar eru örnefnaskrár og frásagnir um örnefni víða um land.
Nöfn Íslendinga er jöfnum höndum fræðirit og uppflettirit um þau nöfn sem vitað er að Íslendingar hafi borið í aldanna rás og allt til nútímans. Alls er hér fjallað um sex þúsund nöfn Íslendinga. Getið er um uppruna nafnanna og merkingu, aldur þeirra og tíðni, m.a. hversu algeng þau eru sem fyrra og seinna nafn, svo og sitthvað annað til fróðleiks og skemmtunar. Einnig er sýnd beyging allra nafnanna og mismunandi ritháttur. Bókin er byggð á traustum fræðilegum grunni og höfundurinn, Guðrún Kvaran, er einn helsti sérfræðingur landsins á sviði mannanafna. Guðrún er doktor í samanburðarmálfræði og hefur um árabil starfað sem fræðimaður, verið forstöðumaður Orðabókar Háskólans og stofustjóri orðfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Út er komið ritið Díslex, Dísæt lex(íkógraf)ía kennd Þórdísi Úlfarsdóttur fimmtugri 27. apríl 2011. Í ritinu eru 19 stuttar en bráðskemmtilegar greinar Þórdísi til heiðurs. Útgefandi er Menningar- og minngarsjóður Mette Magnussen sem starfsmenn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hafa umsjón með og gefa út til gamans fjölrituð smárit til heiðurs samstarfsmönnum sínum og öðrum kollegum er þeir eiga merkisafmæli. Umsjón með útgáfunni höfðu Halldóra Jónsdóttir, Jón Hilmar Jónsson og Guðrún Kvaran.
Ársskýrsla Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fyrir árið 2010 er komin út. Ársskýrslan hefur að geyma yfirlit yfir starfsemi stofnunarinnar. Áhugasamir geta fengið ársskýrsluna senda í pósti (kari@hi.is) en einnig er aðgangur að skýrslunni á vefnum.
Kvæðið eftir Hallgrím Pétursson sem Þórunn Sigurðardóttir verkefnisstjóri á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fann í handriti í Uppsalaháskóla í Svíþjóð er erfikvæði um Vigfús Gíslason. Talið var að flest allt eftir Hallgrím væri komið fram og þykja þetta því mikil tíðindi. Þórunn segir að þegar hún hafi lesið ljóðið hafi hún sannfærst um að það væri réttilega eignað Hallgrími.
Út er komin Morkinskinna í ritröðinni Íslenzk fornrit (tvö bindi). Morkinskinna er mikið konungasagnarit frá fyrri hluta 13. aldar og greinir frá þeim konungum sem ríktu í Noregi eftir fall Ólafs helga á Stiklarstöðum árið 1030. Um er að ræða elsta rit þar sem saga margra konunga er rakin ítarlega. Ein höfuðprýði Morkinskinnu eru hinar mörgu frásagnir af samskiptum konunga við Íslendinga sem dveljast í Noregi, hinir svokölluðu Íslendinga þættir. Þá eru í Morkinskinnu fleiri vísur en í nokkru öðru fornu íslensku sagnariti, og setja þær og hin íslensku skáld mikinn svip á verkið. Morkinskinna er hér í fyrsta sinn gerð aðgengileg íslenskum almenningi, með ítarlegum formála og skýringum. Skrár, kort og myndir prýða verkið. Ármann Jakobsson og Þórður Ingi Guðjónsson sáu um útgáfuna.
Handbók um íslensku er ítarlegt uppsláttar- og yfirlitsrit og hentar ekki síst þeim sem fást við skriftir í störfum sínum, námi eða tómstundum. Bókin geymir traustar og hagnýtar leiðbeiningar um málnotkun, stafsetningu, ritun og ritgerðasmíð en þar við bætast yfirlitskaflar um ýmis svið íslensks máls, svo sem nýyrði, orðmyndun og örnefni. Aftast er orða- og hugtakaskrá sem gagnast vel við leit að einstökum atriðum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum stendur að gerð bókarinnar og efnið byggist meðal annars á ráðgjafarstarfi málræktarsviðs stofnunarinnar og ritreglum Íslenskrar málnefndar.
Vefurinn tungumalatorg.is var opnaður í lok árs 2010 en þar er vettvangur fyrir þá sem tengjast námi og kennslu tungumála og fjölmenningarlegu skólastarfi.
Vakin er athygli á ráðstefnu í miðaldafræðum sem meistaranemar halda þann 18. apríl í Árnagarði stofu 304.
Út er komin bókin Úr fórum orðabókarmanns, safn greina eftir Ásgeir Blöndal Magnússon. Ásgeir Blöndal starfaði um áratuga skeið við Orðabók Háskólans og varð landskunnur fyrir útvarpsþætti sína um íslenskt mál sem hann annaðist ásamt samstarfsfólki sínu við Orðabókina um árabil. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gefur greinasafn Ásgeirs út í minningu þess að haustið 2009 voru liðin hundrað ár frá fæðingu hans.
Aðalheiður Guðmundsdóttir hlaut fyrstu verðlaun í textasamkeppni Hugvísindasviðs Áttu orð, sem efnt var til í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands. Aðalheiður er aðjúnkt í þjóðfræði á Félagsvísindasviði og er með doktorspróf í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands. Hún átti tvo af þeim 25 textum sem voru valdir til sýningar. Í fyrstu verðlaun var glæsilegur bókapakki frá Opnu.
Sögufélagið Steini á Kjalarnesi kynnir: Keltnesk síðdegissögustund verður haldin í Fólkvangi á Kjalarnesi laugardaginn 26.mars kl. 16:00-18:00 Svavar Sigmundsson, fyrrum forstöðumaður Örnefnastofnunar Íslands og fyrrum rannsóknarprófessor og stofustjóri nafnfræðisviðs Árnastofnunar, heldur erindið: "Keltneski örnefni á Kjalarnesi?" Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor og stofustjóri þjóðfræðisviðs Árnastofnunar, fjallar um:"Írskar fornsögur um fólk á Kjalarnesi" Gwendolin N. Corday danskennari kynnir Skoskan dans.
Laugardaginn 19. mars nk. verður fræðslufundur Nafnfræðifélagsins í stofu 131 í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands, og hefst hann kl. 13.15. Árni Björnsson dr. phil. heldur erindi sem hann nefnir Dularfull örnefni í Dölum
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mælti á Alþingi í dag fyrir frumvarpi til laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Í kjölfar þess fór fram umræða þar sem þingmenn lýstu yfir ánægju með frumvarpið og var því síðan vísað til umfjöllunar í menntamálanefnd Alþingis. Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að markmið frumvarpsins sé að festa í lög stöðu íslenskrar tungu. Jafnframt gerir frumvarpið ráð fyrir að íslenskt táknmál verði viðurkennt í lögum sem fyrsta mál þeirra sem eru heyrnarlausir, heyrnarskertir, daufblindir og afkomendur þeirra.
Í gær, 22. febrúar, hélt Rósa Magnúsdóttir erindi sitt "Þóra og Kristinn: ævisaga - hjónasaga - kynslóðasaga - kynjasaga?" í hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélagsins Hvað er kynjasaga? Fyrirlesturinn er aðgengilegur á heimasíðu félagsins en þess má geta að Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi fékk íbúð þeirra Þóru Vigfúsdóttur og Kristins E. Andréssonar við Hvassaleiti 30 í arf. Íbúðin er leigð til erlendra fræðimanna sem hér stunda fræðastörf.
Nafnfræðifélagið efnir til fræðslufundar laugardaginn 26. febrúar, kl. 13.15, í stofu 131 í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.Páll Sigurðsson prófessor flytur erindi sem hann nefnir: Aftökuörnefni. Í erindi sínu mun Páll fjalla um örnefni, sem með einum eða öðrum hætti vísa til eða kunna að benda til refsiframkvæmdar fyrri tíma, þegar líflátshegningar voru í íslenskum lögum og meðan dauðadómum var framfylgt víða um land. „Aftökuörnefni“ má kalla þau örnefni, er vísa til lífláts dæmdra sakamanna. Sem dæmi má nefna örnefni eins og Drekkingarhylur, Brennugjá, Höggstokkseyri og Gálgaklettar, sem öll eru á alþingisstaðnum gamla á Þingvöllum. Vísa þau öll með vissu til refsiframkvæmdar þar. Víða um land gefur einnig að finna aftökuörnefni, m.a. á eða í grennd við gamla þingstaði. Eru ýmsar sagnir tengdar sumum þeirra, þó misjafnlega áreiðanlegar. Víða eru t.d. Gálgaklettar og Gálgagil, sem aftökusagnir tengjast, en þó er stundum alls óvíst eða jafnvel mjög ólíklegt að þar hafi aftökur farið fram í reynd.
13. hefti tímaritsins Orð og tunga var að koma út. Í þessu hefti birtast greinar um efni sem flutt var á málþingi helguðu Ásgeiri Blöndal Magnússyni orðabókarstjóra og síðar forstöðumanns Orðabókar Háskólans. Málþingið, sem haldið var í Þjóðarbókhlöðu 7. nóvember 2009, bar yfirskriftina Orð af orði en 2. nóvember það ár voru 100 ár liðin frá fæðingu Ásgeirs. Á málþinginu voru alls fluttir níu fyrirlestrar og birtast átta þeirra hér í formi greina sem hafa verið yfirfarnar af höfundum og ritrýndar af tveimur ritrýnum samkvæmt venju tímaritsins. Höfundar eru Arne Torp, Bente Holmberg, Guðrún Kvaran, Guðrún Þórhallsdóttir, Gunnlaugur Ingólfsson, Jón Axel Harðarson, Margrét Jónsdóttir og Mörður Árnason.
Föstudaginn 25. febrúar nk. stendur Menntavísindasvið Háskóla Íslands fyrir ráðstefnu um tónlistarrannsóknir á Íslandi. Ráðstefnan verður haldin í Listgreinahúsi Háskóla Íslands, Skipholti 37 og stendur frá kl. 8:30 til 15:00. Á ráðstefnunni verða haldin 9 erindi um tónlistarrannsóknir á Íslandi. Guðrún Laufey Guðmundsdóttir verkefnisstjóri á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum flytur þar m.a. erindi um opið aðgengi að tónlistararfi handritanna.
Mikill áhugi var á bókum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum þegar þær voru til sýnis fyrir utan skrifstofu stofnunarinnar í Árnagarði í gær og fyrradag. Þeir sem ekki áttu heimangengt geta enn nælt sér í bók á tilboðsverði. Verð á bókum er frá 400 krónum en algengt verð er 800 og 1000 krónur. Tilboðið gildir út febrúar.
Jónína Hafsteinsdóttir, starfsmaður á nafnfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og áður á Örnefnastofnun Íslands, verður sjötug 29. mars næstkomandi. Árnastofnun hyggst halda upp á tímamótin og þakka Jónínu farsælt starf um langt skeið með því að gefa út afmælisrit til heiðurs henni. Í ritið skrifa samstarfsmenn og félagar Jónínu, fólk sem hefur komið að örnefnamálum víða um land og fólk sem átt hefur í samskiptum við hana gegnum störf hennar.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Málvísindastofnun Háskóla Íslands, og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur fengu í dag afhentan aðgang að textahandritasafni Fjölmiðlavaktarinnar við hátíðlega athöfn í tilefni af 30 ára starfsafmæli fyrirtækisins. Tilgangurinn er að auðvelda fræðastofnunum að vinna að rannsóknum á þróun og varðveislu íslenskrar tungu. Safnið hefur að geyma þúsundir handrita útvarps- og sjónvarpsfrétta
Út er komin bókin Ætt og saga – Um frásagnarfræði Sturlungu eða Íslendinga sögu hinnar miklu eftir Úlfar Bragason rannsóknarprófessor á stofnuninni.
Nýlega var úthlutað styrkjum úr Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands. Ari Páll Kristinsson á málræktarsviði stofnunarinnar var á meðal þeirra sem fengu styrk til nýs verkefnis, "Mat á mismunandi málsniðum í íslenskum ritmiðlum".
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ákveðið að veita Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 1,5 milljónir til kynningar á ISLEX-orðabókinni fyrir börn og unglinga. Styrkurinn er veittur úr Norræna málaátakinu (Nordisk sprogkampagne) sem er sérstakt verkefni innan Norrænu ráðherranefndarinnar og stofnað var til í formennskutíð Íslendinga árið 2009 og á að stuðla að betri málskilningi barna og unglinga á Norðurlöndunum.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur hlotið tæplega sjö milljóna króna styrk úr Rannsóknarsjóði til að vinna verkefnið: Breytileiki Njáls sögu. Verkefnisstjóri er Svanhildur Óskarsdóttir, stofustjóri á handritasviði stofnunarinnar.
Rómverja saga 12.01.2011
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur sent frá sér Rómverja sögu í nýrri útgáfu Þorbjargar Helgadóttur.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, kynnti fjölbreytta dagskrá aldarafmælis Háskólan Íslands í Hátíðasal í Aðalbyggingu í morgun.
Sigurgeir Steingrímsson hefur látið af störfum stofustjóra handritasviðs á stofnuninni en mun áfram sinna rannsóknum sínum. Sigurgeir hefur verið stofustjóri handritasviðs frá stofnun Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum árið 2006 og þar á undan um árabil hægri hönd forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi. Svanhildur Óskarsdóttir rannsóknardósent á stofnuninni tekur við starfi stofustjóra handritasviðs næstu fjögur árin.