Viðurkenningar Íslenskrar málnefndar 2012
Kristinn Halldór Einarsson, Jón Guðnason, Guðrún Kvaran og Trausti Kristjánsson.

Þing Íslenskrar málnefndar um íslensku í tölvuheiminum var haldið þriðjudaginn 13. nóvember 2012. Þar var kynnt ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu 2012 og veittar þrjár viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskrar tungu:

Kristinn Halldór Einarsson hlýtur viðurkenningu fyrir að hafa frumkvæði að og forystu um gerð nýs íslensks talgervils

Fyrr á þessu ári kynnti Blindrafélagið nýjan íslenskan talgervil en talgervill er hugbúnaður sem breytir texta í tal og er hægt að keyra á tölvum og símum og ýmiss konar öðrum tölvustýrðum búnaði, svo sem hraðbönkum. Nýr íslenskur talgervill er því ómetanlegt hjálpartæki fyrir blinda og sjónskerta hér á landi. Um leið er hann stórtíðindi fyrir íslenska máltækni og íslenska tungu því að í þessari tækni hefur íslenska lengi verið eftirbátur annarra tungumála. Nýr íslenskur talgervill er gríðarstórt skref fram á við. Að baki eru stór íslensk málgagnasöfn og vönduð greining á framburði íslensku og það er óhætt að segja að vel hafi tekist til. Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins, hefur unnið ötullega að gerð nýs íslensks talgreinis og hlýtur fyrir það starf viðurkenningu Íslenskar málnefndar.

Jón Guðnason, lektor í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík, og Trausti Kristjánsson frumkvöðull og aðjunkt við Háskólann í Reykjavík hljóta viðurkenningu fyrir framlag sitt til nýs talgreinis fyrir íslensku.

Nú í sumarlok kynnti Google talgreini fyrir íslensku en hann er meðal annars notaður í farsímum með Android-stýrikerfinu. Talgreinir er hugbúnaður sem nemur talað mál og breytir því í ritaðan texta. Með slíkum búnaði er hægt að stýra ýmiss konar tækjum með röddinni einni. Til að mynda eru ýmsir snjallsímar nú að hluta til raddstýrðir. Talgreinirinn gerir mögulegt að tala við símann og hann breytir töluðu máli í texta fyrir leit eða sms-skilaboð. Slíkur búnaður hefur lengi verið til fyrir ensku og fleiri tungumál en hefur vantað fyrir íslensku. Talgreinir fyrir íslensku verður því að teljast gríðarlega mikilvægt skref fyrir framtíð íslenskrar tungu. Jón Guðnason, lektor við Háskólann í Reykjavík, og Trausti Kristjánsson, frumkvöðull og aðjunkt við Háskólann í Reykjavík, voru lykilmenn í því að talgreinir fyrir íslensku varð að veruleika og hljóta fyrir það viðurkenningu Íslenskrar málnefndar.

 

Sett inn 14.11.2012
Til baka
Deila þessari frétt: Senda frétt Facebook