Góssið hans Árna. Minningar heimsins í íslenskum handritum.
Góssið hans Árna. Kápa.

Greinasafn með 11 greinum um valin íslensk handrit.

Árið 2009 var handritasafn Árna Magnússonar, sem varðveitt er sameiginlega í Reykjavík og Kaupmannahöfn, tekið upp á varðveisluskrá Menningarmálstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, Minni heimsins, og efndi Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum af því tilefni til þeirrar fyrirlestraraðar um handritin sem hér kemur út á bók undir nafninu Góssið hans Árna. Kápumyndin vísar í minni heimsins en þar er jarðarkringlan í gervi heilabús og eru handritin minningar sem þar eru geymdar.

Hvert handrit sem fjallað er um hér er eins og eitt minningarbrot jarðarkringlunnar og í litrófi minninganna úir og grúir af texta, tónlist og myndefni frá liðnum öldum. Handritin eru frá mismunandi skeiðum í sögu Íslands og veita margvíslega innsýn í líf og hugðarefni Íslendinga á fyrri öldum. Í þeim má finna dramatískar sögur um ævi og örlög Grettis Ásmundarsonar, Gunnars á Hlíðarenda og fleiri hetja, áhrifamiklar frásagnir af dýrlingum, dýrt kveðin helgikvæði, þulur, sálma og tvísöngslög, lagasöfn, dóma og myndskreytta norræna goðafræði.

Hér eru skinnbækur frá miðöldum en líka yngri handrit sem fræðimaðurinn Árni Magnússon safnaði að sér með elju og ákafa allt frá unga aldri. Einnig er fjallað um bækur sem komust í safnið með öðrum hætti, m.a. merka orðabók Jóns Ólafssonar úr Grunnavík í níu bindum sem hann vann að alla ævi en kom aldrei út á prent, og safnhandrit með þjóðfræðiefni sem almenningur á Íslandi sendi Jóni Sigurðssyni forseta á miðri nítjándu öld. Hvert og eitt handrit sem fjallað er um í bókinni lýkur upp heillandi heimi minninga um menningu og sögu Íslands frá miðöldum til 19. aldar.
Efnisyfirlit

Verð: 6.450 kr.

Ritstjóri: Jóhanna Katrín Friðriksdóttir.
Hönnun: Sóley Stefánsdóttir.

 

Sett inn 03.12.2014
Til baka
Deila þessari frétt: Senda frétt Facebook