Hvað er „holds sælgætið blíða“?

„„Holds sælgætið blíða“. Siðgæði í 17. aldar siða- og tækifæristextum“ er yfirskrift fyrirlestrar Þórunnar Sigurðardóttur sem hún flytur á málþingi um áhrif siðaskiptanna á Íslandi, föstudaginn 24. mars kl. 13.30.

Málþingið er á vegum verkefnisins 2017.is og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands á jarðhæð.

Þórunn segir umfjöllunarefni sitt vera hluta af stærri rannsókn þar sem hún skoðar siða- og dyggðatexta eftir siðaskiptin:

„Það er alveg greinilegt að dyggðatextum handa konum fjölgar gríðarlega á 17. öld. Þar spilar margt saman; siðaskiptin, meira er prentað og fleiri textar eru þýddir og komast í umferð. Á þessum tíma eru menn að þýða texta með siðaboðskap frá útlöndum og semja jafnframt sjálfir. Það sem ég er að einbeita mér að í þessari rannsókn eru bæði dyggðatextar og tækifæristextar, en úr einum slíkum kemur yfirskrift fyrirlestrarins. Um er að ræða erfiljóð sem Ólafur Jónsson á Söndum orti eftir Vigdísi Halldórsdóttur, sem lést einhverntíma fyrir 1627." 

Vigdís var húsfreyja í Hvammi í Dýrafirði og hafði lengi verið ekkja. Um hana yrkir sr. Ólafur svo:

Ekkjudóm sinn ærlega hélt,
ekki gat hana púkinn fellt,
því bænrækin með brjóstið hrellt
bað hún sinn Guð um vernd og náð,
hafandi sér af höndum selt
holds sælgætið blíða […] (10. er.)

Sælgæti merkir hér unað eða nautnir, þ.e. unað holdsins, sem ekkjur höfðu kynnst, og var þess vegna sérstaklega hætt við að misstíga sig á vegi dyggðanna.

 

 

 

Sett inn 17.03.2017
Til baka
Deila þessari frétt: Senda frétt Facebook