Orð og tunga komið út
Ari Páll

Nú var að koma úr prentun 19. hefti Orðs og tungu (2017) í ritstjórn Ara Páls Kristinssonar. Í fyrra var kallað eftir greinum um íslenskt mál og málsamfélag á 19. öld. 

 

Fimm þemagreinar fjalla um mál og málstöðlun á 19. öld og höfundarnir tengjast allir rannsóknarverkefni Ástu Svavarsdóttur og fleiri: „Málbreytingar og tilbrigði í íslensku máli á 19. öld: tilurð opinbers málstaðals“.

Grein Öldu B. Möller um íslenskukennslu í Bessastaðaskóla 1806–1846 og á fyrstu árum Reykjavíkurskóla lýsir rannsókn sem Alda gerði á frumgögnum um skólastarfið og þá móðurmálskennslu sem þar fór fram. Alda segir m.a. frá því að Danir hafi frá upphafi hugsað sér að íslenskukennsla í Bessastaðaskóla yrði sambærileg móðurmálskennslunni í dönskum skólum. Þegar Reykjavíkurskóli tók til starfa efldist íslenskan sem kennslugrein. Í grein Ástu Svavarsdóttur, um tengsl íslensku og dönsku á 19. öld og áhrif þeirra, er rýnt í erlend áhrif á íslenskan orðaforða, annars vegar með samfélagsaðstæður og viðhorf í huga og hins vegar beinlínis út frá því hvernig málið er notað í textum frá þessum tíma. Niðurstöður Ástu benda ekki til þess að hin erlendu áhrif á íslensku 19. aldar hafi verið eins djúpstæð og ætla mætti af ummælum sem ýmsir létu falla á þeim tíma. Haraldur Bernharðsson fjallar um nokkur málfarsatriði í skáldsögunni Pilti og stúlku, annars vegar í útgáfunni 1850 og hins vegar 1867. Með samanburðinum leiðir Haraldur fram tvö stig málstaðalsins sem var í mótun, ásamt því að setja ævi og ritstörf Jóns Thoroddsens í samfélagslegt samhengi. Jafnframt leiðir Haraldur rök að því að sakir vinsælda Pilts og stúlku hafi skáldsagan gegnt mikilvægu hlutverki í þróun málstaðalsins. Heimir van der Feest Viðarsson kannar nákvæmlega þrjú málnotkunaratriði í 189 skólaritgerðum úr Reykjavíkurskóla og þær leiðréttingar sem kennararnir gerðu. Athugun Heimis beindist að fyrirbærum sem málstýrendur í skólanum litu hornauga. Heimir sýnir fram á marktæka fylgni milli námsframvindu nemenda og þess hvernig þeir fara með þessi málfræðiatriði í textum sínum. Mat Heimis er að málstýringin hafi „borið töluverðan árangur“. Í grein Jóhannesar B. Sigtryggssonar er fjallað um réttritunarhugmyndir eins afkastamikils höfundar og fræðimanns á 19. öld, Jóns Þorkelssonar. Jóhannes sýnir fram á að stafsetning hans hafi haft þá sérstöðu að vera hvorki sérstaklega byggð á framburði né á uppruna heldur fyrst og fremst á rithætti fornra handrita. Jóhannes bendir á að þetta sýni mikilvægi forníslensku og handritanna í málstöðlun á 19. öld.

Að auki er birtar tvær greinar utan meginþemans.

Í grein Antons Karls Ingasonar og Einars Freys Sigurðssonar sést að nauðsynlegt getur verið að hafa aðgang að feiknastórum málheildum þegar málfræðirannsóknir beinast að fyrirbærum sem koma tiltölulega sjaldan fyrir í málnotkun. Í greininni taka þeir fyrir tegundir ópersónulegrar þolmyndar þar sem spurningin snýst um það hvort gerandi er nefndur eða ekki í svonefndum af-lið sem gæti fylgt en gerir það alls ekki alltaf (það var hvatt til breytinga (?af bálreiðum flokksmönnum)). Þetta sjaldægæfa fyrirbæri er dæmi um að einföld textaleit hefur takmarkað notagildi og tæpast nema í risamálheild eða svonefndri trjábankaleit.

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson fjallar um þau örnefni sem breska og bandaríska hernámsliðið skráði á kort og notaði í Reykjavík og nágrenni á hernámsárunum. Hin ensku örnefni, ásamt enskum útgáfum íslenskra nafna, eru stuttur en forvitnilegur þráður í íslenskri örnefnasögu.

 

Á síðasta ári hóf göngu sína í tímaritinu sérstakur þáttur, „Málfregnir“, sem finna má aftast í tímaritinu. Ritstjóri tímaritsins, Ari Páll Kristinsson, birtir þar stutta frásögn um nýjar íslenskar ritreglur sem mennta- og menningarmálaráðuneytið auglýsti 2016, að tillögu íslenskrar málnefndar. Heitið „Málfregnir“ er í aðra röndina valið í minningu samnefnds tímarits Íslenskrar málnefndar sem kom út á árabilinu 1987–2005. Það tímarit hafði ekki aðeins að geyma greinar um málstefnu (almennt eða ákveðna þætti hennar) heldur einnig ýmsar ábendingar og leiðbeinandi efni innan íslenskrar málræktar.

 

Sett inn 29.06.2017
Til baka
Deila þessari frétt: Senda frétt Facebook