Ákveðið að ráða Emily Lethbridge í stöðu rannsóknarlektors á nafnfræðisviði

Ákveðið hefur verið að ráða Emily Lethbridge í stöðu rannsóknarlektors á nafnfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Um starfið bárust fimm umsóknir.

Emily er með doktorspróf frá Cambridge-háskóla í íslenskum miðaldabókmenntum, textafræði og handritafræði. Í rannsóknum sínum leggur hún áherslu á nálganir sem snúa að landslagi, örnefnum og landsháttum, og samband miðaldatexta og landslags.

Hún hefur meðal annars unnið rannsóknarverkefni styrkt af Rannís (‘Tími, rými, frásögn og Íslendingasögur’, verkefnisstjóri var Torfi Tulinius en Emily var einn aðal styrkhafa ásamt Gísla Sigurðssyni), Miðaldastofu (‘Kortlagning Íslendingasagnanna og athugun á Gráskinnu-handriti Njáls sögu’); og National Science Foundation U.S.A. ('Building Cyberinfrastructure to Enable Interdisciplinary Research on the Long-Term Human Ecodynamics of the North Atlantic’, verkefnisstjóri er Colleen Strawhacker en Emily er einn aðal styrkhafa). Þá hefur Emily einnig staðið að þróun Icelandic Saga Map sem hlaut Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands í nóvember 2015.

Emily hefur sinnt kennslu á námsbrautum á meistarastigi í Medieval Icelandic Studies og Viking and Medieval Norse Studies síðastliðin ár. Hún hefur síðan í janúar árið 2016 starfað sem sérfræðingur við Miðaldastofu innan Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, með aðstöðu á Árnastofnun.

Með þessari ráðningu munu rannsóknir og þjónusta við nafnfræðisvið aukast til muna, sem er fagnaðarefni. Ráðgert er að Emily hefji störf í byrjun september og muni hafa aðsetur á Laugavegi 13. Hún er boðin velkomin í starfsmannahóp stofnunarinnar.

 

 

 

Sett inn 03.07.2017
Til baka
Deila þessari frétt: Senda frétt Facebook