Opnun námskeiðs Icelandic Online
Icelandic Online sept. 2016

Hinn 23. júní  var opnað námskeið í íslensku sem öðru máli, www.icelandiconline.com, fyrir snjalltæki.

 

Icelandic Online eru sex vefnámskeið í íslensku. Fyrsta þeirra var opnað til notkunar 2004 og það sjötta 2013. Námskeiðin eru sjálfstýrð og öllum opin til notkunar á Netinu. Nú eru 170 þúsund skráðir notendur að námskeiðunum bæði hér á landi og víða annars staðar í heiminum, 50 þúsund þeirra eru virkir í dag. Auk þess að vera notuð í sjálfstýrðu námi eru námskeiðin notuð í skipulögðu námi við Háskóla Íslands og erlenda háskóla þar sem nútímaíslenska er kennd.

 

Icelandic Online er samstarfsverkefni Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

 

Fyrir u.þ.b.fjórum árum kom forsetaskrifstofan þeirri ósk á framfæri við Kristínu Ingólfsdóttur þáv. rektor Háskóla Íslands að námskeiðin yrðu einnig nothæf á nýjum fartækjum, spjaldtölvum og snjallsímum. Það varð fljótt ljóst að til þess að þetta yrði hægt þyrfti að endurforrita námskeiðin. Rektorsskrifstofan lagði fram byrjunarfjárframlag til að sú vinna gæti farið af stað í samvinnu milli verkefnisstjórnar Icelandic Online og tölvunarfræðideildar Háskólans.

 

Endurforritunin hófst fyrir þremur árum og hafa nemar í tölvunarfræði smíðað nýtt forrit fyrir námskeiðin undir leiðsögn Patrick Thomas máltölvunarfræðings sem hefur verið verkefnisstjórninni til ráðgjafar allt frá því að fyrsta Icelandic Online námskeiðið var unnið. Hinn 13. september sl. var fyrsta endurforritaða námskeiðið opnað til almennrar notkunar á Netinu. Þetta námskeið kallast Bjargir (e. survival course) og er ætlað innflytjendum sem eru algjörir byrjendur í íslensku. Nú 23. júní nk. verður opnað annað endurforritað námskeið, Icelandic Online 1: menning.Vinna við að endurforrita önnur námskeið er hafin.

 

Fyrir þremur árum hófst einnig samvinna við Fróðskaparsetrið í Færeyjum um að gera námskeið á Netinu í færeysku. Fyrsta netnámskeiðið í færeysku var opnað 13. september sl. Auk þess hefur hafist samstarf við Helsinkiháskóla um að vinna námskeið í Finnlandssænsku fyrir Netið. Fyrsta netnámskeiðið í Finnlandssænsku verður opnað innan skamms.

 

Auk rektorsskrifstofunnar og þeirra stofnana sem standa að IOL hafa Vinnumálastofnun og Nordplus Voksen og Nordplus Sprog áætlanirnar stutt endurforritun IOL og samstarf verkefnisstjórnarinnar við Fróðskaparsetrið og Helsinkiháskóla.

 

Frekari upplýsingar fást hjá Birnu Arnbjörnsdóttur prófessor í annarsmálsfræðum við Háskóla Íslands í síma 525-4558 (birnaarn@hi.is) eða hjá Úlfari Bragasyni, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í síma 562 6050 (ulfarb@hi.is)

 

  

Sett inn 07.07.2017
Til baka
Deila þessari frétt: Senda frétt Facebook