Nemendur streyma í gegnum sumarnámskeið stofnunarinnar

Í sumar tók 41 nemandi frá 17 löndum þátt í fjögurra vikna námskeiði í íslensku máli og menningu. Nemarnir komu sumir um langan veg eins og frá Hong Kong og Japan og var eftirspurnin eftir að komast á námskeiðið meiri í ár en nokkru sinni fyrr. Allir áttu nemarnir það sameiginlegt að hafa farið í gegnum vefnámskeiðið Icelandic Online I áður en þeir byrjuðu á námskeiðinu.

 

Námið fólst meðal annars í hefðbundinni íslenskukennslu í skólastofum og heimsóknum út fyrir veggi skólans, auk þess sem farið var í tvær ferðir út fyrir borgarmörkin; að Reykholti og á söguslóðir Njálu. Tekið var vel á móti hópnum á Alþingi og í Þjóðminjasafninu. Rithöfundurinn Jónína Leósdóttir hitti einnig nemendurna og sagði frá ritstörfum sínum.

Rithöfundurinn Jónína Leósdóttir sagði nemendum frá störfum sínum.

 

Stofnun Sigurðar Nordals, nú alþjóðasvið Stofnun Árna Magnússonar, hefur séð um framkvæmd sumarnámskeiðanna í íslensku 28 sinnum eða frá árinu 1989 og tóku í ár fjölmargir þátt í uppfræðslunni sem er samstarfsverkefni Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

 

 

Sett inn 14.08.2017
Til baka
Deila þessari frétt: Senda frétt Facebook