Samningur um Orðabók Sigfúsar Blöndals

Íslensk-danskur orðabókarsjóður og Stofnun Árna Magnússonar hafa undirritað samning um að Íslensk-danskri orðabók (Orðabók Sigfúsar Blöndals) verði komið fyrir á vefnum. Vinna hefur staðið yfir undanfarna mánuði við að koma þessu mikla verki í tölvutækt form, og verður það gert leitarbært á sérstakri heimasíðu. Verkið verður fjármagnað af orðabókarsjóðnum og verða ráðnir stúdentar til starfsins.

Ráðgert er að opna orðabókina á vordögum árið 2020, en þá verða hundrað ár liðin frá því að fyrra bindi hennar kom út. Á heimasíðunni verður m.a. hægt að leita eftir uppflettiorðum, notkunardæmum og skammstöfunum fyrir landshluta, og verður þar jafnframt aðgangur að greinum og myndefni um orðabókina og ritstjórn hennar.

Í verkefnisstjórn fyrir hönd Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eru Halldóra Jónsdóttir, Steinþór Steingrímsson og Þórdís Úlfarsdóttir. Formaður Íslensks-dansks orðabókarsjóðs er Guðrún Kvaran. 

 

Myndatexti: Á myndinni eru (f.v.) Steinþór Steingrímsson, Halldóra Jónsdóttir, Guðrún Kvaran, Jón Friðjónsson og Hrefna Arnalds. Þrjú síðarnefndu eru í stjórn sjóðsins. (Mynd: Þórdís Úlfarsdóttir)

 

 

 

Sett inn 17.11.2017
Til baka
Deila þessari frétt: Senda frétt Facebook