Orð ársins valið í þriðja sinn

Orð ársins
Um þessar mundir er verið að kjósa orð ársins 2017. Það eru RÚV, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Mímir, félag stúdenta í íslensku og almennum málvísindum við Háskóla Íslands, sem gangast fyrir kosningunni. Mögulegt er að fletta upp öllum tilnefndum orðum á vefgáttinni málið.is. Tilkynnt verður um niðurstöðu kosningar um orð ársins á þrettándanum 2018.

Nú eru í fyrsta sinn notaðar tölfræðilegar aðferðir við að setja saman lista yfir hugsanleg orð ársins sem almenningur fær síðan að velja úr. Leitað var fanga í nýrri málheild, Risamálheildinni. Skilgreindar voru ákveðnar reglur og smíðað forrit, sem ætlað er að finna þau orð í málheildinni sem eru óvenjuvinsæl á tilteknu ári umfram önnur. Nefnd skipuð fulltrúum Árnastofnunar, RÚV og Mímis valdi svo tíu orð úr stærri lista sem forritið bjó til út frá gögnum ársins 2017.

Risamálheildin verður opnuð í janúar 2018. Hún inniheldur tímasetta texta úr ýmsum áttum með um 1,3 milljörðum orða. Það eru um það bil fimm sinnum fleiri orð en töluð hafa verið á Alþingi frá upphafi og um 1300 sinnum meiri texti en í öllum Íslendingasögunum samanlagt. Risamálheildin verður leitarbær í öflugri málfræðilegri leitarvél og í n-stæðuskoðara. Auk þess verður hægt að hala gögnum málheildarinnar niður á stöðluðu sniði.

 

 

Sett inn 19.12.2017
Til baka
Deila þessari frétt: Senda frétt Facebook