Fræðimenn styrktir af Rannís

Tveir fræðimenn á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fengu samtals ríflega 35 milljónir króna í rannsóknarstyrki til þriggja ára.

Helga Hilmisdóttir, rannsóknarlektor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, fékk styrk til rannsóknar sem ber titilinn: „Íslenskt unglingamál: Rannsókn á samskiptaaðferðum í raungögnum.“ 

Verkefnið snýst um að rannsaka tungumálasamskipti unglinga í menntaskólum. Í þeim tilgangi verða hópsamtöl ungmenna hljóðrituð og síðan skráð og varðveitt í talmálsgagnagrunni stofnunarinnar. Gögnin verða notuð til að rannsaka málfarsleg atriði eins og samskiptamunstur, orðaforða, myndmál, beygingu, setningaskipan og hljómfall. Gögnin verða auk þess aðgengileg fyrirtækjum og stofnunum sem vinna að þróun máltæknitóla. Áhugi Helgu á unglingamáli kviknaði þegar hún var sjálf í námi við háskólann í Helsinki og tók þátt í norrænu verkefni um unglingamál. Rannsóknir út frá raungögnum hafa að mati Helgu orðið brýnni í seinni tíð í framhaldi af aukinni umræðu í þjóðfélaginu um stöðu íslenskunnar. Samverkamenn Helgu í rannsókninni eru þau Ásta Svavarsdóttir, Ásgrímur Angantýsson, Jón Guðnason, Finnur Friðriksson og Sigríður Sigurjónsdóttir.

Þórunn Sigurðardóttir, rannsóknarlektor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, fékk styrk til rannsóknarinnar „Pappírsslóð rakin. Efniviður íslenskra bóka og handrita frá 16. og 17. öld − frá pappírsframleiðslu til bókasafna.“

Verkefnið fellur bæði undir bóksögu og það svið handritafræði sem kallast efnisleg fílólógía (material philology), þar sem augum er ekki beint að textum handrita eða bóka sérstaklega heldur að gripunum sjálfum út frá ýmsum sjónarhornum. Rannsóknin felst í stórum dráttum í því að rannsaka umferð pappírs á 16. og 17. öld, pappírs í íslenskum handritum og bókum prentuðum á Íslandi, sem sumar enduðu í erlendum bókasöfnum. Greiningar og lýsingar á vatnsmerkjum (framleiðslumerki í pappír) og útbreiðsla pappírs og prentaðra bóka er undirstaða rannsóknarinnar. Hvernig barst pappír til landsins og hvaðan? Hvernig dreifðist hann innanlands? Var munur á því hvernig opinberir aðilar öfluðu sér pappírs og notuðu hann og því hvernig einkaaðilar fóru að? Er munur á gæðum pappírs eftir því til hvers hann var ætlaður? Ásamt Þórunni vinna Silvia Hufnagel og Regina Jucknies að rannsókninni í samstarfi við handritadeild Landsbókasafns Íslands og Árnasafn í Kaupmannahöfn. Styrkurinn er til þriggja ára og á því tímabili er áætlað að birta greinar í fræðiritum, standa fyrir ráðstefnu og gefa út greinasafn um efnið.

 

Sett inn 23.01.2018
Til baka
Deila þessari frétt: Senda frétt Facebook