Tímaritið Orð og tunga komið út

20. hefti tímaritsins Orð og tunga (2018), 20. hefti, í ritstjórn Ara Páls Kristinssonar er komið út og það bæði á prenti og í rafrænni útgáfu á vefnum Tímarit.is. 

Í heftinu eru að þessu sinni sjö fræðigreinar, um íslenska orða- og nafnaforðann, beygingar, orðmyndun og merkingu og um viðhorf málnotenda. 

Helgi Skúli Kjartansson fjallar um merkingu og merkingarþróun orðsins sproti og rökstyður að í fornu máli hafi það einkum verið haft um teinunga lauftrjáa sem hefðu verið stýfð. Í greininni er litið til orðsins sprota og samsetninga með -sproti í margs kyns textategundum frá ýmsum skeiðum málsögunnar.

Í grein Katrínar Axelsdóttur um nafnið Þórarinn í þágufalli segir frá því að auk hinnar hefðbundnu þágufallsmyndar, Þórarni, séu aðrar fjórar myndir þekktar. Rannsókn Katrínar leiddi í ljós heimildir um myndina Þórarinum frá um 1700, Þórarin frá síðari hluta 18. aldar, Þórarini frá því um eða eftir miðja 19. öld og Þórarininum frá 20. öld. 

Kendra Willson fjallar um tökuorðið atóm og margs konar orð með það að forlið. Hún nálgast viðfangsefnið sérstaklega í ljósi andrúmsloftsins upp úr síðari heimsstyrjöld þegar kalda stríðið og módernisminn í ljóðlist setti mark sitt á pólitík og menningu. Kendra sýnir m.a. hvernig merkingarvísunin í atóm-samsetningum er frábrugðin því sem tíðkast varðandi nýyrðið og samheitið frumeind. 

Margrét Jónsdóttir greinir frá rannsókn sinni á sagnorðum með viðskeytið -na sem jafnframt hafa fengið viðskeytið -st. Margrét sýnir fjölda dæma úr ýmsum heimildum um slíkar sagnir og þróun þeirra (t.d. brotnast, hlýðnast, meyrnast, molnast, þreknast) og skýrir stöðu viðskeytanna tveggja með tilliti til orðmyndunar, merkingar og notkunar. 

Í annarri grein Margrétar Jónsdóttur segir frá orðinu kýrskýr sem hefur vissa sérstöðu í orðaforðanum bæði orðmyndunar- og merkingarlega. Orðið merkir ýmist ‛heimskur’ (eldri merkingin) eða ‛(afar/mjög) skýr/greinilegur/greinargóður’ (yngri merkingin). 

Matteo Tarsi segir frá myndun og sögu orðsins lögregla. Hann færir rök fyrir því að orðasambandið að halda uppi lögum og reglu liggi þar til grundvallar og rekur orðið til Konráðs Gíslasonar. Matteo lýsir þróuninni hvað varðar orðmyndun og merkingu og setur hana meðal annars í samhengi við tökuorðið pólití. Hann rökstyður að orðið lögreglumaður hafi verið stytt í lögregla og að síðar hafi lögregla einnig fengið merkinguna ‘lögreglustofnun’. 

Grein Stefanie Bade fjallar um rannsókn sem hún gerði á viðhorfum Íslendinga til þeirra sem tala íslensku með erlendum hreim. Stefanie beitti hulinsprófi (e. verbal guise technique) til að leiða í ljós viðhorf hinna íslensku þátttakenda. Rannsóknin leiddi margt forvitnilegt í ljós. Meðal annars benda niðurstöður hennar til þess að Íslendingar gefi fólki jákvæðari einkunnir fyrir persónueinkenni (t.d. sjálfstæð, greind, aðlaðandi o.fl.) ef þeir tengja hinn erlenda hreim þess við nálæg („vestræn“) lönd heldur en þegar hreimurinn var talinn tengjast Austur-Evrópu og Asíu.

Vakin er athygli á því að hér má finna efnisyfirlitið og útdrætti greinanna, bæði á íslensku og ensku.

Stefnt hefur verið að því að birta í Orði og tungu ritdóm um nýlega orðabók eða annað viðamikið orðfræðilegt eða málfræðilegt verkefni í hverjum árgangi eða því sem næst. Að þessu sinni skrifar Helga Hilmisdóttir ritdóm um Íslenskt orðanet Jóns Hilmars Jónssonar sem var opnað á vefnum á síðari hluta árs 2016. Eins og Helga segir í ritdómnum er hér um að ræða margþætt verk með ógrynni upplýsinga um orðasambönd í íslensku og um íslenska málnotkun.

Frá og með 18. árgangi var tekinn upp sérstakur þáttur, Málfregnir, aftast í tímaritinu sem ætlaður er styttri greinum um hagnýtta íslenska málfræði. Ágústa Þorbergsdóttir segir í þessu hefti frá ritröðinni Íðorðarit Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Ágústa hefur stýrt ritröðinni frá upphafi og átt samvinnu við höfunda og ritstjóra úr röðum fræðimanna í viðkomandi sérgreinum. Íðorðaritin eru í senn prentuð og aðgengileg á vefnum. Fram kemur í grein Ágústu að háskólanemar séu helsti markhópur þeirra íðorðarita sem komin eru út í ritröðinni.

Þeim áfanga var náð 2017 að allir árgangar Orðs og tungu frá upphafi eru nú aðgengilegir á Tímarit.is, vef Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Ef slegið er inn „Orð og tunga“ í leitarglugga á Tímarit.is birtast umsvifalaust tenglar sem vísa á rafrænar gerðir allra útgefinna árganga tímaritsins. Einnig er einfalt að slá inn t.d. streng á borð við „Orð og tunga 2017“ í því skyni að finna tengil á það tiltekna hefti, þ.e. nr. 19 (2017). Leit má þrengja enn frekar ef vill; t.a.m. mætti slá inn strenginn „Haraldur Bernharðsson 2017“ og er þá komin tenging beint í grein höfundarins í árgangnum 2017. 

 

Sett inn 02.05.2018
Til baka
Deila þessari frétt: Senda frétt Facebook