Bókmenntasaga Jóns Ólafssonar kemur út í fyrsta sinn á prenti

Bókmenntasaga Jóns Ólafssonar úr Grunnavík er í hópi fyrstu íslensku bókmenntasagnanna og kynnir hún lesendum hugmyndir 18. aldar manna um bókmenntir. 

Þórunn Sigurðardóttir rannsóknarprófessor og Guðrún Ingólfsdóttir fræðimaður hafa frá árinu 2002 unnið að útgáfu á bókmenntasögu Jóns Ólafssonar úr Grunnavík. Verkið er komið út og fær nánari kynningu ásamt öðrum bókmenntasögum 18. aldar laugardaginn 8. september kl. 13.30 í Þjóðarbókhlöðunni.

Árið 1985 gaf Jón Samsonarson út rithöfundatal Páls Vídalíns á vegum Árnastofnunar sem fyrsta bindi í ritröðinni Íslensk bókmenntasögurit. Bókmenntasaga Jóns úr Grunnavík er annað bindið í þessari ritröð og hófust Guðrún og Þórunn handa við útgáfuna árið 2002 að áeggjan Sverris Tómassonar. Þær unnu að útgáfunni með mislöngum hléum og fyrir styrki frá ýmsum aðilum. Nú eru í bígerð, og vel á veg komnar, tvær aðrar bókmenntasögur, Sciagraphia Hálfdanar Einarssonar og bókmenntasaga Jóns Þorkelssonar skólameistara.

Bókmenntasagan er í raun drög en ekki fullbúið verk frá hendi Jóns. Hann var lengi að viða að sér efni og sífellt að bæta við utanmálsgreinum og klausum. Tildrög þess að Jón fór að vinna að bókmenntasögu eru þau að danski fræðimaðurinn Albert Thura, sem hafði gefið út danska bókmenntasögu árið 1723, bað Jón árið 1738 um að skrifa pósta um íslensk skáld og fræðimenn. Ætlaði Thura að fella frásögn Jóns inn í rit sem hann hafði í smíðum. Thura entist ekki aldur til að ljúka verkinu en Jón hélt áfram vinnu að íslenskri bókmenntasögu.

Bókmenntasögudrög Jóns eru skrifuð á þremur tungumálum, dönsku, íslensku og latínu. Hjalti Snær Ægisson var fenginn til að þýða latínuklausurnar. Líkt og í stíl lærðra manna á þessum tíma er töluvert af latínu- og dönskuslettum í íslenska textanum. Danski hlutinn er þó ef til vill latínumengaðri en sá íslenski. Þrátt fyrir þetta er textinn læsilegur og vel skiljanlegur.

Það sem gerir bókmenntasöguna m.a. áhugaverða eru viðhorf Jóns til skálda og fræðimanna fyrri tíma og hugmyndir hans um bókmenntir og þýðingar. Hann studdist við ritaðar heimildir en einnig við munnmæli, þjóðsögur og eigin vitneskju og skoðanir á mönnum og málefnum. Jón segir einnig ýmsar skemmtilegar sögur sem hvergi er að finna annars staðar, svo vitað sé. Einstakt við bókmenntasöguna er kafli um skáldkonur og lærðar konur á Íslandi. Aldrei áður hafði konum verið úthlutaður sérstakur kafli í slíku riti hér á landi, og alllöng bið varð á því að fjallað væri aftur um konur í íslenskri bókmenntasögu. Fyrirmynd Jóns að kvennabókmenntasögunni er rit sem Albert Thura gaf út árið 1732 um danskar lærdómskonur: Gynæceum Daniæ Litterarum.

Fyrir þá sem hafa áhuga á bókmenntum fyrri alda er bókmenntasaga Jóns Ólafssonar úr Grunnavík gullnáma.

Þórunn Sigurðardóttir rannsóknarlektor við Stofnun Árna Magnússonar.

Guðrún Ingólfsdóttir. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir

 

Sett inn 31.08.2018
Til baka
Deila þessari frétt: Senda frétt Facebook