Einar Freyr Sigurðsson hefur störf á orðfræðisviði

Einar Freyr Sigurðsson hefur verið ráðinn rannsóknarlektor á orðfræðisviði stofnunarinnar. 

Einar lauk doktorsprófi árið 2017 frá University of Pennsylvania í Bandaríkjunum og hefur síðan starfað sem nýdoktor í rannsóknarverkefninu Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis, sem stýrt er af Sigríði Sigurjónsdóttur og Eiríki Rögnvaldssyni.

Einar hefur einkum fengist við setningafræði í rannsóknum sínum en einnig orðhlutafræði, þá einna helst notkun ýmissa forskeyta og viðskeyta í íslensku. Hann tók þátt í gerð Sögulega íslenska trjábankans (IcePaHC) ásamt Joel Wallenberg, Antoni Karli Ingasyni og Eiríki Rögnvaldssyni og var, ásamt Ásgrími Angantýssyni, aðstoðarritstjóri þriggja binda verks um Tilbrigði í íslenskri setningagerð sem Höskuldur Þráinsson ritstýrði og kom út á árunum 2013–2017. Þá er hann nýtekinn við sem einn þriggja ritstjóra tímaritsins Íslensks máls, ásamt þeim Ástu Svavarsdóttur og Þórhalli Eyþórssyni.

Einar hóf störf 1. október og hefur vinnuaðstöðu á Laugavegi 13. Hann er boðinn velkominn í starfsmannahópinn.

 

 

Sett inn 09.10.2018
Til baka
Deila þessari frétt: Senda frétt Facebook