Árna Magnússonar fyrirlestur Þorleifs Haukssonar nálgast

Í ár flytur Þorleifur Hauksson íslenskufræðingur fyrirlestur á afmælisdegi Árna Magnússonar. Viðburðurinn verður í Norræna húsinu þriðjudaginn 13. nóvember kl. 17.
Fyrirlesturinn nefnist: „Hugleiðingar og reynslusögur um mismunandi útgáfur íslenskra fornrita“ og er öllum opinn. Að honum loknum verður boðið upp á léttar veitingar.

Þorleifur veitti stutt viðtal um aðdraganda þess að hann valdi að fjalla um mismunandi útgáfur og notast í þeim efnum við eigin reynslu af því starfi að gefa út forna texta:

„Ég ætla að byrja á að fara hálfa öld aftur í tímann, allt aftur til þess tíma er ég var í námi og fékk mína fyrstu reynslu af útgáfu forntexta. Þaðan mun ég leiða hugann að mismunandi útgáfuformum, svokölluðum undirstöðuútgáfum sem Árnastofnanirnar standa að, útgáfum Fornritafélagsins og alþýðlegri útgáfum og ræða kosti og galla hverrar fyrir sig. Síðan víkur sögunni aðeins að nýju textafræðinni. Í ljósi þessa alls mun ég síðan fjalla um eigin reynslu innan tveggja fyrrnefndra útgáfuaðferða og út frá sögulegri og nýrri textafræði, og hallast eðli málsins samkvæmt meira að hinni sögulegu.

Varstu strax að námi loknu ákveðinn í að gera útgáfu forntexta að þínum starfsvettvangi?

Fyrsta útgáfuverkefni mitt, Árna saga biskups, var jafnframt lokaverkefni mitt til kandídatsprófs. Sú vinna tók sjö ár. Ég hefði sjálfsagt gefist upp á miðri leið og valið mér einfaldara verkefni í nútímabókmenntum ef Jónas Kristjánsson hefði ekki skorist í leikinn á ögurstundu. Svo hafði það líka talsvert að segja hvað andinn var skemmtilegur og nærandi á stofnuninni og kaffistofunni. En ég var harðákveðinn í að ég mundi aldrei aftur gefa út forna texta. Það gerðist þó þrjátíu árum seinna, aftur fyrir tilstuðlan Jónasar Kristjánssonar, sem fór þess á leit að ég gæfi út Sverris sögu í Íslenskum fornritum. Þá hafði ég lokið við að skrifa Íslenska stílfræði á styrk frá sjóði Þórbergs og Margrétar og hafði slæma reynslu af því að sækja um Rannís-styrki til að skrifa framhaldið. Þannig að mig vantaði hreinlega verkefni til að framfleyta mér. Þegar ég kynntist texta Sverris sögu varð ég líka fljótlega hugfanginn af henni, sem ég hafði satt að segja aldrei lesið fyrr. Sérstaklega vöktu athygli mína ræður Sverris, sem augljóslega eru skrifaðar af miklum mælskusnillingi sem kunni einstaklega vel að leggja konungi sínum orð í munn og eru einstæðar í fornbókmenntunum. Ég gekk upp í verkinu, endurgerði textann, þóttist gefa út eldri og upprunalegri texta en aðrir höfðu gert og þóttist líka komast að ýmsu sem öðrum hefði yfirsést! Mér fannst að verkinu loknu blasa við að sagan hefði verið skrifuð af einum manni, að vísu á mismunandi tímabilum og með mismunandi aðgangi að heimildum. Síðan hef ég gefið út Böglunga sögu og Hákonar sögu í Íslenskum fornritum, og Jómsvíkinga saga er tilbúin til prentunar.

Hvernig sérðu fyrir þér nýliðun í handritafræði á komandi árum?

Eitt af því sem ég reyndi að kanna við undirbúning þessa fyrirlestrar var hvernig menntunin í íslenskum fræðum hefur breyst. Sjálfur er ég alinn upp í þessum gamla geirfuglastíl þar sem greinin var fyrst og fremst þríein, samanstandandi af íslenskri tungu, bókmenntum og sagnfræði. Ég hafði að vísu svo góðan tíma samhliða þessari langdregnu vinnu við Árna sögu að ég sleppti sagnfræðinni og tók þrjú stig í latínu í staðinn. Mér finnst mikilvægt að nemendur geti tengt saman nám í bókmenntum og málfræði, en er hræddur um að möguleikar á slíku séu of takmarkaðir. Ég mæli alls ekki í móti núverandi valfrelsi í bókmenntanáminu, en þessi valkostur ætti líka að vera tiltækur, til dæmis fyrir þá sem vildu leggja stund á textafræði og útgáfu fornrita.

Er fyrirlesturinn skrifaður fyrir einhvern ákveðinn hóp hlustenda?

Þetta er fyrirlestur sem er fyrir alla sem hafa áhuga á bókmenntum og útgáfum á fornum textum. Fólk þarf ekki að vera neitt innvígt eða innmúrað til að skilja hann.

 

 

Sett inn 07.11.2018
Til baka
Deila þessari frétt: Senda frétt Facebook