Vefur um lifandi hefðir er opinn öllum

Þann 19. desember síðastliðinn var nýr vefur um lifandi hefðir opnaður formlega af mennta- og menningarmálaráðherra. Vefurinn var unninn af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Umsjón með verkefninu hafði Vilhelmína Jónsdóttir lögfræðingur og þjóðfræðingur. Webmo design sá um vefsmíði. Vefurinn er hluti af ráðstöfunum íslenska ríkisins við innleiðingu á samningi UNESCO frá árinu 2003 um varðveislu menningarerfða, sem öðlaðist gildi hér á landi árið 2006.

Með fyrrnefndum samningi UNESCO er kastljósinu beint að hinu óáþreifanlega í menningunni, þ.e. að handverki, kunnáttu og ýmiss konar iðkun sem í felst verðmætri þekkingu sem kann að vera mikilvægt að viðhalda og varðveita. Tilgangurinn með þessum vef er að efla vitund og virðingu fyrir ólíkri menningu og skapa aukna þekkingu og samtal um menningararf.

Á vefnum gefst einstaklingum og hópum tækifæri til að miðla þekkingu sinni á lifandi hefðum. Þannig verður til upplýsingabanki um fjölbreyttar hefðir, sem sumar hverjar eiga sér langa sögu á meðan aðrar eru nýrri af nálinni, sem stundaðar eru hérlendis af ólíkum hópum. Vefurinn er nú opinn almenningi, jafnt til þátttöku með því að deila þekkingu sinni sem og að kynna sér það efni sem er að finna á vefnum. Vefinn má finna á slóðinni https://lifandihefdir.is og eru áhugasamir hvattir til þátttöku.

 

Sett inn 20.12.2018
Til baka
Deila þessari frétt: Senda frétt Facebook