Orð ársins 2018 er......

Orð ársins 2018 er......

Á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er textum safnað og þeir notaðir í rannsóknum á máli og málfræði og við þróun máltæknibúnaðar. Við val á orði ársins 2018 byggði stofnunin á upplýsingum í þessum textasöfnum um notkun orðanna. Orðin sem koma til greina þurfa að hafa verið notuð meira á árinu en undanfarin ár en að auki að uppfylla einhver af eftirfarandi skilyrðum:

  • Þau eru ný í málinu eða gömul orð sem fengið hafa nýja merkingu.
  • Þau segja okkur eitthvað um samtímann eða samfélagsumræðuna.
  • Þau hafa möguleika á að lifa áfram í daglegri notkun eða sem minnisvarði um atburði sem áttu sér stað á árinu.
  • Þau eru lýsandi fyrir málnotkun, annaðhvort almennt eða á tilteknu sviði.

Kallaðir voru fram listar úr gagnasöfnum okkar yfir orð sem uppfylla þessi skilyrði. Þau voru skoðuð betur og búinn til tólf orða listi, með skýringum, sem hefur verið birtur á vef Árnastofnunar.

Sagnorðið plokka var valið úr þessum lista sem orð ársins 2018. Það fellur vel að öllum viðmiðum okkar um orð ársins. Þetta er gamalt orð sem fengið hefur nýja merkingu en er um leið tökuorð úr erlendu máli. Þeir sem plokka tína upp rusl meðan skokkað er eða gengið. Þannig sameinar fólk áhuga á umhverfisvernd og heilsusamlegu líferni. Siðurinn á rætur að rekja til Svíþjóðar en þar í landi kallast þetta plogga og er orðið myndað af  plocka (‚tína upp‘) og jogga (‚skokka‘). Plokk komst í hámæli á fyrri hluta ársins 2018 og var mikið iðkað um sumarið. Á Facebook var stofnaður hópurinn Plokk á Íslandi þar sem meðlimir deila myndum og sögum úr plokkinu.

Plokka er gamalt orð sem notað hefur verið í ýmsu samhengi. Oftast hefur það merkinguna ‚reyta‘, t.d. fiður, augabrúnir eða jafnvel peninga af öðrum. Það getur merkt að hreinsa eitthvað úr einhverju og áhugamenn um tónlist þekkja margir strengjaplokk. Þessi nýja merking orðsins fellur því vel að eldri merkingu og rímar þar að auki við skokkið sem margir plokkarar stunda.

Vandræðaskáld tilkynna um orð ársins 2018. Ljósmynd: Ragnar Visage

Tilkynnt var um öll orð ársins 2018 á viðburði í Efstaleiti 1 föstudaginn 4. janúar. Það voru Vandræðaskáldin að norðan sem ófu orðin inn í kveðskap og tilkynntu þannig um þau orð sem stóðu upp úr.

Orðin sem netnotendur á ruv.is völdu sem orð ársins 2018 eru í tveimur flokkum: 

Orð ársins: kulnun

Nýyrði ársins:  klausturfokk

 

 

Sett inn 04.01.2019
Til baka
Deila þessari frétt: Senda frétt Facebook