Málheimar veita innsýn í stöðu tungumála heimsins
Ari Páll

Í sumar kom út hjá Háskólaútgáfunni bókin Málheimar eftir Ara Pál Kristinsson rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Ari hefur um áratuga skeið skoðað og starfað í námunda við málstefnur, málstýringu og málrækt og hefur því góða innsýn í marga málheima.
Ari Páll svaraði nokkrum spurningum um útgáfuna.

 

Hvers vegna skrifaðirðu bókina Málheima?

Ég hef undanfarin allmörg ár lesið töluvert um og hugleitt málstefnu í fremur víðum skilningi og ekki einvörðungu með íslensku og íslenskt málsamfélag í huga. Jafnframt hef ég birt greinar og bókarkafla hér og þar um efnið. En þá hef ég skrifað út frá mismunandi sjónarhornum og að talsverðu leyti á ensku og skandinavískum málum og oft fyrir aðra lesendur en Íslendinga. Um nokkurra ára skeið gekk ég með þá hugmynd í maganum að tímabært væri að koma þessum fróðleik og hugleiðingum um efnið á framfæri eftir bestu getu í aðgengilegum texta handa íslenskum stúdentum og almenningi.

Menn eru oft heldur þungbúnir þegar staða íslenskunnar er rædd, en tónninn í þinni bók er mun bjartari. Hvaða augum lítur þú íslenskt mál í dag?

Því má ekki gleyma að íslenska hefur aldrei áður verið notuð á jafn mörgum sviðum og í dag og hún er opinbert tungumál sjálfstæðs og vel megandi þjóðríkis. Hin opinbera staða hennar hér er ekki bara táknræn eða upp á punt heldur hefur inntak: stjórnsýsla, lagasetning, dómar, menntun, fjölmiðlun o.s.frv. fer í raun og sann fram á íslensku -- þótt enska sé vissulega sums staðar ekki langt undan. Aðalatriðið er að íslenska er lifandi samskiptamál og stjórnsýslumál. Hinu má ekki loka augunum fyrir að heimurinn breytist geysihratt og ég held að nauðsynlegt sé að taka þá alvarlega sem benda á að framtíð íslenskunnar gæti verið stefnt í voða ef hún verður ekki tiltæk og notuð í tækjum og tólum sem byggjast á tungumáli.

Hvað gagnast tungumálum sem eru í baráttu við alheimsmálið ensku?

Listsköpun, fræðistörf, kennsla, upplýsingamiðlun hvers konar á öðrum tungumálum en ensku er nauðsynleg forsenda þess að þau eigi möguleika á að standa henni á sporði. En þetta er ekki nægileg forsenda. Ef almenningur sýnir því fálæti sem borið er á borð af innlendum skáldskap, bíómyndum o.s.frv. þá er kannski til lítils unnið. Það sem gagnast tungumálum andspænis ensku er því fyrst og fremst það hugarfar eða málhugmyndafræði að taka afstöðu með heimamálinu í daglegri málhegðun.

Þarf að styrkja lagaumhverfi íslenskunnar?

Margs konar lög eru þegar í gildi til stuðnings íslenskunni, þá fyrst og fremst Lög um stöðu íslenskrar tungu en einnig eru ákvæði í neytendalöggjöf og víðar. Og ekki má gleyma ítarlegri og vandaðri íslenskri málstefnu frá 2009, málstefnum háskólanna og nú nýlega var boðað að Reykjavíkurborg hygðist setja sér málstefnu. Vandinn er kannski heldur fólginn í því hvernig gildandi stefnumörkun og löggjöf er fylgt, fremur en að þörf sé endilega á frekari lagasetningu. Það hljóta nú að vera einhverjar skorður á því hve langt er hægt að ganga í því að mæla fyrir um málhegðun með lögum. Aðalatriðið er jú að fólk almennt hafi áhuga á að nota íslenskuna og sjái að hún skipti máli í daglegu lífi og fyrir menningu okkar hér í þessu landi.

Geturðu nefnt dæmi um tilhneigingar í máli sem hafa lagast af sjálfu sér, án mikillar stýringar?

Mál og málnotkun breytist óhjákvæmilega með tímanum, það liggur í hlutarins eðli, en síðan koma til félagslegir kraftar eða viðmið og hafa mögulega áhrif á það a.m.k. að einverju leyti hvort eða hvernig nýjungar í máli skila sér í málnotkun, hvort þær breiðast út um allt málsamfélagið og hversu sýnilegar þær verða í textum sem hafa verið undirbúnir og teljast til vandaðra málsniða.

Víða er það almennt viðhorf í málsamfélögum að málbreytingar séu heldur til bölvunar. Þetta er m.a. meðal einkenna á íslensku málsamfélagi og átti ekki síst við frá því um miðja 19. öld en viðhorfið á sér þó mun eldri rætur í okkar málmenningu. Og hér er fyrst og fremst litið á samfellu í rituðu máli, að hún rofni ekki illlega.

Ég hef verið hallur undir þann skilning á málstefnuhugtakinu að það taki til þriggja meginstoða, þ.e. málviðhorfa, málhegðunar og loks málstýringar. Og málstýringin getur orðið með ýmsu móti og þarf ekki endilega til eitt ákveðið yfirvald (t.d. málnefndir eða akademíur sem þekkjast víða um heim). Málstýrendur eru m.a. kennarar og foreldrar.

Ef viðmiðin í málsamfélaginu eru á þá leið að t.d. fleirtalan af læknir skuli vera læknar en ekki læknirar, t.d. vegna þess að þannig hafi beygingin verið í fyrirmyndartextum fyrri alda, þá er kominn mikilvægur jarðvegur fyrir leiðbeiningar í þeim anda.

Enda þótt ekki sé hægt að "skipta um móðurmál í fólki" ætti að vera gerlegt með kennslu og leiðbeiningum að telja fólk á þá skoðun að sum málnotkun teljst betur við hæfi en önnur t.a.m. í formlegum textum, vönduðu ritmáli og víðar. Hér er árangursríkast, hygg ég, að leiða fólki fyrir sjónir hvernig viðmið stjórna málhegðun okkar og að skilgreiningin á svokölluðu réttu og röngu máli sé í raun og veru reist á viðmiðum um hvað talið er við hæfi í tilteknum samskiptaaðstæðum og tilteknum textum.

 

 

Sett inn 27.09.2017
Til baka