Leiðbeiningar um leit í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans

Upphafsvalmynd

Í upphafsvalmynd birtist leitargluggi þar sem notendur slá inn orðið sem þeir vilja fá vitneskju um og smella síðan á "Leita".

Þannig er búið um safnið að einungis er hægt að leita að heilum orðum. Leitað er að hefðbundinni uppflettimynd orðs eins og hún birtist venjulega í orðabókum, t.d. nefnifalli eintölu af nafnorðum, nafnhætti sagna o.s.frv.

Ritháttur uppflettimynda er að jafnaði staðlaður miðað við nútímamál. Ritháttur orða getur í sumum tilvikum verið á reiki og fleiri en ein ritmynd komið til greina. Það getur t.d. átt við um gömul og ný tökuorð, orð sem einkum eru notuð í talmáli, mjög sjaldgæf orð, orð þar sem fleiri en ein stafsetning kemur til greina o.fl. Ef leit að slíkum orðum ber ekki árangur í fyrstu atrennu er notendum því bent á að endurtaka hana með öðrum rithætti uppflettiorðsins.

Niðurstaða leitar

Niðurstöðurnar birtast í tvískiptum glugga:


  • Til vinstri birtist samfelldur orðalisti í stafrófsröð með leitarorðinu ásamt þeim orðum í safninu sem standa næst á undan því og eftir. Allur listinn er virkur til frekari leitar þannig að ef smellt er á eitthvert hinna orðanna í honum birtast upplýsingar um það orð.
  • Hægra megin við orðalistann birtast upplýsingar um leitarorðið. Auk málfræðilegra upplýsinga um orðflokk og kyn nafnorða kemur fram frá hvaða tímabili dæmi eru um orðið og úr hvaða heimild elsta dæmið í safninu er fengið auk upplýsinga um fjölda dæma sem tiltæk eru í gagnasafninu.

Aldur dæma er táknaður með tölu sem sýnir öldina (t.d. 19 = 19. öld) ásamt bókstaf sem sýnir frá hvaða hluta viðkomandi aldar dæmið er. Hverri öld er skipt í þriðjunga (f = fyrsta þriðjungur aldar;  m =  miðbik aldar; s = síðasta þriðjungur aldar). Með 20m er þá t.d. átt við miðbik 20. aldar, þ.e.a.s.  tímabilið 1934–1967. Þegar heimildin sem dæmið kemur úr spannar lengra tímabil eða ef óvíst er um nákvæma tímasetningu eru notaðar samtengdar skammstafanir (t.d. 19fm = fyrsti þriðjungur og/eða miðbik 19. aldar; 19s20f = síðasti þriðjungur 19. aldar og/eða fyrsti þriðjungur 20. aldar).

Heimildartilvísanir byggjast á skammstöfunum. Skýring á þeim fæst með því að smella á skammstöfunina.

Dæmafjöldinn sem tilgreindur er vísar til þeirra dæma sem tiltæk eru í gagnasafni og notendur hafa beinan aðgang að á vefsíðunni. Í sumum tilvikum geta verið fleiri dæmi í seðlasafninu og ef fjöldi dæma er ekki tilgreindur þýðir það að um orðið er a.m.k. eitt notkunardæmi á seðli.

Úr glugganum með niðurstöðum leitar má kalla fram dæmin um leitarorðið á tvennan hátt.


  • Ef smellt er á "Sjá dæmi" birtast öll tiltæk dæmi um orðið
  • Ef smellt er á "Sjá orðmyndir í dæmum" birtist yfirlit um þær myndir orðsins sem koma fyrir í dæmasafninu
Dæmi

Þegar smellt hefur verið á "Sjá dæmi" birtast öll tiltæk dæmi um orðið í aldursröð. Hver síða takmarkast við 100 dæmi og séu dæmin fleiri en það er flett með því að smella á "Næsta síða".

Efst til hægri er gefinn kostur á að endurraða dæmunum. Um þrenns konar röðun er að ræða:


  • Aldursröð með elsta dæmið fyrst og það yngsta síðast
  • Stafrófsröð eftir undanfarandi orði, þ.e.a.s. orðinu sem stendur næst á undan leitarorðinu
  • Stafrófsröð eftir eftirfarandi orði, þ.e.a.s. orðinu sem stendur næst á eftir leitarorðinu

Síðari tveir valkostirnir eru gagnlegir til að fá yfirsýn yfir samstæð dæmi ef verið er að huga að umhverfi leitarorðsins. Röðun eftir undanfarandi orði getur t.d. átt vel við þegar leitarorðið er nafnorð og verið er að athuga lýsingarorð eða forsetningar sem með því standa. Röðun eftir eftirfarandi orði er hins vegar oft hentug þegar leitarorðið er lýsingarorð eða sögn.

Neðst á dæmasíðunni er leitargluggi með fyrirsögninni "Takmarka listann við dæmi sem innihalda:"
Þar má leita að tilteknum stafastreng (orði, orðmynd eða orðhluta) í dæmasafni orðsins. Hægt er að leita að fleiri en einum stafastreng í einu og eru strengirnir þá aðgreindir með kommu. Þegar smellt er á "Leita" birtast einungis þau dæmi um orðið þar sem viðkomandi strengur kemur fyrir.

Undir fyrirsögninni "Heimild" er vísað til heimildar dæmisins, sem skýrist nánar ef smellt er á skammstöfunina. Þar kemur einnig fram aldur dæmisins tilgreindur á sama hátt og í niðurstöðuglugganum.

Orðmyndir

Sé smellt á "Sjá orðmyndir í dæmum" í niðurstöðuglugganum birtist yfirlit um þær orð- og ritmyndir af leitarorðinu sem koma fyrir í dæmasafninu. Þar koma einnig fram upplýsingar um fjölda dæma með hverri mynd og tímabilið sem þau spanna.

Í sumum tilvikum eru tilgreindar tvenns konar myndir í yfirlitstöflunni, ritmyndir og orðmyndir:

  • Ritmyndir eru stafréttar myndir eins og þær birtast í heimildinni og í dæmasafninu
  • Orðmyndir eru staðlaðar myndir þar sem rithátturinn er samræmdur að nútímahætti

Oft fara ritmynd og orðmynd saman, t.d. í yngri dæmum, en í öðrum tilvikum eru þær ólíkar. Einni staðlaðri orðmynd geta því tengst tvær eða fleiri ritmyndir. Athygli er vakin á því að samræmingu er ekki lokið og er því víða aðeins um ritmyndir að ræða í yfirlitinu.

Orð- og ritmyndir í yfirlitinu eru virkar og ef smellt er á tiltekna mynd birtast þau dæmi um leitarorðið þar sem viðkomandi mynd kemur fyrir.