Um Ritmálssafn Orðabókar Háskólans

Safnið spannar tímabilið frá 1540 til nútímans. Gagnasafnið geymir upplýsingar um öll orð í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans auk notkunardæma um flest þeirra. Auk þess eru þar upplýsingar um heimildirnar sem dæmin eru sótt til. Alls eru í safninu yfir 600 þúsund uppflettiorð og dæmafjöldinn er um 2 milljónir.

Um hvert uppflettiorð eru eftirtaldar upplýsingar:

  • orðflokkur og auk hans kyn nafnorða
  • tímabilið sem dæmin spanna sem sýnt er með aldri elsta og yngsta dæmisins í safninu
  • dæmafjöldi í gagnasafni

Ef fjöldi dæma kemur ekki fram þýðir það að engin dæmi séu tiltæk á vefnum en að í seðlasafni sé a.m.k. eitt dæmi um viðkomandi orð, stundum fleiri.

Í flestum tilvikum er hægt að sjá notkunardæmi um orðið í gagnasafninu. Þó hafa dæmi ekki verið skráð í gagnasafn þegar einungis er til eitt eða mjög fá notkunardæmi um orðið. Einnig vantar talsvert af dæmum úr bundnu máli í gagnasafnið. Heimildarskammstöfun er tilgreind með hverju dæmi og safnið geymir nánari upplýsingar um allar heimildir sem dæmin er fengin úr.

Seðlasafnið er varðveitt í húsakynnum stofnunarinnar á Neshaga 16, efstu hæð. Þangað verða notendur að sækja til að skoða dæmi sem ekki hafa enn verið skráð í gagnasafn.