Gerður Kristný: Guðir og girnd

Sigurðar Nordals fyrirlestur
14. september, kl. 17.00, 2010
Norræna húsinu

 

Mér finnst ég hafa verið að yrkja bálkinn Blóðhófni frá því ég var barn. Fyrsta vísan sem ég samdi sækir einmitt efni sitt í norrænu goðafræðina. Hún er á þessa leið:

Óðinn hét karl einn
guð hann var.
Í Ásgarði bjó hann
hann réði þar.

Þetta skrifaði ég í stílabók og teiknaði mynd við af Óðni á Sleipni, köngulhrossinu sínu. Ég hafði verið að lesa norræna goðafræði í Íslandssögutímum í Álftamýrarskóla og var heilluð. Bókin sem kennd var í þessum tímum var Íslandssaga I eftir Jónas Jónsson frá Hriflu með teikningum Halldórs Péturssonar en líka þremur vatnslitamyndum eftir Collingwood. Einhverjum hefur þótt viðeigandi að nota myndirnar hans úr Íslandsförinni árið 1897 um Fljótshlíðina, Þingvelli og Odda á Rangárvöllum, enda hafi hann verið svo mun nær Hallgerði og Gunnari og Njáli í tíma en við nútímafólkið. Grasið þar sem Gunnar sneri aftur var eflaust enn bælt eftir hófana á hesti hans og brunalyktin í loftinu við Bergþórshvol.

Ég lagði orð Jónasar á minnið: „Óðinn var yfirguð”. Um Frey segir Framsóknarmaðurinn þetta: „Freyr var búnaðarguð. Hann réð fyrir regni og skini sólar og öllum jarðargróða.“

Um systur hans segir aðeins þetta: „Freyja var ástargyðja.“ Hún og Frigg eru einu gyðjurnar sem nefndar eru. Ekki einu sinni Iðunn fær inni og hefur hún þó sjálfa eilífðina á sinni könnu. Um jötunmeyna Gerði Gymisdóttur segir vitaskuld ekki neitt. Jónas fjallar aðeins um sköpun heimsins, þá atburði þegar Loki lét Höð koma Baldri fyrir kattarnef og síðan dembdi hann Ragnarökum yfir okkur skólabörnin. „Baldur kemur aftur frá Hel og fleiri guðir og réttlátir menn, – og þaðan af er enginn endir á sælunni í heiminum.“ Svona miðað við kjarnorkustríðið sem sífellt var verið að hóta okkur krökkunum með í bernsku voru ragnarrök ósköp heimilisleg.

Meira varð ég að vita um norrænu goðin og sótti mér þá þekkingu í bókina Goð og garpa eftir Brian Branston í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar. Síðar hnaut ég um teiknimyndasögur Danans Peter Madsen um Goðheima. Fyrsta bókin, Úlfurinn bundinn, var gefin út aftur í fyrra – mér til mikillar gleði. Í bókum Peters eru norrænu guðirnir svo býsna fyndnir, klaufalegir en líka hyggnir. Ein bókanna í Goðheimaflokknum, Muren, fjallar einmitt um Frey og Gerði. Þar sendir Freyr hann Þjálfa eftir henni, ekki á Blóðhófni, heldur Sleipni.

Áhuginn á goðafræðinni minnkaði ekki með aldrinum og í tímum í almennri bókmenntafræði í Háskólanum opnuðust augu mín ekki aðeins fyrir öllu því sem þegar hafði verið skrifað, heldur líka öllu því sem átti eftir að skrifa. Þarna naut ég til dæmis leiðsagnar Helgu Kress og mér fannst það sem hún hafði fram að færa ákaflega merkilegt, til dæmis um horfnu konurnar í bókmenntasögunni, bæði þær sem skrifuðu og þær sem skrifað var um. Svo hófst ég handa við skriftirnar.

Vorið 1994 kom fyrsta bókin mín út, ljóðabókin Ísfrétt. Þar eru 20 ljóð. Eitthvað var gagnrýnandi Morgunblaðsins ósáttur við að þau væru ekki fleiri og kvað þetta vera ljóðabókaútgáfu „á tæpasta vaði“. Í Ísfrétt getur að líta þetta ljóð:

   Til Skírnis

Skýjum rakað í flekki
á nýjum næturhimni
orð þín standa ótta
fyrir svefni

harða ber ég hefnd
fyrir höfuð mér
en galdurinn fleygar úr mér.

Rokið rifjar flekkina
og dagur fellur að fótum þér.

Dauðan lít ég svip minn
í sverði þínu.


Í þetta ljóð vitna ég í Blóðhófni en þarna var ég strax farin að velta því fyrir mér hvernig það hefði verið að standa í sporum jötunmeyjarinnar Gerðar þegar Skírnir birtist í Jötunheimum og krefst þess að hún komi með honum til Ásheima. Í ljóðinu langar Gerði til að berjast gegn honum en eins og þar segir fleygar galdurinn úr henni. Hún er borin ofurliði. Hún sér spegilmynd sína í sverðinu, sem Skírnir fær fyrir sendiförina, og veit að baráttan er töpuð. Hún flyst heima á milli hvort sem henni líkar betur eða verr.

Á milli Ísfréttar og Blóðhófnis liðu 16 ár og jafnmargar bækur en alltaf voru Skírnismál með mér. Þegar ég hélt upp á að hafa skilað handritinu að fyrstu skáldsögunni minni, Regnboga í póstinum, til útgefanda fékk ég mér tattú. Ég valdi mér sverð Freys á hægri kálfann. Síðan þá hef ég gengið vopnuð. Goðafræðin og Íslendingasögurnar eru oft nálægt í verkum mínum. Í skáldsögunni Mörtu smörtu sem kom út haustið 2002 þarf aðalpersónan að vinna skólaverkefni sem felst í því að taka ljósmyndir af samnemendum sínum og kennurum sem bera sömu nöfn og goðin. Marta smarta smellir myndum af Iðunni, Freyju, Þór, Óðni, Frey og Sif. Síðan er móðir Mörtu að semja MA-ritgerð um samband feðginanna Egils Skallagrímssonar og Þorgerðar.

Í ljóðunum mínum birtist Hallgerður í allri sinni þögn, hlýðni drengurinn hún Bergþóra og þau Egill og Þorgerður sem hann hlýtur að hafa skuldað ljóð fyrir lífgjöfina. Síðan á ég titilsöguna í smásagnasafninu Heil brú sem kom út árið 2006 þar sem ég sá fyrir mér hvernig fyrsti vinnudagur drengsins Heimdalls hefði verið. Þar fær hann níu lýsisskeiðar og nífalt nesti, enda svo ríkur að eiga níu mömmur.

Það er alltaf líf og fjör í Goðheimum. Örlaganornir spinna þræði sína, Iðunn deilir út eplunum, Þrymur stelur hamri Þórs og hann nær honum ekki aftur fyrr en hann hefur dulbúist sem kona og einfeldningurinn hann Höður lætur mana sig í að henda mistilteininum að Baldri með hörmungarafleiðingum. Þegar svo mikill atburður verður er Loki aldrei langt undan. Hann getur breytt sér til dæmis í lax en líka hross og eignast Fenrisúlf, Miðgarðsorm og Hel með jötunmeynni Angurboðu.

Þessi „ódæli vandræðaás” eins og Sigurður Nordal kallar Loka er einn af uppáhaldsköllunum mínum í Goðheimum. Alltaf tekst honum að hleypa öllu í uppnám en síðan yrkir hann líka eitt glæsilegasta kvæði sem finnst í íslenskri tungu – en reyndar ekki fyrr en hann hefur breytt sér í konu, gamla konu. Hana Þökk sem kveðst gráta Baldur þurrum tárum og biður Hel að halda því er hefir.

Samskipti jötna og guða eru margofin og flókin. Þótt botnlaus ógn stafi af þeim koma tengdamæðgurnar Skaði og Gerður samt úr Jötunheimum. Mörg goðin rekja líka ættir sínar til jötna, svo sem sjálfur Óðinn og Loki, faðir úlfs, orms og Heljar, er sonur jötuns. Gymir, faðir Gerðar sem sagt er frá í Skírnismálum, er jötunn og sömuleiðis móðir hennar, Aurboða. Freyr er sonur Njarðar, sem er vani, en móðir hans, Skaði, er – eins og fyrr segir – jötnaættar og því algjörlega eðlilegt að hann sé sjálfur ekki afhuga slíkri konu. Og hvað er vaninn Njörður að gera í Ásheimum? Jú, það var skipt á honum og ás – bara eins og í veiðimanni. Satt best að segja fékk Skaði að velja sér einn af ásunum í sárabætur fyrir föður sinn sem hafði verið drepinn. Hún valdi Njörð því hún hélt að þetta væri Baldur. Það munar líka mjóu að skipt sé á sjálfri Freyju, Sól og Mána fyrir einn grjótvegg. Þetta er heimur þar sem verur ganga kaupum og sölum og þá er mannslíf ekki mikils metið.

Í Goðheimum eignast jötnar, menn og vanir líka afkvæmi þvert á heima. Þótt þeir gjaldi yfirleitt varhug hver við öðrum stöðvar þá nefnilega fátt þegar girndin grípur þá. Skírnismál er einmitt saga um girnd. Kvæðið hefst á stól en líka iðjuleysi því eins og hljómsveitin The Smiths söng í ungdæmi mínu: „The devil will find work for idle hands to do“. Og í Skírnismálum segir frá því þegar frjósemisguðinn Freyr er á vappi um Ásheima. Hann rambar fram á stól Óðins, Hliðskjálf, og fær sér sæti. Um leið og sessan tekur við þunganum hefst ógæfa Freys sem á eftir að enda með dauða hans. Í Snorra-Eddu er sagt frá þessum atburði á eftirfarandi hátt: „Og svo hefndi honum það mikla mikillæti er hann hafði sest í það helga sæti að hann gekk í braut fullur af harmi.“

Það er samt skiljanlega freistandi að fá sér sæti í Hliðskjálf því hún virkar eins og Google Earth. Þaðan sést um heima alla. Þar sem Freyr situr og virðir fyrir sér alla dýrðina sem við honum blasir kemur hann auga á Gerði Gymisdóttur sem býr í Jötunheimum. Honum finnst hún svo fögur að honum virðist sem lófar hennar lýsi. Glæsilegra gerist það auðvitað ekki og Freyr verður svo hugfanginn að hann getur hvorki borðað né talað.

Nokkrar persónur mæla af munni fram í Skírnismálum: Skaði, Freyr, Skírnir, féhirðir, Gerður og ambátt hennar. Fyrst til að taka til máls í kvæðinu er Skaði. Hún gengur á Skírni, skósvein hans, og spyr hann hvort það geti verið að Freyr sé reiður. Þarna sést hvernig norrænir menn hafa brugðist við þegar þeir reiddust. Í stað þess að segja öðrum frá því sem angraði hafa þeir borið reiði sína í hljóði og svelt sig líka. Þeir hafa ekki verið búnir að finna upp það sem Norðmenn kalla „tröstespisning“ eða „huggunarát”.

Að áeggjan Skaða spyr Skírnir Frey hvað gangi að honum og Freyr trúir honum fyrir því sem hann sá,

Mær er mér tíðari
en manni hveim
ungum í árdaga.

Vanlíðan Freys er svo djúp að hann fær Skírni skósvein sinn til að halda til Jötunheima að sækja þessa konu. Skírnir er snöggur að sjá viðskiptatækifærið:

Mar gefðu mér þá
þann er mig um myrkvan beri
vísan vafurloga,
og það sverð er sjálft vegist
við jötna ætt.

Skírnir vill fá sverð Freys að launum og þetta er ekkert venjulegt vopn því það berst sjálft eins og hann tekur fram. Freyr er of ástfanginn til að hafa rænu á að gera gagntilboð og samþykkir kröfu Skírnis. Hann hefur enga hugmynd um hvaða afleiðingar girndin á eftir að hafa fyrir hann. Ragnarrök eru órafjarri. Þegar þessi goðsögn hefur verið endursögð er mesta púðrinu iðulega eytt í sverðið, enda leiðir missir þess til dauða Freys. Í Snorra-Eddu er til dæmis aðeins minnst á vopnið en það sem Skírnir biður hins vegar fyrst um er hestur til fararinnar. Geri ég því skóna að þar sé um hross Freys að ræða. Í skáldskaparmálum Snorra-Eddu er brot úr Þorgrímsþulu þar sem segir frá hrossum guðanna:

Dagr reið Drösli
en Dvalinn Móðni,
Hjálmr Háfeta
en Haki Fáki,
reið bani Belja
Blóðughófa
en Skævaði
skati Haddingja,

Bani Belja er Freyr en Belji þessi er jötunn sem Freyr drepur með hjartarhorni. Hesturinn er í þulunni nefndur Blóðughófi og breytti ég nafninu í Blóðhófni. Það hljómar betur og í verkinu mínu fær Skírnir ekki bara sverðið heldur líka sjálfan Blóðhófni. Og þetta er gott hross. Skírnir hefur kompaní af því. Sömu hættur steðja að Skírni og Blóðhófni og það er gott að vera ekki einn. Þess vegna spjallar Skírnir við hrossið á leiðinni og segir við Blóðhófni:

Myrkt er úti,
mál kveð eg okkur fara
úrig fjöll yfir,
þursa þjóð yfir
Báðir við komumst,
eða okkur báða tekur
sá inn ámáttki jötunn.

Þeir deila örlögum, drengurinn og hrossið, eins og til siðs var á víkingatímanum, ekki síst hér á landi. Að því sem fram kemur í bókinni Kuml og haugfé eftir Kristján Eldjárn var mjög algengt að Íslendingar heygðu hross með látnum í heiðnum sið. Við gerðum mest af því af hinum Norðurlandaþjóðunum og er þá alltaf um að ræða hesta, ekki merar. Liggja þeir oftast til fóta hinum látna eða hinni látnu. Og það sem merkilegt er að Íslendingar heygðu konur líka með hross sér til fylgdar, líkt og Norðmenn, en það var mjög sjaldgæft í Svíþjóð og enn fátíðara í Danmörku.

„Ámáttki“ jötunninn sem Skírnir minnist á í erindinu er Gymir, faðir Gerðar, en af honum stendur mikil ógn þótt hann birtist aldrei. Í Skírnismálum eru það bara karlmennirnir sem vekja ugg. Skaða líst ekki á „ofreiði“ sonar síns, Skírnir óttast Gymi og hótar Gerði með reiði sjálfs Óðins og Þórs. Hver er hræddur við Gerði Gymis? Skírnir skelfist aðeins Nei-ið hennar því þá verður hann að skila bæði sverði og fáki.

Ármann Jakobsson hefur komið víða við í fræðum sínum og hefur meðal annars dvalið í Jötunheimum. Samkvæmt honum búa jötnarnir í skógum og til stranda, fyrir austan en líka fyrir norðan og Skírnir fer einmitt á Blóðhófni norður. Þar eru Gymisgarðar. Það er eins með þann stað og Bílasölu Guðfinns og Hlöllabáta. Eigendurnir eru svo magnaðir að ekki hefur gengið annað en að kenna staðina við þá.

Skírnir og Blóðhófnir komast saman til Jötunheima án þess að tröllin nái í skottið á þeim og komast með nokkuð léttum leik að Gymisgörðum. Þar hittir Skírni Gerði fyrir. Hann reynir að múta henni til að koma með sér, býður henni skartgripi, sjálfan hringinn Draupni en af honum hrundu átta aðrir hringir 9. hverja nótt. Síðan býður hann henni gullepli Iðunnar. Gerður afþakkar. Hún segir að sig vanti ekki fé því pabbi hennar sé svo ríkur. Þótt tröllin séu ásunum vissulega grimm og hættuleg ríkir með þeim samheldni. Gerður sér enga ástæðu til yfirgefa æskuheimilið.

Þá tekur heldur betur að síga í Skírni og hann hótar að drepa Gerði en jafnvel það bítur ekki á hana því það eina sem hún segir er að faðir hennar eigi eftir að hefna hennar. Þá taka galdrarnir við. Í Formála sínum að Þremur Eddukvæðum frá 1959 segir Sigurður Nordal um Eddukvæðin að þessari „litlu bók“ hafi „verið sköpuð mikil og fjölbreytileg örlög af hálfu lesendanna“. Kvað hann þau hafa „verið skoðuð í smásjá orðaskýringa og textagreiningar og farið með þau hamförum um háloft lærdómsóra“.

Og órarnir eru vissulega ekki langt undan þegar lagst er yfir Skírnismál og ekki hægt að kenna þá alla við lærdóm – þannig séð, því ekki verður litið hjá því að galdrahótanirnar eru í kynferðislegri kantinum. Skírnir hótar Gerði með tamsvendi og segir að enginn vilji hana nema þríhöfða þurs. Skósveinninn romsar upp úr sér galdrastöfunum og um leið breytist bragarhátturinn. Brugðið er út af ljóðahættinum með því að endurtaka línur, ýmist óbreyttar eða með breyttri endurtekningu. Þetta er kallað galdralag. Tempóið verður stríðara, hljóðin kröftugri og hljómsterkari. Þá má heyra sefjandi áhrif galdraseiðsins:

Að undursjónum þú verðir,
er þú út kemur,
á þig Hrímnir hari,
á þig hotvetna stari,
víðkunnari þú verðir
en vörður með goðum,
gapi þú grindum frá.

Hugmyndaríki Skírnis eru fá takmörk sett þegar kemur að hótunum. Gerður á að missa alla matarlyst og verða að athlægi. Síðan tekur við særingakafli galdraþulunnar þar sem kallaðar eru til allar vættir goðheima til að magna galdur sem bannar Gerði að skemmta sér og jafnvel að njóta ásta manna. Skírnir klikkir út með að hóta því að rista galdrastafina þurs, ergi, æði og óþola. Í þurs býr ofurkraftur, ergi er samkynhneigðin en æði og óþol er hægt að túlka sem kynþörf samhengisins vegna. Hugsast getur að hér sé verið að hóta Gerði ægilegri ástarfýsn – sem er örugglega alveg agalegt en það sem mér fannst þess virði að nota í bálkinn minn er hótunin um að hún horfi bara heljar til. Ég treysti nefnilega Gerði til að skera ástarfýsnina oní trog og taka í nefið og aldrei að vita nema jötunmeyju finnist þríhöfða þurs bara frýnilegur. Hins vegar hafa margir gefist upp fyrir þunglyndinu sem felst í því að horfa alltaf heljar til. Jafnvel kjarkaðar jötunmeyjar hætta sér ekki til þess.

Og það er merkilegt að fræðimenn fyrri tíma hafi talið Skírnismál rómantískt ástarljóð og hótanir um hýðingar með svipu hafi ekki komið þeim í skilning um annað en hvað veit ég, óbreytt skáldið, svo sem um rómantík þá sem kraumar í íslensku fræðasamfélagi?

Gerður Gymisdóttir lofar að koma að níu nóttum liðnum og tilkynnir Skírnir húsbónda sínum það. Í síðasta erindi Skírnismála kvartar Freyr yfir því að þurfa að bíða svo lengi.

Landamæragæslan í ljóðheimi mínum hefur jafnan verið ströng. Hefði Skírnir fengið þvottavél og þurrkara hefði ég aldrei ort Blóðhófni en syngjandi sverð, fljúgandi hross og kvenfólk sem er svo fagurt að lófar þess lýsa er svo sannarlega boðið velkomið og fær landvistarleyfi eins og hendi sé veifað – jafnvel glóandi hendi.

Ég byrjaði að yrkja Blóðhófni í septemberlok árið 2008 í Stokkhólmi. Efst á Drottningargötunni er hús ætlað rithöfundum og stendur steinsnar frá bláturninum hans Ágústar Strindberg. Út um gluggann getur að líta setningar úr verkum hans greyptar í gangstéttina. Þarna hafði ég örsmátt herbergi til umráða í fimm daga, vopnuð tússpenna og rauðri bók að skrifa í. Ég ætlaði að yrkja ljóðabálk um goðsöguna um Gerði Gymisdóttur og Frey Njarðarson en ég vissi auðvitað ekkert hvernig þetta færi. Ég hafði aldrei sagt samfleytta sögu áður í ljóði og var ekki viss hvort ljóðstíllinn minn hentaði. Um tíma hafði ég velt því fyrir mér hvort ég ætti frekar að skrifa smásögu eða nóvellu um þessa goðsögu og var þá hugsað til Penelópukviðu kanadíska höfundarins Margaret Atwood. Bjartur gaf hana út árið 2005 í þýðingu Sigrúnar Á. Eiríksdóttur. Þar skrifar Margaret um grísku goðsöguna um Penelópu og Ódysseif með sínu nefi og gerir það vel.

En tvær aðrar bækur voru mér líka ofarlega í huga, Tarkovskijs heste eftir Danann Piu Taftrup, ljóðabók sem kom út árið 2006 og síðast en ekki síst hina bráðfögru og sáru Minningabók Vigdísar Grímsdóttur sem kom út árið 1990. Báðar fjalla þessar tvær ljóðabækur um andlát feðra skáldanna og eru feikivel heppnaðar.

Dagarnir sem ég varði í Stokkhólmi voru býsna viðburðarríkir í íslenskri sögu og ég fór ekki varhluta af því. Sænskumælandi Breti hafði yfirumsjón með rithöfundahúsinu og þar sem ég reyndi að sökkva mér ofan í tilfinningalíf Gerðar Gymisdóttur tóku örlög íslenska efnahagsundursins að leita mjög á manninn. Í hvert skipti sem ég kom út úr herberginu mínu stökk hann fram með dómsdagsspár á vörum um íslenska banka. Sænskir fjölmiðlar voru ekki að skafa utan af því. En ég var komin til Stokkhólms til að yrkja um svo miklu dramatískari atburði að ég nennti ekki að hlusta eftir þessum voðafréttum. Að lokum sá maðurinn ekki lengur tilganginn með því að sitja fyrir mér og brá á nýtt ráð. Einn daginn þegar ég kom fram í sameiginlegu dagstofuna beið mín vandlega sneidd úrklippa úr sænsku dagblaði þar sem stóð eitthvað á þá leið að von bráðar myndi öll íslenska þjóðin horfa heljar til.

Og það mátti svo sem vel vera en Jötunheimar kölluðu og efnið reyndist mér jafndrjúgt og mig hafði grunað. Ég komst að því þarna úti í Stokkhólmi að knappi ljóðstíllinn sem ég hafði tamið mér hentaði goðsögninni vel. Ljóðið streymdi fram. Sumum myndum var vissulega hent út á lokametrunum eins og gengur en aðrar standa enn, eins og til dæmis upphafið:

Minningar

snjór sem ég þjappa
í greip
hnoða í kúlu
og kasta

Það hendir aðeins
í huga mér

Hér festir ekki snjó

Jötunheimar hlutu samstundis íslenskt landslag en Ásheimar urðu sænskur sumardalur, kannski ekkert ólíkur Kirsuberjadalnum í Nangijala úr Bróðir minn ljónshjarta eftir Astrid Lindgren. Allt er slétt og fellt á yfirborðinu en samt er ekki gott að dvelja þar. Síst af öllu hafi kona verið flutt þangað nauðug.

Goðsagan um Gerði og Frey greip mig heljartökum. Eldsnemma á morgnana vaknaði ég við niðinn frá lyftunni í húsinu og byrjaði óðara að semja. Um miðjan dag tölti ég út í borgina og þar var nóg að sjá til að efla andann. Í Historiska museet, þjóðminjasafni Svía, fann ég gullfígúrur í glerskáp, líkastar playmo-körlum. Talið er að þær hafi átt að vera Gerður og Freyr og hafi fólk sprellað eitthvað með þessa kalla þegar pör voru gefin saman í hjónaband. Ekki fer ég nánar út í það sprell en minni á að Freyr táknar jú frjósemina og Gerður jörðina. Í sama safni er perluhetta höfð til sýnis. Hún fannst í Svíþjóð en er greinilega frá Balkanlöndum. Hún sýnir að konurnar komu oft víða að. Goðsögnin um Gerði Gymisdóttur er ekki bara saga um girnd, heldur saga af löngu fyrndu mansali. Þannig ætlaði ég að segja hana.

Síðan kom að heimferð og á mínu ísakalda landi var allt annað andrúmsloft en hafði verið þegar ég fór. Úrklippan sem Bretinn hafði föndrað fyrir mig reyndist búa yfir miklu sannleiksgildi, íslenska efnahagsundrið var hrunið. Ég væri samt illa svikin ef Guð hefur ekki heyrt ákall Geirs Haarde og blessað landið.

Að minnsta kosti blessaði Hann mig og í upphafi ársins 2009 fékk ég slurk af suttungamiðinum sem Listamannalaunin bjóða upp á og gat þar með einbeitt mér að Blóðhófni. Bókin var því unnin á annan hátt en mínar fyrri ljóðabækur, þrjár að tölu. Þær hafði ég ort meðfram öðrum störfum, oft á kvöldin, en að þessu sinni lét ég það eftir mér að ýta öðrum verkum frá.

Mánuðum saman vaknaði ég til þessarar bókar og vann að henni, enda er þar sögð samfleytt saga og mikilvægt að missa ekki þráðinn. Ég keypti mér stóra teikniblokk og skrifaði ljóðin í hana til að fá góða yfirsýn yfir það sem komið var. Þetta var hamingjutími. Ég las fræðigreinar eftir Terry Gunnel sem hefur skrifað nokkuð Skírnismál og skoðaði mögnuð norræn málverk af sveitum sem áttu vel við yrkisefnið. Svo gat ég alltaf gluggaði í skemmtiritið Horfna góðhesta eftir Ásgeir Jónsson frá Gottorp til að auka mér innblástur. Þar hnaut ég um texta eins og til dæmis þennan um gæðinginn Ljót:

„Brúnasvipur Ljóts var mikill og skörulegur. Augnabragð og svipmót lýsti vitsmunum og þreklund, en ekki glaðværð. Mörgum fannst Ljótur hrikalegur og ófríður hestur. Eftir þeirri lýsingu af útliti hans, sem hér er skráð og ekki mun vera fjarri sanni, virðist hann ekki hafa verið ljótur, en þó ekki heldur fallegur. En til þess að jafna allar deilur um útlit hans mætti segja, að hann hefði verið fallega ljótur.“

Og lokaorðin í kaflanum um hann Ljót eru ekki síður fögur hjá Ásgeiri Jónssyni:

„Ljótur er heygður í túninu á Gautlöndum. Frá legstað hans heyrast, einkum á mánabjörtum síðkvöldum, hljómkviður, sem túlka táknræna líkingu af því, þegar gripharður gæðingur skeiðar í ásamóði eftir glærum ís.”

Fallegt? Heldur betur!

Horfnir góðhestar skemmtu mér meðan á samningu Blóðhófnis stóð, gáfu mér orð og orð en engu þeirra var þó haldið inni í lokahandritinu. Hlutverk mitt var líka fyrst og fremst að skálda. Höfundur Skírnismála skildi eftir fyrir mig nokkrar mikilvægar spurningar. Gerður Gymisdóttir segir Skírni að hún ætli að koma til Ásheima eftir níu nætur. Hvað gerir hún þessar níu nætur? Ég ákvað að draga fram persónu sem ekkert er minnst á í Skírnismálum, Aurboðu, jötunkonuna móður Gerðar, og leyfa þeim að kveðjast. Óttinn sem stafar frá eiginmanninum er greinilega of mikið til að af henni standi nokkur ótti. Auk þess fannst mér Gerður verða að fá að kveðja landið sitt:

Heimur minn horfinn
hefur ekkert
til hans spurst

frekar en gjólu
sem eitt sinn
lék í lokkum
blés þeim frá brosi

læddist lófi í annan

Mamma

ber lykla að búri
og brjóstum manna

Augun slæða
gapandi gjótur
þreifa þokuslungin björg

Afdrif mín ókunn

Mamma

birtist í draumum
sem dalalæða
léttir um leið og svefn

Mamma

bíður mín heima
í hamingjunnar bænum


Enn bjó ég að leiðangri mínum í Historiska museet í Stokkhólmi. Þar liggja bein víkingakvenna í glerkistum og hafa þær verið heygðar með skartgripina sína en sumar hafa líka átt stóra og fallega lykla. Þeir gengu ekkert endilega að lásunum sem fundust í bæjarrústunum, heldur voru fyrst og fremst stöðutákn. Aurboða hlýtur að hafa átt einn slíkan. Ég velti því líka fyrir mér hvort það hafi orðið fagnaðarfundir þegar þau Freyr og Gerður hittust og hvort Freyr sjái ekki eftir sverðinu sínu og hrossinu.

Þetta eru vanhugsuð skipti hjá Frey og það á eftir að renna upp fyrir honum í ragnarökum. Þar deyr hann því hann hefur ekki sverðið sitt. Þar höfum við það. Karlar sem kaupa sér konu farast í Ragnarökum.

Blóðhófnir göslaðist áfram. Ég ákvað að uppsetningin yrði á þá leið að stutt erindi yrðu á hverri síðu. Þetta yrði bók sem lesa yrði hægt, enda ekki annað mögulegt en að doka aðeins við í hvert skipti sem lesandinn yrði að fletta.

Ég spretti af Blóðhófni í júlíbyrjun 2010, þá stödd á Gotlandi, dásemdareyju sem býr að heilmiklu víkingagóssi, bautasteinum, vopnum og gulli. Viðbrögðin við bókinni komu á óvart og sömuleiðis að hún hlyti Íslensku bókmenntaverðlaunin. Erlent gengi hafði „ráðist á mig“ rétt eins og aðra landa mína í Stokkhólmsferðinni haustið sögulega árið 2008. Það hafði þó ekki komið í veg fyrir hressileg kjólakaup í Köben á leiðinni heim. Ég tók við bókmenntaverðlaununum í kjólnum. Hringurinn lokaðist, og þó. Eins og Draupnir forðum, sýnist mér hann hafa getið af sér aðra átta.

Síðan þá hef ég oft tekið mér Skírnismál í hönd og það er merkilegur skratti hvað þetta kvæði eru heillandi. Sífellt er hægt að finna eitthvað nýtt í því. Sigurður Nordal er heldur ekki að skafa utan af því þegar hann segir um Eddukvæði að aldrei hafi „íslenzk tunga að tign og fegurð komizt nær því að vera tungumál guðanna en í frábærustu erindum þessara kvæða”. Þetta skrifar hann í Formála að Eddukvæðum frá 1959. Hugmyndin um að þarna sé tungumál guðanna lifandi komið er nokkuð skemmtileg og gaman að geta þess að þá sjaldan María mey stígur fæti niður á jörðina gætir hún sín á að tjá sig á talmáli. Birtist hún skyndilega hér mitt á meðal okkar – sem ég svona síður von á – myndi hún þá líklega hrósa okkur fyrir hvað við séum að „gera góða hluti“ og kveðja með orðunum: „Eigið góðan dag!“

Eddukvæðin er vissulega skáldskapur en eins og Sigurður Nordal benti á eru þetta líka heimildir um norræna goðatrú og goðafræði, um norrænar og germanskar hetjusögur og lífsskoðun. En Skírnismál vísa líka inn í framtíðina og þar er ég komin að öðrum túlkunarmöguleika kvæðisins sem lýtur að hlutverki Gerðar – jarðarinnar. Hún var hrifsuð burt úr réttum heimkynnum sínum og nú búum við mennirnir við umhverfisvá, hlýnun jarðar með tilheyrandi ósköpum, bráðnandi jöklum, skógareldum og flóðbylgjum. Það þarf að skila Gerði Gymisdóttur til síns heima svo ekki fari enn verr, senda eftir henni í ásheima og flytja aftur heim í ríki jötnanna. Blóðhófnir ratar.

Í Eddukvæðunum eigum við enn orðastað við gömlu guðina, Freyju, Óðin, Frigg og Iðunni. Við setjumst við fótskör Völvunnar og það er alveg sama hvort við jánkum eða neitum þegar hún spyr: Vituð érenn – eða hvað? Hún hlífir okkur ekkert fyrir því sem koma skal.

„Nú mun hún sökkvast.“