Gripla XXIV

Griplukápa XXIII

Gripla 24 (2013). Ritstj. Jóhanna Katrín Friðriksdóttir og Viðar Pálsson. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Rit 87. 300 bls. ISBN: 978-9935-23-027-7. Háskólaútgáfan annaðist útgáfuna.

24. árgangur Griplu (2013) kom út fyrir jól hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í ritstjórn Jóhönnu Katrínar Friðriksdóttur og Viðars Pálssonar. Gripla er alþjóðlegt, ritrýnt tímarit á sviði norrænna fræða fyrri alda.

Gripla er stútfull af áhugaverðu og vönduðu efni nú sem fyrr, níu fræðigreinar auk samtínings: Russell Poole skrifar um alþjóðlegt samhengi dróttkvæða, Stephen Pelle fjallar um heimildir fyrir norrænum hómilíum, Kirsten Wolf gefur út tvær dæmisögur ásamt skýringum, Þorgeir Sigurðsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson og Haukur Þorgeirsson skoða skaddað blað í Möðruvallabók í nýju ljósi, Margrét Eggertsdóttir og Veturliði G. Óskarsson gefa út forvitnileg bréfaskipti Grunnavíkur-Jóns og Eggerts skálds Ólafssonar ásamt skýringum, Arngrímur Vídalín er á jaðrinum í Hrafnistumannasögum, Katelin Parsons gefur út Grýlukvæði úr Sléttuhlíð með ítarlegri skýringarsögu, Silvia Hufnagel gerir grein fyrir fræðaumhverfi alþýðufræðimannsins Gunnlaugs Jónssonar frá Skuggabjörgum og Veturliði ritar einnig smágrein um stakorð í Flateyjarbók.

Tekið er við greinum í næsta hefti Griplu fram til 1. apríl n.k. Vakin er athygli á því að Gripla er metin til hæstu stiga (15) innan matskerfis Háskóla Íslands og birtir greinar jafnt á íslensku, Norðurlandamálum, ensku og þýsku. Um leiðbeiningar við frágang greina til birtingar í Griplu sjá nánar á heimasíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: www.arnastofnun.is/page/gripla.

Sjá einnig tímarit.is