Íslenskukennsla við háskóla erlendis

Í fjárlögum fyrir íslenska ríkið er lagt fram fé til að styðja kennslu í íslensku máli og íslenskum fræðum við erlenda háskóla. Fjárstuðningurinn er ferns konar, þ.e.a.s. í formi a) launaframlags til kennara, b) bókastyrkja til kennarastólsins, c) ferðastyrkja vegna kennarafunda og d) styrkja til heimflutnings kennara.

Kennarar, sem kenna íslenskt mál og íslensk fræði erlendis með stuðningi íslenska ríkisins, eru annaðhvort Íslendingar og útlendingar sem hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem kennt er eða íslenskir sendikennarar sem eru ráðnir til ákveðins tíma. Að öðru jöfnu er æskilegra talið að íslenska ríkið veiti fjárstuðning til sendikennslu en til launa fastráðinna kennara. Áskilið er að kennararnir hafi háskólapróf og staðgóða þekkingu á íslensku máli og íslenskum fræðum.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur umsjón með kennslu í íslensku við erlenda háskóla. Nefnd sem í eiga sæti einn fulltrúi stofnunarinnar, tveir fulltrúar íslensku- og menningardeildar Hugvísindasviðs Háskóla Íslands fjallar um tillögur og fyrirspurnir sem bornar eru fram um íslenskukennslu erlendis og afgreiðir þær til stofnunarinnar. Stofnunin vinnur að framgangi tillagna nefndarinnar samkvæmt ákvörðun mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Íslenska ríkið styður nú kennslu í íslensku nútímamáli við 14 háskóla. Þessir háskólar eru í Björgvin, Gautaborg, Uppsölum, Helsinki, Kaupmannahöfn, Kíl, Berlín, München, Vínarborg, París, Caen, Lundúnum, Beijing og Winnipeg. Auk þess leggur ríkið nokkurt fé til íslenskukennslu við háskólann í Cambridge og Wasedaháskóla.

Þótt íslenskir kennarar á fyrrgreindum stöðum fái launaframlag frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og stofnunin auglýsi í sumum tilvikum kennarastöðurnar og leiti álits hugvísindasviðs á hæfi umsækjenda, eru kennararnir ráðnir af skólunum. Þeir bera því skyldur sem starfsmenn þeirra. Sem launþegar í öðru EES-landi öðlast þeir réttindi sem væru þeir ríkisborgarar þess lands. Launaframlag íslenska ríkisins er engu að síður skattskylt á Íslandi, nema tvísköttunarsamningur sé í gildi við það ríki sem kennslan fer fram í.

Ef það er skilyrði til að fá tryggingabætur í starfslandinu að maður hafi búið eða starfað þar í tiltekinn tíma, er hægt að nota lögheimilistímabil (tryggingatímabil) frá Íslandi til að uppfylla það skilyrði. Vottorð um slíkt tímabil á Íslandi er gefið út af Tryggingastofnun ríkisins (E 104 fyrir sjúkratryggingar og E 205 fyrir lífeyristryggingar).

Með starfi í öðru EES-landi safnast upp lífeyrisréttindi þar. Við starfslok fær starfsmaður því greiddan lífeyri frá öllum þeim EES-löndum sem hann hefur starfað í og er fjárhæðin í hlutfalli við lengd starfstíma í hverju landi.