Dýrlingar og helgisögur í AM 657 c 4to

Handritið AM 657 c 4to var skrifað á síðustu áratugum 14. aldar. Það er 51 blað en blöð vantar bæði framan af, aftan af og innan úr því. Handritið inniheldur niðurlag sögu heilags Mikaels höfuðengils, Maríu sögu egypsku, Eiríks sögu víðförla og B-gerð Guðmundar sögu góða. Maríu saga egypsku (sem ekki má rugla saman við Maríu Magdalenu) er saga af iðrandi vændiskonu sem gerist einsetukona í eyðimörk; sagan var þýdd úr latínu á 13. öld. Hinar þrjár sögurnar eru frá 14. öld. Mikaels saga var samin af Bergi Sokkasyni ábóta, en talið er að hann hafi samið allnokkrar helgisögur á fyrri hluta 14. aldar. Bergur notaði latneskar heimildir en jók einnig við þær efni. Eiríks saga víðförla er líklega frumsamin; hún segir frá leit Eiríks að paradís á jörðu. Höfundurinn notaði bæði fræðsluritið Elucidarius og Duggals leiðslu, en ekki hefur verið gengið úr skugga um hvort hann studdist við latneskan texta eða norrænan.

  Smellið á myndina til að stækka hana. Ljósm. Jóhanna Ólafsdóttir Upphaf Guðmundar sögu góða í AM 657 4to.            B-gerð Guðmundar sögu (sem nefnd hefur verið miðsaga Guðmundar góða) er eina gerð sögunnar sem ekki hefur enn verið gefin út. Hún er þó væntanleg í stafréttri útgáfu frá Árnasafni í Kaupmannahöfn. Útgáfan verður kærkomið framlag til rannsókna á miðaldabókmenntum, því Stefán Karlsson handritafræðingur taldi að sagan væri elsti textinn sem greinilega hefur það að markmiði að sýna Guðmund góða sem helgan mann. Sagan var sett saman snemma á 14. öld en höfundurinn notaði eldri heimildir, eins og Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar. Í B-gerð Guðmundar sögu er einnig efni sem aðeins er vísað til lauslega í Íslendinga sögu. Selkollu þáttur er dæmi um slíkt. Í Íslendinga sögu Sturlu segir: „urðu þar (á Breiðabólstað í Steingrímsfirði) margir hlutir þeir, er frásagnar væri verðir ok jartegnum þótti gegna, þótt þat sé eigi ritat í þessa bók, bæði þat, er biskup atti við flagð þat, er þeir kölluðu Selkollu, og margt annat“ (Sturlunga saga I 1946, s. 255). Í B-gerð Guðmundar sögu er sagt ýtarlega frá Selkollu (því miður vantar þau blöð sem geyma þáttinn af Selkollu í AM 657 c 4to, en sagan er í öðrum varðveittum handritum B-gerðar) sem og af fleiri jarteiknum sem einnig er aðeins vísað til í Sturlunga sögu. Á síðustu árum hefur Selkolla vakið athygli fræðimanna í vaxandi mæli. Þannig eru fjórar fræðigreinar sem fjalla um Selkollu þátt væntanlegar í greinasafni síðar á árinu, Supernational Encounters in Old Norse Literature and Tradition (Brepols 2018).

B-gerð Guðmundar sögu greinir enn fremur frá því að erkibiskup hafi boðað Guðmund á sinn fund í Noregi til að svara fyrir ýmis umdeild verk, eins og blessun brunna; sagt er frá því að óvinir Guðmundar hafi migið í brunn sem hann hafði blessað („og vígði þar brunn þann, er þeir migu í síðan, ok gerðu at til háðs við hann – ok batnaði þá eigi síðr við það vatn en áðr“ (Sturlunga saga I, s. 142). Í B-gerðinni fær varnarræða Guðmundar á fundi hans og erkibiskups mikið rými í textanum, þar sem hann réttlætir gjörðir sínar með guðfræðilegum rökum og þeirri hugmynd að upptök allra vatnsbóla séu í ánni Jórdan, sem Jesús helgaði þegar hann var skírður þar. Í ræðunni firrir Guðmundur sig allri ábyrgð á kraftaverkamætti brunnanna sem hann blessaði, en þakkar Guði lækningarmátt þeirra ásamt trú þeirra sem urðu aðnjótandi kraftaverkanna. Höfundur varnarræðunnar (sem ekki er hægt að eigna Guðmundi sjálfum) notaði heimildir sem vitað er að höfðu verið þýddar á norræna tungu, svo sem sögu heilags Ambrósíusar, Duggals leiðslu og, beint eða óbeint, hómilíur Gregoríusar mikla.

Í handritinu eru upphafsstafir stórir, blekfylltir og/eða pennaflúraðir og nær flúrið sums staðar út á spássíur. Meðfylgjandi mynd er af blaði 13r, þar sem Guðmundar saga byrjar. Þar sjást tveir flúraðir upphafsstafir, annar í upphafi formálans og hinn í upphafi sögunnar sjálfrar.

Á Hugvísindaþingi 2018, sem haldið verður dagana 9. og 10. mars, verður málstofa um Guðmundar sögur góða.

 

Margaret Cormack, febrúar 2018

 

Heimildir

Biskupa sögur. Útg. Guðbrandur Vigfússon, Jón Sigurðsson, Þorvaldur Bjarnarson og Eiríkur Jónsson. 1−2. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1858–78.

Eiríks saga Víðfǫrla. Útg. Helle Jensen. Kaupmannahöfn: C. A. Reitzel, 1983.
Editiones Arnamagnæana Series B, vol. 29.

Heilagra manna søgur: Fortællinger og legender om hellige mænd og kvinder efter gamle haandskrifter. Útg. C. R. Unger. 2 vols. Oslo: [n.p.], 1877.

Simek,  Rudolf. ‘Die Quellen der Eiríks saga Víðfǫrla’. Skandinavistik 14 (1984) 109−14.

Stefán Karlsson. ‘Guðmundar sögur biskups’ í Medieval Scandinanvia: An Encyclopedia, ritstj. Phillip Pulsiano et al.,  bls. 245−46.

Sturlunga saga. Útg. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn. 1−2. Reykjavík: Sturlunguútgáfan, 1946.

Supernatural Encounters in Old Norse Literature and Tradition. Ritstj. Daniel Sävborg og Karen Bek-Pedersen. Turnhout: Brepols, 2018. Væntanleg.