Seðlar Árna Magnússonar

Árni Magnússon

Merkilegur hluti af ævistarfi Árna Magnússonar og handritasafni hans er sá mikli fjöldi seðla sem hann skrifaði með margs háttar athugasemdum og vitneskju um handrit og skjöl sem hann eignaðist eða fóru um hendur hans, efni þeirra og sögu, skrifara, fyrri eigendur, ennfremur hvenær og hvernig hann eignaðist þau og ýmislegt fleira. Þessa seðla lagði hann með handritum og skjölum í safni sínu og þeir fylgja þeim enn þann dag í dag. Samkvæmt rannsóknum Más Jónssonar á seðlum Árna eru elstu tímasettu seðlarnir frá árunum 1701-1704 sem bendir til þess að það hafi verið á þeim árum sem Árni tók upp þetta vinnulag að halda til haga þeim fróðleik sem hann aflaði sér um handrit og skjöl sem hann fékk í hendur. Meginþorri seðlanna hefur orðið til á tveimur tímaskeiðum í ævi Árna, því fyrra á árunum 1702-1712 þegar hann dvaldist á Íslandi við embættisstörf á vegum konungs en þó einkum á því síðara, á árunum eftir 1720, þegar hann hafði endurheimt handrit sín og skjöl frá Íslandi og vann ötullega að því að rannsaka og ganga frá safni sínu og búa það í hendur framtíðarnotendum. Sá fróðleikur sem þarna er að finna veitir fræðimönnum, sem rannsaka handritin og skjölin mikilvægar upplýsingar um tilurð safnsins og vinnubrögð Árna.

Hér á eftir verða sýnd dæmi af þeim seðlum Árna sem hann lagði með einu handriti í safni sínu. Þetta er skinnbókin AM 622 4to sem saman stendur af 90 blöðum í litlu fjórblöðungsbroti og varðveitir fyrst og fremst helgikvæði frá kaþólskum tíma á Íslandi. Sterkar líkur benda til þess að handritið, eins og það er varðveitt í dag, sé samsett úr 3 handritum; skrifari þess er Gísli Jónsson (1513?–1587) sem var fyrst kirkjuprestur í Skálholti en síðan prestur í Selárdal í Arnarfirði frá 1546 og loks Skálholtsbiskup frá 1558 til dauðadags. Með bókinni fylgir 21 seðill með hendi Árna og eru þeir merktir í stafrófsröð a-u og festir í þeirri röð inn í handritið þar sem við á.

Framan við skinnblöðin bókinni eru festir inn fjórir seðlar a-c.


Seðill b:
Á þennan seðil hefur Árni skrifað það sem hann gat lesið af texta sem stendur á fremsta blaði skinnbókarinnar og nú má heita ólæsilegur. Þar kemur fram að eigandi bókarinnar Helga hafi fengið hana frá föður sínum Gísla Jónssyni. Þá getur Árni þar einnig upplýsinga um eldra heimilisfang bókarinnar sem krotaðar eru á neðri spássíu á blaði 22v. – Kristian Kaalund las heldur meir af textanum tæpum 200 árum síðar: „Helga Gísladóttir sögð er á þessa bók ... skrifud  [í Selárdal] af mér Gísla Jónssyni p. anno domini 1549.“
Texti seðilsins:

7 AM04-0622 „Helga Gísladóttir sögð er á þessa bók ... föður mínum Gísla Jónssyni p. anno Domini 1549.“
„Þetta stendur framan á bókinni.“  „Á spássíunni (skr. „spatiunne“) stendur í einum stað: Ég á heima á Reykjum, segir skriddan (þ.e. skruddan).“

 


Seðill c:
Af texta c-seðils virðist mega ætla að Árni hafi jafnvel skrifað upphaf hans áður en hann fékk handritið afhent því að hann byrjar á því að geta þess að handritið sé hjá Þórði Péturssyni á Innra-Hólmi á Akranesi. Seinna þegar handritið var komið til hans hefur hann bætt þar aftan við í hornklofa þeirri athugasemd að nú sé það hjá honum. Þar fyrir neðan hefur Árni skrifað yfirlit yfir þau kvæði sem eru í handritinu ásamt athugasemdum; sum kvæðanna eru seinni tíma viðbætur við handritið sem Árni fjarlægði síðar úr því eins og kemur fram hér á eftir.
Texti seðilsins:

9 AM04-0622 „Hjá Þórði Péturssyni á Hólmi [nú hjá mér] bók í litlu 4to. Þar á variæ odæ latinæ, danicæ, germanicæ (þ.e. ýmsar söngvísur latneskar, danskar, þýskar; sem vísar til texta og nótna við þá sem standa á fyrstu 22 blöðum handritsins);
     Svenska vísan hún er sig so löng.
     Mörg er mannsins pína.
     Sver ei, sver ei sjálegt víf.
     Hæc manu recentiore (þ.e.: „Þetta er með ungri hendi“).
     Lilja bróðir Eysteins.
     Rósa Sigurðar blinda (þetta hefur Árni skrifað eftir fyrirsögn kvæðisins í handritinu en við nánari athugun áttað sig á að þetta er kvæðið Milska eftir sama mann og strikað yfir) incipit (þ.e.: upphaf): Faðir vor Kristur friður hinn hæsti, fyrr smíðandi allar tíðir.
     Maríuvísur (Árni undirstrikaði þetta og skrifar ofan við: Þetta er Rósa): Faðir og son á hæstum hæðum. Eru langar.
     Græðarinn lýðs og landa.
     Allra hluta er upphaf, orð.
     Ellikvæði Jóns Hallssonar.
10 AM04-0622     Píslargrátur biskups Jóns (kallast þar Krossgrátur. incipit: Faðir vor Kristur í friðinum.
     Dæglur: Gaf eg mig allan græðara mínum. Manu recenti.
     Kvæði um Ólaf helga.
     Kötludraumur. Manu recenti.
     Krossdrápa Halls prests. Er löng.
     Mikaels flokkur Halls prests.
     Nikulás drápa Halls prests.
     Heyr milldingur allra alda “


Seðlar m og n:
Seðlar m-n (ásamt seðlum o-p) eru festir inn í bókina á eftir 52 blaði. Þar lýsir Árni nokkrum orðum ástandi þeirra yngri blaða sem hann fjarlægði úr bókinni og athugun sinni á bandi hennar.
Texti seðlanna:

„Hér voru inn á milli í bókinni:
Úr Dæglum, partur með annarri hendi og nýrri en bókin, illa skrifað.
Ólafs konungs vísur með andstyggðar hendi.
Ábótavísur með nýrri hendi viðvæningslegri.
Kötludraumur með álíka (hér hefur Árni verið í vafa og skrifað fyrst „nýrri“ en strikað yfir og skrifað fyrir ofan „sömu“ en strikað einnig yfir það) hendi sem á Dæglunum, vantar við endann. Dæglurnar og hálfar Ólafs vísur voru ritaðar á það gamla pergamentið sem autt hafði verið látið aftan við Píslargrát. Eftri parturinn af Ólafsvísum og hitt annað var ritað á óhræsislegt pergament, sem hér hafði verið fest inn á milli arkanna þegar bókin hefur umbundin verið. - NB umbundin: því sama slags var innfestingin á þessu auka (fyrst skrifað „nýja“ en strikað út) arki, sem á allri bókinni, og sama slags hampur í þessu nýja arki sem í hinum öllum.“ (Minnis­grein Árna heldur svo áfram á seðli n:) „Bandið á bókinni mun vera hér um de anno [frá árinu] 1549, en bókin sjálf nokkru eldri, þó ekki miklu, sem af skriftinni er að sjá.“
133 AM04-0622 134 AM04-0622 137 AM04-0622


Seðill t:
Á eftir blaði 89r eru seðlarnir t og u þar sem Árni greinir frá því hvaða örlög yngri blöðin hlutu sem hann fjarlægði úr handritinu:
Texti seðilsins:

„Hér var í bókinni þessi Heimsósómi (Mörg er mannsins pína) út til enda. Item með sömu hendi, annar Heimsósómi (Hvað mun veröldin vilja) “ kveðinn af Skáld Sveini nokkrum. Þetta tvennt var rotið í hryggnum, og það síðara til stórskemmda. Varð so ekki conserverað. Það sem þar af var læsilegt | confereraði ég með öðrum mínum exemplaribus úr kálfskinnsblöðum frá séra Ólafi Gíslasyni, og  eyðilagði so þetta.  Aftan við þessa tvo heimsósóma voru vísnagrey: Sver ei, sver ei sjáligt víf með andstyggðar hendi, sömu sem á Ólafsvísunum. Þær eru og héðan útteknar, uppskrifaðar, og perments blaðið eyðilagt.“
221 AM04-0622 222 AM04-0622


Heimildir:

Guðrún Nordal. Á mörkum tveggja tíma. Kaþólskt kvæðahandrit með hendi siðbótarmanns, Gísla biskups Jónssonar. Gripla XVI, bls. 209-228. Reykjavík 2005.
Íslensk miðaldakvæði. Islandske digte fra senmiddelalderen I,2-II. Udgivet af Kommissionen for Det arnamagnæanske legat ved Jón Helgason. København 1936.
Íslensk fornkvæði. Islandske folkeviser IV. Udgivet af Jón Helgason. Editiones arnamagnæanæ. Series B, vol. 13. København 1963.
Kristian Kaalund. Katalog over den arnamagnæanske håndskriftsamling I. Udgivet af Kommissionen for Det arnamagnæanske legat. København 1892.
Már Jónsson. Arnans Magnæus philologus (1663-1730). University press of southern Denmark 2012.
Sýnishorn úr seðlaveski Árna Magnússonar. Már Jónsson annaðist útgáfu. Reykjavík 1995.

Sigurgeir Steingrímsson