Skjalabók Ólafs Jónssonar í Núpufelli – AM 63 8vo

Í safni Árna Magnússonar eru þúsundir dýrmætra frumskjala og ennfremur býsn af uppskriftum hverskyns skjalagerninga í heilum bókum og blaðaknippum. Efnið er grundvöllur og meginstoðir sögu Íslendinga. Embættismenn á fyrri öldum gerðu sér eða létu gera sér skjalabækur sem í var safnað lagagreinum, registri lögbókar, konunglegum skipunum, dómum, kaupmálabréfum, skiptabréfum, jarðakaupabréfum, landamerkjabréfum, erfðaskrám o. s. frvs. Embættismennirnir höfðu bækurnar með sér á alþing, héraðsþing, kaupstefnur og prestastefnur og höfðu efni þeirra sér til stuðnings  við réttargæslu.

Einn þeirra manna sem safnaði og skráði efni í slíka skjalabók var Ólafur Jónsson bóndi í Eyjafirði, hann var lögréttumaður Eyfirðinga á árunum 1625–35. Skjalabók hans ber safnmarkið AM 63 8vo, lítið en þéttskrifað kver, en mörg auð blöð inn í milli. Ólafur skrifaði þar margt eigin hendi með fljótaskriftarlagi sinnar tíðar.

Fremst fer á íslensku kauptaxti Kristjáns konungs fjórða frá 1619. Þar á eftir fer formáli til að setja grið og frið allra manna í milli í nafni heilagrar þrenningar á kaupstefnu á Akureyri og eftir fylgir verðskrá. Ólafur hefir haft þessar uppteiknanir sér til hliðsjónar er hann  stýrði kaupstefnum á Eyrinni og las upp hvað kostaði bjórtunna, léreft, piltahattur, grjón, danskt hveitibrauð, pálreka, skollabogi, bók pappírs, brýni, rúkragi, hengilás, skæri, góðir kvenskór, korðahnífur o. s. frvs.

Í seinni hluta skjalabókar Ólafs eru uppskriftir vitnisburða, útdrættir úr dómum af ýmsu tagi, m. a. um rykti, ranglegt hald á hesti, ómagaskatt, hneykslunarorð, hýsing fátækra á tvíbýlum og hjáleigum, um bygging utansveitarmanna, um óríkt fólk og þess björg og um þann sem sleppir þjóf en tekur fólann.

Á einum stað í bókinni skrifar Ólafur sérkennilegan draum Ólafs Oddssonar í október árið 1626. Hann dreymdi sig koma að húsi, sá þar inni fríðan mann er mælti til hans viðvörunarorð sökum hættu á guðs reiði fyrir yfirtroðslu og óþakklæti almúga og mannkyns gagnvart guði; sá hinn fríði maður mælti til Ólafs að öllum er veita yfirgang væri búið helvítis port nema þeir geri alvarlega yfirbót snarlega. Þetta skyldi dreymandinn opinbera. Draumur Ólafs Oddssonar er haldgóður vitnisburður um hve innfluttur boðskapur lúthersks rétttrúnaðar hélt hugum fólks óttaslegnum í vöku sem svefni.

Árið 1632 skrifar Ólafur í kverið lögfestu sína fyrir Núpufelli í Eyjafirði: „Eg Ólafur Jónsson lögfesti hér í dag míns herra kóngsins jörð Núpufell, töður og engjar, holt og haga, skóg og allar aðrar landsnytjar þær sem þeirri jörðu tilheyrir til þessara ummerkja suður í þann garð sem upp gengur úr Eyjafjarðará og á fjall upp milli Æsustaða og Hrísa, allt land fyrir vestan Eyjafjarðará og í hennar hinn elsta og harðasta farveg sem hún til forna runnið hefur eftir leyfi og laganna frelsi svo og fram í þann garð sem upp gengur úr Núpá og á fjall upp fyrir utan Seljahlíð. Item Þormóðskot með öllum Þormóðsdal allt í miðjan tungusporð lögfesti eg þetta allt áður greint land að orðfullu og lögmáli réttu fyrirbýð eg hverjum manni að yrkja eður í að vinna eður nokkra gagnsemd af að hafa utan mitt sé lof eður leyfi til að vitni þeirra allra sem mín orð heyra.“ Lögfesta Ólafs í Núpufelli er frumrit og traustust gamalla heimilda um landeign jarðarinnar.

Á síðustu blöðum bókarinnar skrifar Ólafur eigin hendi setning héraðsþings, setur grið og fullan frið allra manna á milli og á eftir fer uppsögn hans á sama þingi þar sem hann segir hvern mann hafa gott orðlof til heimferðar en allt á þingi sé gert „til lofs og dýrðar kóngi vorum til vegs og virðingar oss sjálfum til náða og nytsemdar, friður guðs sé með oss öllum nú og æfinlega.“

Ólafur í Núpufelli var kvæntur Halldóru Árnadóttur frá Grýtubakka, þau áttu sex börn, ein dætra þeirra var Guðrún. Hún giftist Gunnlaugi Egilssyni, bjuggu í Miklagarði og síðar í Gullbrekku í Eyjafirði. Gunnlaugur skrifaði fremst í skjalabók Ólafs tengdaföður síns: „Gunnlaugur Egilsson er eigandinn bókarinnar með réttu því hún var mér gefin af Ólafi mínum Jónssyni. Gunnlaugur Egilsson eigin hendi.“ Hann hefir og skrifað nokkrar annálagreinar á næsta blað, m. a um lögtöku tíundargjalds á Íslandi, krýning Karlamagnúsar, upphaf Íslands byggingar og Grænlands, víg Kjartans og Bolla, Njálsbrennu og bardagann á Stiklarstöðum árið 1030. Óvíst er hvað varð um bókina eftir daga Gunnlaugs, en einhverntíma var hún í höndum Björns Pálssonar sýslumanns á Espihóli í Eyjafirði (d. 1680). Hann skrifaði nafn sitt og fangamark í hana og á einum stað er fest inn blað með vitnisburði um Benedikt bróður hans gerður á Hrafnagilsþingi 12. júní 1652, undirskrifaður eigin höndum fimm manna er vitna að Benedikt sé „erlegur og heiðarlegur höfðingi, hagað og breytt hafi í sérhvorri grein og háttalagi við meiri háttar menn sem minni.“

Árni Magnússon fékk skjalabók Ólafs í Núpufelli í safn sitt í Strandasýslu úr arfi eftir Magnús Magnússon sem trúlega erfði bókina eftir föður sinn, Magnús Björnsson á Bassastöðum í Steingrímsfirði er var lögréttumaður í Þorskafjarðarþingi um 1700. Heima og á þingum hefir innihald bókarinnar komið þeim lögréttumönnum að gagni sem höfðu hana undir höndum á 17. öld.

     Guðrún Ása Grímsdóttir