Veróníkubæn og Kristur á tignarstól

Á ársfundi SÁ í vor (2011) afhenti þjóðminjavörður stofnuninni til varðveislu 58 handritsbrot á skinni sem eru í eigu Þjóðminjasafns Íslands. Þessi handrit verða framvegis í vörslu Árnastofnunar en halda safnmörkum sínum (Þjms). Sum þessara brota eru mjög gömul svo sem skinnblaðið nr. 241 sem Jón Borgfirðingur færði Þjóðminjasafninu að gjöf árið 1865. Á því er merkileg latnesk bæn sem skrifuð hefur verið á blaðið nálægt 1300. Þetta er svonefnd Veróníkubæn sem eignuð var Innocentiusi III páfa (1198-1216).

 
Hægt er að stækka myndirnar með því að smella á þær.

Á miðöldum var sérstök helgi á fáeinum myndum af ásjónu Krists vegna þess að talið var að þær væru ekki gerðar af manna höndum (acheropita) heldur hefðu þrykkst á dúk fyrir kraftaverk þegar Kristur þerraði andlit sitt. Frægust þessara mynda og einn helgasti dómur Vesturlanda var Veróníkan í Péturskirkjunni í Rómaborg. Álitið var að hún væri hinn upprunalegi dúkur heilagrar Veróníku sem andlitsdrættir Krists mörkuðust á þegar hann strauk með honum andlit sitt, vera icona. Sögnin um dúk Veróníku hefur verið vel þekkt hér á landi á miðöldum. Hana er að finna í Péturs sögu postula, Stephanus sögu, og Gyðinga sögu og vinsældir Veróníkukvæðis sem ort var eftir siðaskipti sýna að áhugi Íslendinga á þessari gömlu sögn dofnaði síst á síðari öldum.

Í heimskróníku, Chronica majora (Cambridge, Corpus Christi, MS 26 f. 7r), sem enski munkurinn Matthew Paris setti saman í klaustri heilags Albanus á árunum 1230-40, er greint frá atburði sem átti sér stað í Rómaborg árið 1216. Það óhapp varð þegar Veróníkan var borin úr Péturskirkjunni til Heilags anda sjúkrahússins í helgigöngu um borgina á áttundardagshelgi eftir komudag vitringanna, að myndin hvolfdist við svo að höfuðið vísaði niður. Innocentius III páfi áleit þetta óheillamerki og brást við með því að yrkja umrædda bæn og hét 10 daga afláti í hvert skipti sem farið væri með hana.

Þótt Veróníkubænin sé ætluð til lestrar í einrúmi er form hennar svipað stuttri tíðagerð því að á undan sjálfri bæninni fer sálmur, andstef , miskunnarákall, faðir vor og stutt bæn til Veróníkunnar. Tíðagjörðin, sem eignuð er Innocentiusi III, fylgir frásögninni í Chronica majora. Hún hefst á tilvitnun í Davíðssálm (4:7) með orðunum „Deus qui nobis signatis lumine vultus tui“ (Guð, þú sem eftirlést okkur sem mörkuð erum ljósi ásjónu þinnar) og er nokkurn veginn samhljóða tíðagjörðinni í staka blaðinu í Þjóðminjasafninu. Á blaðinu er þó ekki heitið afláti fyrir lestur hennar eins og í Heimskróníku Matthews Paris. Hugsanlegt er að mynd af Veróníkunni hafi verið á opnu gegnt bæninni í handritinu sem blaðið er úr. Það þarf þó ekki að vera því að Veróníkubænir eru í handritum án mynda. Ekki er heldur kunnugt um Veróníkumyndir í kirkjum hér á landi á 14. öld svo öruggt sé. Ekki var talið skilyrði að bænin væri lesin frammi fyrir sjálfri Veróníkunni í Péturskirkjunni. Aflátsheitið hafði því hvorki staðbundin né landfræðileg takmörk enda breiddist tilbeiðsla Veróníkumynda ört út og átti aflátið vissulega mikinn þátt í því. Ekki er vitað hvenær eða eftir hvaða leiðum tíðagjörðin sem eignuð er Innocentiusi III barst til Íslands. Þegar haft er í huga að Matthew Paris dvaldi við hirð Hákonar Magnússonar Noregskonungs árið 1248-49 gæti hún hafi borist hingað frá Englandi um Noreg.

Hinum megin á blaðinu er máð mynd af Kristi í tignarsæti almættisins. Hann snýr beint fram og situr teinréttur í hásæti undir rauðleitum oddboga. Boginn gengur yfir og undir grænan rammann að ofanverðu og hvílir á súluhöfðum í hliðum hans. Kristur er ungur og skegglaus með krossmerktan geislabaug. Hann er klæddur grænum, ermalausum yfirkyrtli með miklum trogmynduðum klæðafellingum. Tiginmannlegar stellingar Krists og einfaldur ramminn gefa myndinni sterkt og veggmyndalegt yfirbragð. Kristsmyndinni svipar til myndar af Kristi í orðubók (AM 679 4to, f. 59v) frá þriðja fjórðungi 13. aldar. Báðar tvær eru stílfræðilega skyldar lýsingum í enskum handritum, einkum verkum svonefnds Sarum meistara og samstarfsmanna hans, sem störfuðu á árunum 1245–1255, að líkindum í Salisbury á Englandi. Stíll hópsins á sér rætur í enskum handritum frá árunum 1220–1240 svo sem Glazier-saltaranum og skyldum handritum. Upphaf þessa stíl má rekja aftur til svokallaðs Muldenfaltenstíls sem var við lýði á millibilstímanum milli rómanska og gotneska stílsins á árunum 1180-1220.

Ekki er hægt að fullyrða hvaða efni hefur verið á því handriti sem staka blaðið er úr. Erlendis er Veróníkubænir einkum að finna í sölturum og tíðabókum. Dæmi eru um að þær hafi verið þýddar úr latínu á þjóðtungur, en ekki er vitað um þær í íslenskri þýðingu. Sambærileg Kristsmynd í orðubókinni AM 679 4to gæti líka bent til að blaðið sé úr helgisiðahandriti og hugsanlegt að Veróníkubæninni hafði verið bætt inn á auða síðu í handritinu.

Guðbjörg Kristjánsdóttir / SÓ