kafli5

Handritin heim

Árni Magnússon (1663-1730) var fornfræðingur og handritasafnari. Hann safnaði öllum þeim handritum og skjölum sem hann komst yfir. Hann flutti safn sitt til Kaupmannahafnar en hluti þess glataðist í eldi í Kaupmannahöfn 1728. Árni ánafnaði Hafnarháskóla safn sitt og við hann eru kenndar Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum  og Arnamagnæanske Kommission í Kaupmannahöfn.
    Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi var sameinuð fleiri stofnunum árið 2006 og heitir nú Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Stofnunin er háskólastofnun og hlutverk hennar er meðal annars að varðveita og hafa umsjón með þeim handritum og skjölum sem flutt hafa verið til Íslands frá Danmörku.
    Íslendingar töldu handritin íslenska þjóðardýrgripi og beittu sér fyrir að fá þau aftur heim til Íslands. Danir tóku því fjarri í fyrstu en samningar um skil handritanna tókust milli landanna 1961. Afhending handritanna hófst með því að freigáta úr danska flotanum sigldi til Íslands 1971 með tvær höfuðgersemar íslenskra handrita; Flateyjarbók og Konungsbók Snorra-Eddu.   Þau eru nú varðveitt á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ásamt öðrum íslenskum handritum sem flutt hafa verið heim frá Danmörku.
    Í Konungsbók eddukvæða eru varðveitt kvæði af fornum goðum og hetjum. Fremst er kvæðið Völuspá, veraldarsaga sem segir frá sköpun heims og manna. Kvæðið er lagt í munn völvu (spákonu) sem segir frá sköpuninni, ófriði í heimi goðanna og atburðum sem leiða til ragnaraka, en þau ná hámarki er heimur allur brennur. Í lokakafla kvæðisins segir frá því hvernig heimurinn rís á ný. Næst Völuspá er hið mikla heilræðakvæði Hávamál. Fyrsti hluti kvæðisins hefur verið nefndur Gestaþáttur. Þar segir frá manni sem kemur ókunnugur í heimsókn og hvernig hyggilegast sé fyrir hann að haga sér. Þá er fjallað um mikilvægi visku og vináttu o.fl.

Úr Hávamálum

Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman,
þá varð eg villur vega.
Auðigur þóttumst
er eg annan fann,
maður er manns gaman.

Afhendingu handrita lauk 1997. Með farsælli lausn handritamálsins hvarf óvild í garð Dana að mestu leyti á Íslandi. Handritamálið hefur haft fordæmisgildi í alþjóðasamskiptum fyrir þjóðir sem reynt hafa að sækja eigin fornminjar í hendur fyrrum nýlenduherra.