kafli5

 

Hrein íslenska?

Íslendingum hefur verið það metnaðarmál að eiga sér forna tungu lítt breytta, sem gerði þeim kleift að lesa og skilja fornbókmenntir sínar. Sú viðleitni að vilja varðveita tunguna, hreinsa hana af slettum og leggja áherslu á nýyrði af íslenskum orðstofnum, er ekki hvað síst sprottin af þessu.
    Tungumálið er mönnum hjartans mál, menn ræða sín á milli hvort réttara sé að segja þetta eða hitt, málfarsþættir eru í útvarpi og dagblöðum og fagstéttir vinna ötullega að því að þýða fagorð hver á sínu sviði í s.k. íðorðasöfn. Mörgum þykir þessi málstefna ganga fulllangt og tala jafnvel um mállögreglu í því sambandi og benda á að hið ágætasta fólk þori jafnvel ekki að opna munninn af ótta við að tala ekki rétt mál og eiga á hættu að vera áminnt af sér hæfari málnotendum.
    En óhætt er að fullyrða að flestir séu sammála um að varðveita íslenska tungu sem minnst breytta þótt menn geri sér grein fyrir að erfitt getur reynst að sporna gegn erlendum tökuorðum á tímum ört vaxandi tölvu - og tækniþróunar. Með tækninni berast ensk máláhrif sem menn hafa áhyggjur af, og reyna að vinna gegn, en erfiðara getur reynst að verjast amerískum menningaráhrifum sem að sumra áliti eru orðin ærin.


Nokkur nýyrði
sjónvarp (ens. television), útvarp (ens. radio), tölva (ens. computer), sími (ens. telephone), helgi (ens. weekend)

Fáeinar slettur
djús (ens. juice): ávaxtasafi, að fíla e-ð (ens. to feel sth.): að njóta e-s, bæ-bæ (ens. bye-bye): bless, ókei (ens. O.K.): allt í lagi