Hús íslenskunnar

Hús íslenskunnar mun rísa við Arngrímsgötu 5. Lóðin afmarkast af Suðurgötu til austurs, Guðbrandsgötu til suðurs, Arngrímsgötu til vesturs og Þjóðarbókhlöðu til norðurs. Framkvæmdin er hluti af fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem ákveðin var í maí 2012.

Tölvugerð mynd af Húsi íslenskunnar. Tölvugerð mynd af Húsi íslenskunnar. Hægt er að stækka myndina. Í byggingunni verður fjölbreytt starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands. Þar verða ýmis sérhönnuð rými, s.s. fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á fornum íslenskum skinnhandritum, vinnustofur kennara og fræðimanna, lesrými fyrir nemendur á mismunandi stigum háskólanáms, fyrirlestra- og kennslusalir, almennar skrifstofur, bókasafn með lesrými auk kaffistofu og tækni- og stoðrýma. Húsið verður á þremur hæðum auk kjallara undir hluta þess. Heildarflatarmál hússins er tæpir 6.500 m2. Byggingin er sporöskjulaga og er formið brotið upp með útskotum og inngörðum. Að utan er byggingin klædd opnum málmhjúp. Gönguleið, meginás milli Háskóla Íslands og Þjóðarbókhlöðu, liggur í gegnum bygginguna sem er umlukin grunnri spegiltjörn. Innan sporöskjulaga formsins er komið fyrir inngörðum sem skrifstofur og fleiri rými opnast út í. Hönnunin er vistvæn og framkvæmd samkvæmt Breeam, vottunarkerfi um vistvænar byggingar. Hornsteinar arkitektar ehf. hanna húsið en tillaga þeirra varð fyrir valinu í samkeppni um hönnun hússins sem haldin var á vormánuðum 2008. Tæknilegur ráðgjafi þeirra var Almenna verkfræðistofan hf. Í stýrihópi sátu fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Framkvæmdir hófust með táknrænum hætti 11. mars 2013 þegar Katrín Jakobsdóttir tók fyrstu skóflustunguna.