Karlamagnús og aðrir merkisberar kirkjunnar

AM 180 a–b fol.

Karlamagnússaga. Stækka má myndina með því að smella á hana. Þetta samsetta skinnhandrit var bersýnilega fremur ætlað til lestrar en sem augnayndi. Fyrri hluti þess geymir aðra af tveimur megingerðum Karlamagnúss sögu, samsteypu þýddra sagna sem allar tengjast Karli mikla (742–814), konungi Franka og Langbarða og fyrsta keisara hins heilaga rómverska ríkis. Söngvaskáld miðalda kváðu um afreksverk hans og orustur í bundnu máli, fyrst munnlega en síðar innan þeirrar bókmenntagreinar sem á fornfrönsku er kölluð chansons de geste. Af slíkum kappakvæðum er þekktast Rólantskvæði (La Chanson de Roland). Íslenska samsteypan Karlamagnúss saga má kallast sagnasveigur, þar sem ritstjóri eða skrifari hefur safnað saman svo margvíslegum sögum um eina aðalpersónu eða meginstef sem verða má í samfelldri frásögn. Þetta efni er síst minna að umfangi en norrænar þýðingar á rómönsum, eins og Parcevals sögu og Tristrams sögu ok Ísöndar, sem einnig voru þýddar úr fornfrönsku.

Handritið AM 180 a–b fol. er illa farið og fjölmörg blöð þess ýmist glötuð eða skemmd. Hugsanlegt er að í því hafi upphaflega verið allt að 170 blöð í folio-stærð en þau eru nú 112. Bókinni var skipt upp í tvo hluta í Kaupmannahöfn um miðja 19. öld. Ástæðan fyrir því kann að hafa verið sú að textasyrpan í seinni hlutanum (b) virðist við fyrstu sýn ótengd Karlamagnúss sögu (a). En er það svo í raun?

Þegar Karlamagnúss saga er skoðuð sem samsteypuverk kemur fljótt í ljós að það er ekki persónan Karl mikli sem er samnefnari hennar, heldur fyrst og fremst sú þýðing sem hann og meðreiðarsveinar hans höfðu fyrir viðgang kristinnar trúar og kristilegra gilda. Textarnir í seinni hluta handritsins hafa svipaðar áherslur. Einhverjum virðist hafa þótt ástæða til að auka við hið hefðbundna kristilega og sögulega yfirlit sem einkennir Karlamagnúss sögu í 180 a og bæta við bókina sambærilegum textum sem nú mynda 180 b. Útlit síðnanna í seinni hlutanum er mjög líkt því sem sjá má í fyrri hlutanum og gæti hafa verið sniðið eftir honum. Í 180 b eru tveir hlutar úr Knýtlinga sögu, þar sem Danakonungurinn Knútur helgi er hinn miðlægi kristni fulltrúi, auk frásagna um jarteinir heilagrar Katrínar og dýrlingasögu, Vítuss sögu, sem hvort tveggja ber vott um skýra kristilega helgisagnaáherslu. Lárentíuss saga Hólabiskups er til marks um áhuga á íslenskri kirkjusögu en Dúnstanuss saga, sem einnig er biskupasaga, fjallar um enskan kennimann sem var tekinn í dýrlingatölu eftir dauða sinn. Tveir textar í handritinu eru venjulega taldir með rómönsum: Bærings saga, sem einkennist af sterkum siðferðisboðskap og fellur því vel inn í heildina, og Konráðs saga keisarasonar, sem leggur mikið upp úr réttri breytni. Frá þessu sjónarmiði má því segja að í heild sé innihald beggja hlutanna, AM 180 a og b, til merkis um úthugsaða og yfirgripsmikla samkvæmni í efnisvali.

Líkur benda til þess að handritið hafi ekki verið bundið inn í upphafi heldur legið laust í kverum. Það er verk nokkurra nafnlausra skrifara (a.m.k. þriggja) sem líklega voru að störfum á norðanverðu landinu um aldamótin 1500. Stærð handritsins og fjölskrúðugt efni, sem svo listilega er fellt saman, ber metnaði hinna óþekktu skrifara fagurt vitni.

Christopher Sanders Karlamagnússaga. Stækka má myndina með því að smella á hana.