Skip to main content

Leiðbeiningar um íðorðastarf

Útgáfuár
2004
ISBN númer
9979-842-61-X
Heidi Suonuuti tók saman.

Formáli að íslenskri þýðingu:
Þetta rit er ætlað orðanefndum á Íslandi og ritstjórum orðasafna í orðabanka Íslenskrar málstöðvar sem og þýðendum, kennurum, fræðiritahöfundum og öðrum þeim sem taka saman íðorðaskrár af einhverju tagi eða þurfa af öðrum ástæðum að glöggva sig skipulega á sérfræðilegum orðaforða og vilja nota til þess staðlaða og alþjóðlega viðurkennda aðferð.
Árið 1991 gaf Íslensk málstöð út Leiðbeiningar fyrir orðanefndir, höf. Ari Páll Kristinsson, Sigrún Helgadóttir og Sigurður Jónsson, fjölr. sem handrit. Þar fjallaði Sigrún Helgadóttir m.a. um skipulag íðorðastarfsemi (í 1. kafla) og gagnagrunn fyrir skrásetningu á íðorðum ásamt dæmum (í 4. kafla) og Sigurður Jónsson tók saman almennan inngang að íðorðafræði (í 2. kafla). Enginn vafi er á því að þessir kaflar þeirra Sigrúnar og Sigurðar hafa nýst mörgum vel og gert það gagn sem til var ætlast. Eftir að orðabanki Íslenskrar málstöðvar var tekinn í gagnið 1997 minnkaði raunar þörf fyrir sumt í þessu ritinu; það á einkum við um efni 4. kafla. Ari Páll Kristinsson samdi kaflann um íslenska orðmyndun í sama riti (3. kafla). Sá kafli hefur verið tekinn til rækilegrar endurskoðunar og kemur út sem sjálfstætt rit samhliða þessu: Orðmyndun. Um leiðir til að auka íslenskan orðaforða. Smárit Íslenskrar málnefndar 3, 2004.
Tilgangur þessarar útgáfu er að endurnýja íðorðaleiðbeiningar af hálfu Íslenskrar málstöðvar og Íslenskrar málnefndar og freista þess jafnframt að vanda betur til slíkrar útgáfu en unnt var 1991. Og í stað þess að leita samninga um að gefa út á ný fyrrgreinda kafla úr bráðabirgðaútgáfunni, með þeim endurbótum sem nauðsynlegar voru, blasti við önnur hentugri leið: Sex árum eftir að Íslensk málstöð gaf út sínar Leiðbeiningar fyrir orðanefndir höfðu norrænu íðorðasamtökin Nordterm, sem Íslensk málnefnd á aðild að af Íslands hálfu, gefið út vandaðar leiðbeiningar um íðorðastarf, fyrst 1997 og endurbætta gerð 2001, undir heitinu Guide to Terminology sem rit nr. 8 í ritröð Nordterm. Höfundur leiðbeininganna er þekktur finnskur íðorðafræðingur, Heidi Suonuuti. Íslensk málnefnd á sjálfkrafa útgáfurétt á íslenskri þýðingu ritsins án endurgjalds sem aðili að Nordterm. Guide to Terminology hefur nú þegar komið út á esperantó (1998), króatísku (1999) og sænsku (2004) auk þess sem til eru frágengin handrit að kínverskri og finnskri útgáfu. Íslenska þýðingin hefur fengið heitið Leiðbeiningar um íðorðastarf. Ágústa Þorbergsdóttir bar hitann og þungann af þýðingunni og frágangi verksins.
Íslenska þýðingin fór að nokkru leyti eftir sænsku gerðinni sem kom út fyrr á þessu ári á vegum Terminologicentrum TNC undir heitinu Terminologiguiden. En introduktion till terminologiarbete i teori och praktik. Eins og fram kemur í formála sænsku þýðingarinnar fylgdi þeirri þýðingu talsverð endurskoðun á ritinu. Allar þær breytingar voru gerðar í samráði við Heidi Suonuuti. Hún hafði ekki síst haft staðlafólk í huga við fyrstu útgáfu ritsins en markhópur sænsku þýðingarinnar, eins og hinnar íslensku, er breiðari, þ.e. fyrst og fremst venjulegir sérfræðingar sem semja íðorðasöfn. Endurskoðunin miðaði því að því að gera ritið notadrýgra og aðgengilegra fyrir fólk sem ekki er vant staðlavinnu. T.a.m. var 4. kafli styttur og endurbætur einnig gerðar á 3., 5. og 6. kafla sem og á staðlaskrám og ágripinu um íðorðastarf í stuttu máli. Í íslensku þýðingunni hefur dæmum verið breytt sums staðar svo að betur hæfi íslenskum aðstæðum og máli og íðorðalistinn miðast vitaskuld við íslensku.
Íslensk málstöð nýtur stuðnings úr tungutæknisjóði menntamálaráðuneytis til að gefa þetta rit út. Jafnframt styrkti sjóðurinn útgáfu endurbættra leiðbeininga um orðmyndun sem nefndar voru hér á undan og koma út sem Smárit Íslenskrar málnefndar 3 samhliða þessum leiðbeiningum um íðorðastarf almennt sem eru fjórða ritið í smáritaröðinni.
Tungutæknisjóður styrkti einnig endurbætur á forritum orðabanka Íslenskrar málstöðvar sem gerðar voru 2003-2004. Orðabankinn var tekinn í gagnið 1997 og síðan hefur orðasöfnum í bankanum fjölgað hratt sem og heildarfjölda færslna í orðabankanum. Þá hefur almenn notkun orðabankans vaxið hröðum skrefum ár frá ári. Hvort tveggja kallaði á endurbætur á hugbúnaði og er þeim lokið þegar þetta er ritað. Orðabankinn er án efa öflugasta hjálpargagn höfunda íðorðasafna á Íslandi. Sjá nánar: www.islenskan.is.
Heidi Suonuuti hefur kynnt sér íslensku útgáfuna og samþykkt hana fyrir sitt leyti.
Ari Páll Kristinsson
Íslenskri málstöð

Sækja sem PDF skrá