Arfur og endurnýjun: hvað býr í íslenskum orðaforða?

Málþing í Reykholti 1. desember 2007

Útdrættir úr erindum

Ari Páll Kristinsson
Smíð
, lególeikur, endurvinnsla. Þankar um nýyrði og málstefnu fyrr og nú


Eftirfarandi staðhæfingar lýsa viðteknum skoðunum:
  1. Nýyrði úr eldri innlendum orðhlutum eru sterkt einkenni á íslenskum orðaforða samanborið við önnur norræn mál.
  2. Hreintungustefna á sviði orðaforða er einn gildasti þáttur íslenskrar málstefnu.
Í erindinu verður hugað að sambandi íslenskra nýyrða og íslenskrar málstefnu í ljósi fullyrðinganna. Spurt verður tveggja spurninga:

Hvernig tengist myndun nýyrða íslenskri málstefnu? Þegar leitað er svara við þessari spurningu má m.a. rifja upp að hefð fyrir orðmyndun úr innlendum orðhlutum er eldri í íslensku en hreintungustefna sem hugmyndafræði. Rakin verða rök fyrir því sjónarmiði að í íslenskri nýyrðasmíð spili saman hreintungustefna og einhvers konar kerfislægt samhengi innan orðaforðans (sbr. t.d. Jón Hilmar Jónsson 1998:309).

Hvernig tengist notkun nýyrða í ræðu og riti íslenskri málstefnu? Hér verður m.a. gengið út frá því að nýyrði einkenni oft málsnið formlegra aðstæðna og ritaðra texta en ýmis tökuorð einkenni fremur málsnið óformlegra aðstæðna og talaðs máls (sbr. t.d. Guðrúnu Kvaran og Hönnu Óladóttur 2005:3). Rætt verður hvernig þetta skýrist af dulinni og sýnilegri málstefnu.

Í erindinu verður jafnframt gerð grein fyrir því að svör við ofangreindum spurningum geta m.a. ráðist af þeim skilningi sem lagður er í hugtökin nýyrði og málstefna.


Ásta Svavarsdóttir og Veturliði Óskarsson
Annarleg sprek á ókunnugri strönd.  Tökuorð í íslensku fyrr og nú

Önnur meginuppspretta breytinga og nýjunga í málum eru áhrif annarra mála og þetta á ekki síst við um orðaforðann. Þótt tökuorð séu hlutfallslega fá í íslensku miðað við mörg önnur tungumál eru þau eigi að síður talsverður hluti íslensks orðaforða og mörg orð sem nú eru notuð í daglegu máli eiga rætur í öðrum málum. Mörg þeirra eru gömul, önnur yngri og þau bera það alls ekki öll með sér að vera aðkomuorð.
  • Hvaðan komu þessi orð og hvenær?
  • Hvernig bárust þau í íslensku og hvers vegna?
  • Hver notar þau og í hvaða samhengi?
  • Og hvernig er farið með þau?
Um þetta verður fjallað í erindinu og tekin dæmi af gömlum og nýjum tökuorðum. Áhersla er lögð á miðlágþýsk áhrif fyrir 1500 og á erlend áhrif í nútímamáli. Þessi tvö tímabil eru skoðuð og borin saman og fjallað er um það sem er líkt og ólíkt í málaðstæðum og máláhrifum á þessum tveimur tímaskeiðum í íslenskri málsögu.


Guðrún Kvaran
Engi lifir orðalaust. Nokkur atriði úr sögu íslensks orðaforða

Í fyrirlestrinum verður rætt um orðaforðann í söglegu ljósi. Byrjað verður á þeim efniviði sem barst til landsins með landnámsmönnum og stiklað á stóru frá landnámi til samtímans. Fyrst verður tímabilið frá landnámi til siðskipta skoðað og dæmi verða nefnd um orð sem finna má í textum frá þessum tíma og varpa ljósi á breytta siði og venjur. Næst verður litið yfir tímabilið frá siðskiptum til svonefndrar hreintungustefnu. Snemma á því tímabili urðu áhrif kirkjunnar umtalsverð. Réð þar miklu að prentlistin kom til sögunnar og fyrsta prentsmiðjan var í eigu Hólastóls. Rifjuð verður upp áhrif fræðslustefnu 18. aldar og áhrif hennar á orðaforðann. Í síðasta hluta erindisins verður tímabilið frá hreintungustefnu til samtímans rakið og nefnd dæmi um hvað gerðist og helst hefur verið að gerast á því tímabili.


Jón G. Friðjónsson
Orð eru dýr. Samspil merkingar og setningarfræði

Í elsta máli vísaði andstæðan fyrireftir til tíma en andstæðan eftirfyrir til rúms. Í nútímamáli hins vegar vísar andstæðan á undaná eftir til tíma en á eftirá undan hins vegar til rúms. Hér hafa því orðið umtalsverðar breytingar sem sýna má svo:

Elsta mál
  Nútímamál
fyrir + þf. [tími] eftir + þf. á undan [tími] á eftir (ao.)
eftir + þgf. [rúm] fyrir + þgf. á eftir [rúm] á undan

Breytingar þessar eru á sviði setningafræði, þær varða hlutverk og merkingu tiltekinna forsetninga. En þær tengjast einnig orðmyndun og merkingu samsettra orða. Eftir breytinguna fyrir > undan > á undan geta samsett orð sem hefjast á undan- vísað til tíma (undanfari, að undanförnu) og að sama skapi ættu orð sem hefjast á fyrir og vísa til tíma (fyrirfarandi) að hafa misst gagnsæi sitt og úrelst.

Efni erindisins er að athuga orð sem hefjast á undan- og fyrir-. Kannað verður annars vegar hvort slík samsett orð eru til vitnis um breytingar á sviði setningafræði og hins vegar hvort aldur þeirra og merking samræmist þeim setningafræðilegu breytingum sem minnst var á. Enn fremur verður vikið að þeim merkingarflokkum forsetninganna fyrir og undan sem tengjast fyrrnefndum breytingum.


Jón Hilmar Jónsson
Hvað segir orðabókin?


Yfirgripsmestu lýsingu á orðaforðanum er að finna í orðabókum. Sú lýsing kemur fram í afar breytilegum myndum, enda eru forsendurnar ólíkar og hverri einstakri orðabók er ætlað að þjóna sínum sérstaka tilgangi. Sumar orðabækur eru mótaðar af því viðhorfi að miklu skipti að varðveita orðaforðann sem best og að orðin með merkingu sinni og öðrum notkunareinkennum fái að halda gildi sínu sem orðabókarefni þótt notkun þeirra sé bundin liðinni tíð og hugarheimi genginna kynslóða. Í öðrum ræðst orða- og efnisvalið fyrst og fremst af viðleitni til að draga fram notkunareinkenni orðanna á tilteknum tíma eða tímabili á grundvelli tiltækra heimilda.

Þessi greinarmunur tengist annarri átakalínu í lýsingu orðaforðans, þar sem vegast á leiðsögn um viðeigandi mál- og orðanotkun annars vegar og sem hlutlægust lýsing á raunverulegri notkun orðanna hins vegar.

Í almennri orðabók sem tekst á við orðaforða þjóðtungunnar með skírskotun til samtímans en í sögulegu ljósi er reynt að birta sem heillegasta mynd af orðaforðanum og sameina þessi ólíku sjónarmið eins og tök eru á. Í augum orðabókarnotenda hefur þessi mynd þó löngum verið harla brotakennd. Það á ekki síst rót sína að rekja til þess hvernig efnisskipan og framsetningu orðabóka hefur verið háttað.


Kristján Árnason
Að leggja sér orð í munn: Erlend orð og íslenskt hljóðafar

Ég hyggst velta því fyrir mér hvernig erlend orð (mestmegnis ensk) koma fram í „íslensku“ tali. Meginspurningin er hvort orð eins og experimental í segðum eða segðahlutum eins og „...experimental notkun á netþjónustu ...“ (raunverulegt dæmi), er hluti af íslenskri málnotkun eða hvort tímabundið er skipt yfir í ensku með málvíxlum (code-switching). Hvernig er hægt að skera úr því? Getum við sagt að málnotandi skipti tímabundið yfir í ensku innan eins og sama nafnliðar? Fróðlegt er að athuga hljóðkerfisform orðanna. Í dæmum eins og þessu er hugandi að því hvort gómfilluhljóðið er borið fram sem önghljóði eða lokhljóði á undan /p/ í exp-, hvort afröddun verður í –mental og hvar aðaláherslan lendir (á fyrsta eða fjórða atkvæði o.s.frv.). Ef við gerum ráð fyrir málvíxlum þýðir það væntanlega að enska „ráði“ í fyrri hluta nafnliðarins experimental notkun og svo taki íslenska við. En er þá „hrein“ enska í fyrri hluta og „hrein“ íslenska í seinni hluta nafnliðarins? Eða verður orð sem er hluti af „íslenskum“ texta þar með að „íslensku“ orði, og ef svo, í hvaða skilningi?


Vésteinn Ólason
Hugtök og heiti í bókmenntafræði
Fyrst verður stuttlega vikið að þeim frændum Snorra og Ólafi hvítaskáldi og hugtakanotkun þeirra. Lengi eftir þeirra dag takmarkast bókmenntaumræða nær alveg við bragfræði og stílfræði, en frá því um 1970 fara að koma fram fleiri hugtök og heiti sem notuð eru í bókmenntakennslu. Vikið verður að kveri Hannesar Péturssonar, Bókmenntir 1972, og ritum kennara við H.Í.: Brag og ljóðstíl Óskars Halldórssonar, kennslubókum Njarðar P. Njarðvík og stílfræði Bjarna Guðnasonar.

Meginviðfangsefnið verður ritið Hugtök og heiti í bókmenntafræði sem kom út 1983 og Jakob Benediktsson ritstýrði. Rætt um stefnu þá sem kemur fram í ritinu og helstu nýjungar sem þar er að finna. Eftir 1983 hefur vitaskuld mikið komið fram af hugtökum, sem ekki hafa alltaf lifað af, en varla verður tími til að fjalla um það tímaskeið.