Útdrættir

Til baka: Málþing um íslensku sem annað og erlent mál...
 

Málstofa 1: máltileinkun | 2: kennslufræði | 3: milli mála | 4: mál og menning

 

Málstofa 1. Rannsóknir á máltileinkun

 

María Garðarsdóttir: Kortlagning íslensks millimáls og hagnýt notkun stigveldis

Stigveldisspá um tileinkun málfræði í íslensku hefur verið lögð fram á grundvelli úrvinnslukenningarinnar (e. processability theory, sjá Pienemann 1998 og 2005) með hliðsjón af öðrum og skyldum tungumálum (María Anna Garðarsdóttir og Sigríður Dagný Þorvaldsdóttir 2012; Gísli Hvanndal Ólafsson 2015). Þessi spá hefur hins vegar ekki verið staðfest með rannsóknum á millimáli málnema.

 Í þessum fyrirlestri verður sagt frá rannsókn sem hefur það að meginmarkmiði að kortleggja þróun málfræðinnar í íslensku millimáli. Rannsóknin náði til 30 málnema sem stunduðu nám í íslensku sem öðru máli í eitt skólaár, frá september til maí. Gögnin í rannsókninni eru tvö textasöfn, af ólíkum toga, sem málnemarnir skrifuðu í lokaprófum í desember, eftir þriggja mánaða nám, og í maí, eftir átta mánaða nám. Gögnin voru greind eftir aðferðafræði úrvinnslukenningarinnar.

Kannað var hvort tileinkunarferli setningarlegra og beygingarlegra málfræðiatriða er í samræmi við stigveldisspána. Þá verður að lokum sagt frá því hvernig hægt er að nýta úrvinnslukenninguna á hagnýtan hátt í kennslu og mati á tungumálafærni.

 

Gísli Hvanndal Ólafsson: Föll og sagnbeyging

Nokkuð hefur verið um rannsóknir á þróun falla í íslensku sem öðru máli í anda úrvinnslukenningarinnar (María Anna Garðarsdóttir og Sigríður Dagný Þorvaldsdóttir 2012; Sigríður Þorvaldsdóttir og María Garðarsdóttir 2013; María Garðarsdóttir 2017 og 2018 [væntanlegt]; Gísli Hvanndal Ólafsson 2015).

Niðurstöður rannsóknar á þróun málfræði í íslensku millimáli verða notaðar til þess að raða föllum og sagnbeygingu úr millimálinu á stigveldi úrvinnslukenningarinnar. Fallbeyging hefur minna verið rannsökuð en ýmis önnur málfræðiatriði innan úrvinnslukenningarinnar og því óljósara hvar þau eiga heima á stigveldinu. Hið sama má segja um sagnbeygingu, sem er til dæmis mun ríkari en í ensku, sem mikið hefur verið rannsökuð, og því ekki víst að beygingin tilheyri sama stigi í málunum tveimur. Með því að bera fall- og sagnbeygingu saman við önnur málfræðileg atriði, sem þegar hefur verið raðað á stigveldinu, má finna þeim fyrrnefndu stað í tileinkarferlinu.

 

Kriselle Lou Suson Jónsdóttir/Renata Emilsson PeskovaFjöltyngd máltaka og staða íslenskuþekkingar: Tveir drengir sem búa við fleiri en eitt mál á Íslandi

Kynntur verður hluti langtímatilviksrannsóknar um tvo fjöltyngda drengi frá tveimur mismunandi heimilum, sem hefur það að markmiði að lýsa málumhverfi þeirra, máltöku og tungumálanámi frá fæðingu og skoða jafnframt sjálfsmynd þeirra, tungumálanotkun, félagsleg tengsl og námsárangur. Fræðilegur rammi samanstendur af rannsóknum sem fræðimenn gerðu með sínum börnum (Leopold, 1939-1949; Hoffmann, 1985; Ringblom, 2012; Kopeliovich, 2013), annarsmálsfræðum (Elín Þöll Þórðardóttir og Anna Guðrún Júlíusdóttir, 2013; Grüter og Paradis, 2014; Hulstijn, 2015; Verhoeven, 1991) og móðurmálsfræði (e. heritage language studies) (Trifonas og Aravossitas, 2017).  Gögnin sem liggja fyrir eru dagbækur, ljósmyndir, hljóðupptökur, myndskeið, textar ritaðir af börnum, niðurstöður úr skimunum, vitnisburðir o.fl. Aðferðafræðin er blönduð en að sinni verða niðurstöður nokkurra mælinga settar í samhengi við tungumálastefnu fjölskyldna drengjanna. Í þessu erindi verða kynntar mælingar, t.d. Brigance, Hljóm-2, Efi-2, Leið til læsis, LOGOS, Milli mála og samræmd próf sem gerðar voru fyrstu átta ár ævi þeirra. Niðurstöður gefa til kynna að drengirnir hafa undantekningalaust skorað innan eðlilegra aldursmarka í íslensku (hljóðkerfisvitund, lestrarhraði, skilningur, tjáning, orðaforði) en á sama tíma þróað með sér virkt fjöltyngi í 3-4 tungumálum (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013; Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, 2014). Rannsókn þessi er fyrsta langtímatilviksrannsókn um fjöltyngd börn sem hafa fæðst og alist upp á Íslandi.

 

Þórhildur Oddsdóttir: Máltileinkun í íslensku og dönsku

Nemendur í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands koma frá öllum heimshornum og eru afar fjölbreyttur hópur. Nemendur sem læra dönsku sem erlent mál í íslenskum grunn- og framhaldsskólum eru mun einsleitari hópur. Íslendingarnir hafa lært dönsku í þrjú til fimm ár, en útlendingarnir hafa sumir bakgrunn frá skóla í heimalandinu eða notfært sér Icelandic online.

Þetta eru vissulega ólíkir hópar – en samt ákveðin atriði í máltileinkun hjá báðum hópum sem líkjast mikið. Við yfirferð á ritunarverkefnum hef ég rekið augun í ákveðin setningafræðileg atriði sem virðast sameiginleg með málnemum beggja hópa.

Í erindinu hyggst ég bera saman ákveðna þætti úr ritunarverkefnum íslenskra dönskunema og erlendra íslenskunema og skoða hvaða þættir eru eins/svipaðir, m.a. með tilliti til sagnfærslu.

Samkvæmt úrvinnslukenningunni (Processability Theory) má ætla að máltileinkun nemendanna fylgi sama ferli þrátt fyrir ólík móðurmál og bakgrunn.


 

Málstofa 2. Kennslufræði

 

Kolbrún Friðriksdóttir: Sérstaða nema í blönduðu námi

Með notkun tölva í kennslu og námi annars máls er unnt að safna mikilvægum gögnum um nemendur og námsferlið og beita nákvæmri greiningu til að komast að því hvaða þættir í námsumhverfinu skila árangri eða hvar þarf að bæta úr. Í fyrirlestrinum verður greint frá niðurstöðum megindlegrar rannsóknar á þremur sambærilegum hópum nemenda í mismunandi námsumgjörð á Icelandic Online 2, þ.e. í blönduðu námskeiði, fjarnámskeiði og í opnu sjálfstýrðu námskeiði, sem lýsa viðhorfum nemenda til tiltekinna námskeiðsþátta. Hér er fylgt eftir niðurstöðum fyrri rannsóknar (Kolbrún Friðriksdóttir, 2017) á gagnagrunni Icelandic Online sem sýna ólíka námshegðun í hópunum þremur og að nemar í blönduðu námskeiði ljúka frekar námi en nemarnir í hinum hópunum tveimur. Í rannsókninni sem hér er til umfjöllunar er aðhvarfsgreiningu beitt í þeim tilgangi að varpa ljósi á þá þætti sem hafa mest áhrif á framvindu í netnámi og skýra sérstöðu nema í blandaðri námsumgjörð.

 

Guðlaug Stella Brynjólfsdóttir: Íslenskunám utan kennslustofunnar – Rallý-leiðin

Það er ljóst að málnotkun utan kennslustofunnar skiptir máli fyrir tileinkun annars máls. Nýjar rannsóknir á tileinkun annars máls utan kennslustofunnar sýna m.a. að það sem skiptir máli er að tala við einhvern sem kann meira í nýja málinu en nemandinn sjálfur. Það er einmitt í þessum samskiptum sem tækifæri til málanáms felast. Í fyrirlestrinum verður greint frá nýstárlegum aðferðum í kennslu og námi íslensku sem annars máls fyrir utan kennslustofuna þar sem áherslan er á tengsl kennslustofunnar við lífið utan hennar. Aðferðirnar hafa verið þróaðar á vegum samnorræns samstarfshóps í annarsmálsfræðum undir heitinu Language Learning in the Wild, þær eru framhald af Íslenskuþorpinu sem hefur verið fastur liður á námskeiðum við Háskóla Íslands. Sagt verður frá samskiptaverkefnum sem nemendur vinna fyrir utan kennslustofuna í svokölluðu samstarfsnámi þar sem áhugasvið og þarfir nemandanna eru drifkrafturinn í náminu og fjallað um viðhorf nemenda til aðferðarinnar sem fengið hefur nafnið Rallý-leiðin.

 

Sigríður Kristinsdóttir: Já, einmitt! Nýtt námsefni.

Íslenska, já einmitt! Er heiti á námsefni sem fyrirlesari er að vinna að ásamt Gísla Hvanndal Ólafssyni og Önu Stanicevic. Gerð námsefnisins byggir á rannsóknum í annarsmálsfræðum og þá sérstaklega um mikilvægi tilfinninga í námi eins og rannsóknir í taugavísindum sýna fram á (sjá til dæmis Zull, E. (2011) From Brain to Mind: Using Neuroscience to Guide Change in Education). Við gerð efnisins mun málfræðikennsla í íslensku sem öðru máli í fyrsta sinn taka mið af rannsókn, sem var gerð fyrir viðeigandi færnistig, og byggir jafnframt á sterkum fræðilegum grunni (Pienemann).


 

Málstofa 3. Milli mála

 

Halldóra Jónsdóttir: Málið.is

Kynning á vefnum Málið.is. Vefurinn Málið.is var opnaður á degi íslenskrar tungu árið 2016 í þeim tilgangi að gera þeim sem leita gagna og upplýsinga um íslenskt mál og málnotkun hægara um vik að sækja sér nauðsynlegar skýringar og leiðbeiningar. Núna er að finna eftirfarandi 7 gagnasöfn á vefnum: Beygingarlýsing íslensks nútímamáls, Stafsetningarorðabókin, Íslensk nútímamálsorðabók, Íslenskt orðanet, Málfarsbankinn, Íðorðabankinn og Íslensk orðsifjabók.

 

Þorsteinn Indriðason: Islex og íslenskukennsla

Í erindinu er ætlunin að segja frá því hvernig veforðabókin ISLEX hefur nýst við að kenna íslensku við háskólann í Bergen. Norski hluti hennar var opnaður almenningi vorið 2013 og því er komin ákveðin reynsla á notkun orðabókarinnar í kennslu.

            Á heimasíðu orðabókarinnar (Islex.is) koma fram eftirfarandi upplýsingar um notagildi orðabókarinnar:

ISLEX er ætlað að þjóna þörfum ólíkra notendahópa. Sem íslensk-skandinavísk orðabók miðast hún annars vegar við þarfir sænskra, norskra og danskra notenda, m.a. vegna þýðinga úr íslensku og náms og kennslu í íslensku á Norðurlöndunum. Hins vegar nýtist hún íslenskum notendum sem vilja finna viðeigandi orðalag á tilteknu markmáli. ISLEX felur í sér mikilvægt framlag til þess að styrkja menningartengsl og efla málskilning á milli norðurlandaþjóðanna.

Með ISLEX hafa nemendur aðgang að orðaþýðingum og þýðingum á dæmasetningum auk fastra orðasambanda. Að auki hafa nemendur aðgang að beygingarlýsingu íslensks nútímamáls (BÍN), að upplýsingum um fallstjórn einstakra sagna og um framburð einstakra uppflettiorða. Einnig er hægt að leita eftir fyrri og seinni liðum samsettra orða og afleiddra og því getur orðabókin einnig nýst til stærri verkefna þar sem ákveðin tegund orðmyndunar er skoðuð.

            ISLEX býður þannig upp á möguleika til þess að leggja fyrir nemendur annars konar og mun fjölbreyttari verkefni en áður, bæði við textaþýðingar og við úrlausn málfræðiverkefna. Að auki opnast leiðir til þess að láta nemendur spreyta sig á því að skrifa samfelldan texta. Og í rauninni má segja að góð kunnátta í notkun veforðabókarinnar sé mikilvægur þáttur í því að ná góðum árangri í íslensku máli.

 

Bjarni Benedikt Björnsson: Stækkun og notkun KLAKA – gagnagrunns um grunnorðaforða í íslensku

Gagnagrunnurinn KLAKI er öflugt kennslu- og námstæki sem auðveldar aðgengi nemenda að grunnorðaforða og beygingum og gerir þeim kleift að auka færni sína og skilning á íslensku málkerfi. Sambærilegt rafrænt kennsluefni hefur ekki verið nemendum eða kennurum aðgengilegt áður og eykur það fjölbreytileika þess stuðningsefnis og námsgagna sem í boði eru í kennslu íslensku sem annars máls.

Á KLAKA má nú finna um 5200 orð (um 3570 nafnorð, 825 sagnorð, 590 lýsingarorð og 225 atviksorð), öll merkt með sérstökum kóða fyrir beygingarflokk og einnig hljóðskipti, þátíð og lýsingarhátt þátíðar sagna. Sömuleiðis er skráð við hvert orð hvar það kemur fyrst fyrir í ýmsu kennsluefni í íslensku sem öðru máli. Gagnagrunnurinn er öllum aðgengilegur í gegnum heimasíðu Tungumálatorgs.

KLAKI hefur verið í þróun allt frá hausti 2013 og mælst mjög vel fyrir hjá nemendum og kennurum. Hefur orðaforðinn aukist jafnt og þétt, en bráðlega mun skráning orðaforða Icelandic Online 3 hefjast. Uppsetningin gerir notendum kleift að raða orðalistum upp eftir ólíkum áherslum og þörfum. KLAKI auðveldar sömuleiðis kennurum að undirbúa kennslu og finna hvaða atriði leggja þarf áherslu á. Í erindinu verður KLAKI kynntur og rætt um ýmsa notkunarmöguleika fyrir jafnt nemendur sem kennara.


 

Málstofa 4. Mál og menning

 

Katrín Axelsdóttir: Hvað er menningarlæsi og hvernig er það kennt?

Orðið menningarlæsi er tiltölulega nýtt í íslensku og hefur enn ekki ratað í orðabækur. Því bregður stundum fyrir í umræðum um menntamál, yfirskriftum ráðstefna og í námslýsingum en ekki virðast allir leggja í það nákvæmlega sömu merkinguna. Í fyrirlestrinum verða fyrst skoðuð nokkur dæmi um orðið í ýmsu samhengi og rýnt í merkingu þess. Oft virðist það vísa til þekkingar á menningu í víðum skilningi en einnig kemur fyrir að átt er við menningararfinn sérstaklega. Þá verður sagt frá því hvaða skilning nokkrir kennarar, einkum tungumálakennarar við HÍ, leggja í orðið og hvernig þeir fást við menningarlæsi í kennslu sinni. Loks verða sýnd nokkur dæmi um hvernig óhefðbundið efni á borð við sjónvarpsauglýsingar og stutt grínskets (úr smiðju Fóstbræðra og Stelpnanna) hefur verið notað með það fyrir augum að létta lund nemenda í íslensku sem öðru máli og efla um leið menningarlæsi þeirra og áhuga.

 

Eleonore Gudmundsson: Nei, mig langar að lesa bókmenntir! Aðferðir við kennslu blindra í íslensku sem öðru máli

Á vorönn 2015 var blind kona meðal nýnemanna. Aðspurð hvort hún ætlaði að læra íslensku á hljóðfræðilegum grundvelli, svaraði hún hálfhneyksluð: Nei, mig langar að lesa bókmenntir! Nú þurfti að finna rétta aðferð til að kenna þessari konu, sem hafði misst sjónina 11 ára gömul, íslensku, en það skorti þekkingu og reynslu á vandamálum blindra við tungumálanám.

Í þessu erindi mínu ætla ég að greina frá því hvaða aðstoð blindir þurfa sem byrja að læra íslensku frá grunni:

▪ varðandi tæknibúna. (braille-tölvur, hljóð-forrit, notkun icelandiconline)

▪ varðandi aðstoðarfólk (innan og utan háskólakerfis)

▪ varðandi skipulag kennslutíma og námsgagna (viðbótarefni)

▪ varðandi hópvinnu og önnur atriði sem hafa áhrif á kennsluna

▪ varðandi námsframvindu og próf

Ég mun segja frá þróun námsgagna fyrir blinda sem er í vinnslu.

 

Magnús Hauksson: Íslenskukennsla við háskóla í Þýskalandi, Austurríki og Sviss

Alllöng hefð er fyrir kennslu og rannsóknum í fornnorrænum fræðum við háskóla á þýska málsvæðinu. Kjarninn í þessari starfsemi var frá upphafi vesturnorræn mál, bókmenntir og menningarsaga. Norræn fræði voru á 19. öld einkum stunduð af germanistum og tengsl greinanna hafa  lengi verið náin (en einnig fræðafólki t.d. úr réttarsögu og samanburðarmálvísindum). Á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar má greina aukna áherslu við flestar norrænustofnanirnar á nútímabókmenntir. Upp úr 1960 voru ráðnir íslenskukennarar t.d. við háskólana í München, Kiel og eftir hlé í Greifswald (þegar fyrir seinna stríð var íslenska í boði í Greifswald og Berlín). Talsvert fyrr var farið að kenna norrænu meginlandsmálin en íslensku. Í dag er boðið upp á íslenskukennslu – mismunandi umfangsmikla – við 11-12 norrænustofnanir í Þýskalandi, Sviss og Austurríki. Í fyrirlestrinum verður saga íslenskukennslu við háskóla þar rakin og stöðu íslenskunnar innan Norðurlandafræðinámsins lýst. Dregin verður upp mynd af aðstæðum íslenskukennslunnar og tengslin við önnur svið Norðurlandafræðanna, t.d. kennsluna í forníslensku og skandinavískum nútímabókmenntum, verða tekin til athugunar. Skandinavísk málvísindi hafa aðeins sett mark sitt á ramma íslenskukennslunnar við fáar stofnanir. Þróunin og staða mála í dag verður sett í háskólapólitískt samhengi eftir því sem föng eru til. Drepið verður á íslenskukennsluefni fyrir þýska markaðinn.

 

Branislav Bédi: Íslenskukennsla með sýndarverum: beiðni um skýringar

Tölvuleikurinn Virtual Reykjavik er hannaður til þess að kenna málnemum íslenska tungu og menningu með því að eiga töluð samskipti við sýndarverur. Markmið tölvuleiksins er að kenna daglegt mál. Til þess að hanna líkamlega og munnlega tjáningu hjá sýndarverum þarf að rannsaka margháttaða hegðun fólks í raunverulegum samskiptum augliti til auglitis. Í þessari kynningu beinist athyglin að einni mjög mikilvægri framsetningu – beiðni um skýringu. Hún er ein af mest notuðum tjáningum í raunverulegum samræðum og er til þess að halda uppi snurðulausum samskiptum og forðast misskilning. Samkvæmt rannsókn á samskiptum  milli Íslendinga og útlendinga þá eru sex tegundir af skýringabeiðni notaðar þegar spurt er til vegar. Sýndarverur í tölvuleiknum voru hannaðar til að útfæra tvær af þessum tegundum, (1) brottfall (t.d. Hitt húsið?) og (2) upphrópun (t.d. Ha?). Nemendur skynjuðu útfærsluna á þeirri síðari sem náttúrulega, þ.e.a.s. þeim fannst að sýndarverur væru dónalegar þegar þær notuðu hana en þær tjáðu sig samt á náttúrulegan hátt, eða eins og Íslendingar gera í raun og veru. Þannig geta nemendur undirbúið sig betur fyrir raunveruleg samskipti við fólk og bætt þekkingu sína á notkun daglegs mál í íslenskri menningu.